Bílaauglýsingar liðins tíma
Flestir þekkja bílaauglýsingar samtímans, enda varla hægt að fletta venjulegu dagblaði nema sjá þar heilsíðu auglýsingar frá hinum fjölmörgu bílaumboðum landsins. En fæstir vita hins vegar að svona auglýsingar hafa fylgt okkur í yfir hundrað ár, en hafa tekið miklum stakkaskiptum í tímans rás, bæði hvað varðar útlit og birtingastaði. Mestar hafa breytingarnar þó orðið á útliti bílanna og tegundum þeirra, sem hafa komið og horfið í gegnum áratugina.
Gaman er að skoða þessar breytingar frá sjónarhóli prenthönnunar og hinnar margþættu auglýsingamennsku.
Konur undir stýri
Fyrstu bílaauglýsingarnar tóku að birtast upp úr aldamótunum 1900 og voru þær einfaldar að allri gerð og oftar en ekki svart-hvítar, en prentvélar þessa tíma voru einslita og litprentun því dýr og alls ekki einföld. Eftir því sem leið á öldina batnaði prenttæknin og í kjölfarið jókst framboðið af litprentuðu efni.
Dagblöð voru þó áfram prentuð í einum lit og auglýsingar í þeim tóku mið af því. Hins vegar var farið að gefa út vönduð tímarit og jókst framboð þeirra umtalsvert á góðæristímanum á þriðja áratugnum.
Tímarit þessi voru ætluð fyrir ýmsa markhópa, en stærstur þeirra var þó án efa konur. Í Bandaríkjunum einum voru gefin út margskonar konublöð sem fjölluðu um ýmsa hluti, allt frá bókmenntum yfir í tísku og heimilishald. Hér virðast bílaframleiðendur hafa séð sér leik á borði og gert konur að helsta skotmarki sínu. Reyndar var það svo á þessum árum að bílar þóttu karlaverkfæri, enda vart á færi nema hraustustu manna að handleika þung stýrishjólin á þessum árum, svo ekki sé nú talað um að þurfa að snúa bílunum í gang með sveif, en slíkt þurfti að gera fyrir daga rafmagnsstartarans. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var orðið léttara að keyra bíla og kappkostuðu framleiðendur að auglýsa þá eiginleika með því að hafa konur undir stýri á bílum sínum.
Ef konur gætu keyrt bílana þeirra, þá gætu örugglega allir keyrt þá!
Samhliða þessu jókst fjöldi þeirra kvenna sem tók bílpróf og nú áttuðu bílaframleiðendur sig á því að konur voru markhópur sem borgaði sig að slæðast eftir. Í framhaldinu var litið til þeirra miðla sem konur notuðu helst, en á þessum árum voru það einkum útvarp og tímarit.
Ekki þótti gott að auglýsa myndræna hluti eins og bíla í útvarpi og því voru þeir auglýstir í öllum þeim fjölda kvennablaða sem spruttu upp í góðærinu á þriðja áratugnum og buðu upp á vandaða prentun og það oftast í lit. Má hér nefna tímarit eins og Good Housekeeping, The Ladies Home Journal og Country Life.
Tími glansmyndarinnar
Á kreppuárunum dró verulega úr bílaauglýsingum vegna samdráttar í efnahagslífinu, en eins og flestir muna frá nýliðnum atburðum þá var bílasala mjög blómleg fyrir 2008 en féll síðan gríðarlega eftir hrun.
Að sama skapi fækkaði auglýsingum, en á seinustu misserum hefur fjöldi þeirra stigamagnast á ný í kjölfar bætts efnahagsástands og aukinnar bílasölu.
Eftir síðari heimsstyrjöldina seldust allir nýir bílar eins og heitar lummur og þurftu bílaframleiðendur því að hafa lítið fyrir því að koma þeim á framfæri. Þegar kaupendamarkaðurinn tók að mettast um 1950 harðnaði samkeppnin á nýjan leik og þá var aukin áhersla lögð á nýjungar í vélbúnaði, einkum með stærri vélum og sjálfskiptingum, og stórbætt útlit.
Nú upphófst mikill glanstími í bílaframleiðslu þegar notkun á krómi og fjölbreyttum litum varð allsráðandi.
Samhliða jókst fjöldi auglýsinga, einkum í glanstímaritum, þar sem litirnir fengu að njóta sín til fullst. Segja má að hér hafi blómatími bílaauglýsinganna byrjað fyrir alvöru. Sem fyrr var iðulega notast við teikningar því þær skiluðu sér betur í prentuninni, en með bættri prent- og ljósmyndatækni jókst notkun ljósmynda í auglýsingum.
Tóku þær smám saman við af hinum teiknuðu auglýsingum og hefur það án efa verið lyftistöng fyrir ljósmyndara og fyrirsætur. Á hinn bóginn voru margir fjölhæfir auglýsingateiknarar og gátu þeir með lagni ýkt útlit bíla og gert þá bæði stærri og verklegri en þeir voru í raunveruleikanum.
Afl og snerpa kattarins
Eftir 1960 var megináhersla lögð á sjónvarpsauglýsingar og mikilvægi blaða- og tímaritaauglýsinga minnkaði að sama skapi. Á hinn bóginn jókst á þessum tíma útgáfa sérstakra bílablaða og náði fjöldi þeirra hámarki á árunum 1970 til 1990 þegar internetið hóf innreið sína. Bílablöðin kölluðu vitaskuld á mikinn fjölda bílaauglýsinga en margar þeirra voru byggðar á sjónvarpsauglýsingum.
Á sjöunda áratugnum var, auk hefðbundinna kven- og karlfyrirsæta, farið að nota hin ýmsu kattardýr við gerð sjónvarpsauglýsinga fyrir bíla, eins og ljón, tígrisdýr og hlébarða, og þá aðallega til að undirstrika afl og lipurð viðkomandi ökutækja.
Ljósmyndir sem unnar voru upp úr sjónvarpsauglýsingunum voru síðan notaðar í dagblöðum og tímaritum, ekki síst til að ítreka það sem menn höfðu áður séð á sjónvarpsskjánum.
Þetta átti eftir að breytast enn á ný þegar olíukreppan brast á skömmu eftir 1970, en þá hættu bílaframleiðendur að leggja áherslu á kraft og hraða og snéru sér þess í stað að smíði sparneytnari bíla. Þá var oftar en ekki lögð áherslu á þá hlið málsins í auglýsingum, fremur en afl og útlit, og gætir þeirrar afstöðu enn í bílaauglýsingum samtímans. Nú hugsar enginn um hestöfl eða fjölda krómlista né hversu hratt bíllinn kemst, heldur einungis hvað hann eyðir litlu eldsneyti á hundraðið.
Umræður um þessa grein