Þú getur verið viss um þetta: framleiðandi mun státa af því þegar ný gerð kemur á markaðinn, eða þegar einhver gerð fer yfir milljón framleiddar einingar, eða fagnar 20 ára afmæli. Það er aðeins öðruvísi í pottinn búið þegar framleiðslu lýkur á einhverri gerðinni. Það gerist nánast alltaf hljóðlega. Sem betur fer er
Bílablogg með mjög góða heyrn.
- Á fyrstu 10 mánuðum ársins 2024 mun ákveðið frægt úrvalsmerki hætta framleiðslu á allt að fimm gerðum og engin þeirra mun hafa beinan arftaka. Ástæðan er einföld: stærsta byltingin í sögu þessa fyrirtækis er handan við hornið.
- Aftur á móti hefur annað úrvalsmerki hætt framleiðslu á tveimur frægum coupe (og roadsters) á aðeins fjórum mánuðum. Það sem meira er, á fjórða ársfjórðungi 2024 er kominn tími á annan coupe frá þessum þessum framleiðanda.
- Í júní 2024 lauk framleiðslu á eina meðalstóra jeppanum í sögu ákveðins evrópsks fyrirtækis og í lok þessa árs munu sömu örlög henda fyrsta „shooting break” bíl hjá þekktum asískum framleiðanda.
Sjö er ekki alltaf happatala
Hér eru sjö gerðir sem hættar eru í framleiðslu eða munu hætta fyrir lok árs 2024. Verið alveg róleg, þetta á eftir að koma ykkur á óvart.
Það sem meira er, flestar gerðirnar sem kynntar eru hér að neðan munu líklega ekki hafa beina arftaka.
Í þremur tilfellum erum við að tala um nýlega framleiðendur sem aðeins hafa framleitt eina kynslóð bílgerða.
Lok framleiðslu þýðir ekki alltaf að ekki sé lengur hægt að kaupa tiltekinn bíl. Stundum eru bílar sem eru að hætta í framleiðslu bara framleiddir á sérstakan lager, einkum þegar arftakinn þarf að bíða lengur en venjulega eða er alls ekki áætlaður í bili. Þetta er tilfellið með fyrsta bílinn á þessum annars sorglega lista.
Kia ProCeed (þriðja kynslóð; 2018-2024)
Árið 2018 ákvað Kia að taka djarfa ákvörðun og stækka litla fjölskyldubílinn með shooting brake útgáfu. Því miður er það hann sem verður fyrstur til að yfirgefa Ceed línu Kia.
Framleiðslu Kia ProCeed lýkur í desember 2024 og sem stendur eru engin áform um beinan arftaka þessarar tegundar.
Kia ProCeed, sem er 460,5 cm á lengd og aðeins 142,2 cm á hæð, er sportlegri valkostur við Kia Ceed skutbílinn. Athyglisvert er að restin af Ceed fjölskyldunni – Ceed, Ceed skutbíll og XCeed – er enn í framleiðslu. Það sem meira er, Ceed’inn verður sennilega stækkaður með… fólksbíl, sem mun líklegast heita K4.
VW Arteon (fyrsta kynslóð; síðan 2017)
Fallegasti Volkswagen bíllinn er ekki lengur framleiddur en það á aðeins við liftback týpuna, shooting Brake útgáfan er enn í framleiðslu.
Athyglisvert er að skutbíllinn birtist aðeins þremur árum eftir liftback gerðina (árið 2020), þegar hann var að gangast undir andlitslyftingu. VW Arteon Shooting Brake er fáanlegur í sportlegu R útgáfunni, en 320 hestafla vélin gefur hröðun frá 0 til 100 km/klst á 4,9 sekúndum.
Því miður virðist sem beinn brennslu- eða tvinnarftaki VW Arteon muni ekki birtast fljótlega.
Toyota GR Supra (fimmta kynslóð; síðan 2019)
Í júlí 2024 breyttust reglugerðir í Evrópusambandinu og Toyota GR Supra er ekki lengur í boði á svæðinu. Í þessu tilviki er framleiðslu vissulega lokið, en aðeins fyrir ESB útgáfuna. Mun bíllinn fá arftaka? Það gæti gerst, þó örugglega ekki strax.
Mazda CX-5 (önnur kynslóð; síðan 2016)
Árið 2023 var Mazda CX-5 algengasti nýi bíllinn af Mazda gerð í Póllandi, allt að 28% flotans – það er næstum þriðji hver bíll!
Á sama tíma, í mars 2024, lauk framleiðslu á evrópsku útgáfunni af CX-5 og arftakinn hefur ekki enn komið fram.
Þegar öllu er á botninn hvolft þarf að fylla bilið á milli CX-30 (439,5 cm langt og 265,5 cm hjólhaf) og CX-60 (474,5 og 287 cm í sömu röð).
Önnur kynslóð Mazda CX-5 er enn í framleiðslu, meðal annars fyrir Bandaríkjamarkað.
Audi R8 (önnur kynslóð; 2015-2024) og fleiri
Á aðeins fjórum mánuðum hefur Audi hætt framleiðslu á tveimur frægum coupe (og roadsters). Í nóvember 2023 urðu endalok Audi TT, í mars 2024 kom síðan að Audi R8.
Fáar gerðir hafa vakið eins mikla athygli fyrir Audi á 21. öldinni eins og R8. Fyrsta kynslóðin kom fram árið 2006, önnur kynslóð síðan árið 2015. Nýlega var bíllinn fáanlegur, meðal annars í útgáfunni með 620 hestafla V10, sem gefur hröðun úr 0 í 100 km/klst á 3,1 sekúndu.
Hver Audi R8 sem framleiddur var, fór í brautarprófanir og klukkutíma reynsluakstur til viðbótar áður en hann var sendur til kaupanda.
Svo virðist sem bæði Audi R8 og TT muni eiga arftaka, en þeir gætu verið rafknúnir. Á sama tíma, á fjórða ársfjórðungi 2024, lýkur framleiðslu á Audi A5 Coupe, sem verður líka líklega án arftaka í bili. Þannig er þetta þriðji coupe bíllinn með Audi merkinu á 12 mánuðum.
Jaguar XF (önnur kynslóð; 2015-2024) og fleiri
Áður en Jaguar verður að lúxusmerki frá toppframleiðanda, sem keppir meðal annars við Aston Martin og Bentley, stendur það frammi fyrir undarlegasta tímabili í sögu fyrirtækisins. Stóran hluta ársins 2025 ætlar Jaguar aðeins bjóða upp á eina gerð. Af hverju?
Í mars 2024 lauk framleiðslu á Jaguar XE, XF og F-Type og í október 2024 bíður þess sama fyrir Jaguar E-Pace og I-Pace.
Innan sjö mánaða mun breska fyrirtækið hætta við allt að fimm gerðir – aðeins Jaguar F-Pace verður áfram í boði, en framleiðslu á honum mun líka verða hætt í lok árs 2025.
Þannig að stóran hluta ársins 2025 má Jaguar aðeins selja eina gerð: F-Pace jeppann. Og hvað þá?
Þá stendur Jaguar frammi fyrir stærstu umbreytingu í sögu vörumerkisins. Jaguar á að verða lúxusmerki sem keppir ekki lengur við Audi eða BMW, heldur við Aston Martin og Bentley.
Þess vegna verður engin ný Jaguar gerð beinn arftaki XE, XF, F-Type, E-Pace, F-Pace eða I-Pace. Samkvæmt tímaritinu Autocar mun lúxusúrvalið samanstanda af aðeins þremur gerðum: 4 dyra coupe (fyrstu afhendingar líklega árið 2026), lúxusjeppa og stórum lúxusbíl (um 2029). Ætli við fáum ekki að heyra af þeirri fyrstu (gerðinni) í lok árs 2024.
Seat Tarraco (fyrsta kynslóð; 2018-2024)
Seat hefur einu sinni hoppað upp í SUV flokkinn – og hefur nú hoppað niður aftur.
Seat Tarraco, 473,5 cm á lengd, var framleiddur í Wolfsburg, móðurverksmiðju VW Group (eiganda Seat). Framleiðslu lauk í júní 2024. Ekki er fyrirhugaður beinn arftaki þessa jeppa.
Umræður um þessa grein