Breski bifvélavirkinn Neil Trotter vann digran peningapott í pappdrætti árið 2014. Hann vissi upp á hár hvað hann ætlaði að gera við aurinn eða öllu heldur hvað hann myndi kaupa fyrst. Hann vantaði nefnilega bíl. En ekki hvað!
Það er áhugavert að hinn 48 ára gamli Trotter sagði í viðtali eftir að úrslitin lágu fyrrir að hann hafi vitað „nákvæmlega hvað hann ætlaði að nota peningana í“ því hann hefði lengi vitað að hann ætti eftir að verða milljarðamæringur.

Iss, svona fólk sko!
Þegar ég las þessi ummæli hans hugsaði ég með mér að það væri nú auðvelt að segja þetta þegar búið var að afhenda vinninginn. Iss …
En nei, ég var kannski of fljót á mér. Trotter hafði nefnilega, þennan föstudag í mars árið 2014, sagt við föður sinn, þannig að vinnufélagar pabba gamla heyrðu: „Á sama tíma á morgun verð ég orðinn milljarðamæringur.“
Þetta voru auðvitað bara einhver karlalæti í honum en sannspár reyndist Trotter því það var nákvæmlega þannig. Sólarhring síðar, eða reyndar fáeinum klukkustundum eftir yfirlýsinguna, var hann orðinn milljarðamæringur og var vinningurinn á þeim tíma sá fjórði stærsti í sögu bresks happdrættis: 108 milljónir punda eða um 10 milljarðar króna.
Búinn af fá nóg af að gera við annarra manna bíla
„Á föstudagskvöldið kíkti ég á miðann til að skoða tölurnar og ótrúlegt nokk þá stemmdu þær, ein af annarri, við vinningstölurnar. Ég sagði við Nicky [kærustuna] að mér hefði tekist það! Ég hefði unnið stóra vinninginn! Svo varð ég bara krítarhvítur í framan og gat ekki verið kyrr. Gekk um gólf og vissi ekki neitt í minn haus,“ sagði „spámaðurinn“ og bifvélavirkinn Neil Trotter.

Á þessum tíma var Neil kominn með nóg af vinnunni sinni og vildi helst af öllu einbeita sér að akstursíþróttum. Kappakstri.
„Þessi föstudagur reyndist síðasti vinnudagurinn minn á verkstæðinu og þetta var í síðasta skipti sem ég gerði við og málaði bíla fyrir ókunnugt fólk,“ sagði hann í viðtali sem birtist sama ár, þ.e. 2014. Ekki laust við að greina megi starfsleiða hjá blessuðum bifvélavirkjanum.

„Það væri frábært að eignast ofursportara“
Þó Trotter hafi einhvers staðar sagt að hann hafi vitað upp á hár hvernig hann ætlaði að verja vinningsfénu þá er nú eitt og annað sem hann sagði í fyrsta viðtalinu sem fær mann til að efast um það. Til dæmis þetta:
„Það væri frábært að eignast ofursportara. Það væri sko alveg geggjað. Einhvern á borð við McLaren en ég veit bara ekki hversu auðvelt er að verða sér úti um einn slíkan.“ Ojæja, karlinn var kannski ekki alveg búinn að átta sig en þetta birtist á vefsíðu The National Lottery og er hlekkur á síðuna hér.
Hann var víst snöggur að skipta Ford Focus út fyrir Porsche og Jaguar og svo vék þriggja herbergja íbúðin fyrir miðaldaherragarði í Kent.

Hvað með ofursportarana?
Til þess að komast að því hvað fleira Trotter gerði við peningana fann ég viðtal sem tekið var fimm árum eftir þennan merka föstudag.
Hann sagðist fljótlega hafa komist að því að ekki var mikið fútt í því að sitja heima og góna á sjónvarpið alla daga. „Ég hef alla tíð unnið eins og skepna og það var undarlegt að hætta í vinnunni og tók sinn tíma að laga sig að þessum breytingum. Þannig að ég keypti hús [herragarðinn sem minnst var á] sem þurfti að vinna rosalega mikið í, miklu stærra hús en ég hafði hugsað mér en mig langaði í þetta hús sem stendur við lítið stöðuvatn,“ sagði Trotter meðal annars í viðtalinu á BBC en einnig má horfa á myndband sem því tengist hér neðst (samt er ekkert um bíla þar).
Hann keppti 28 sinnum árin 2019 og 2020 í JCW Class (Mini Cooper) kappakstri en komst ekki á verðlaunapall. Hann hefur vonandi notið þess að taka þátt.
Það er kannski ekkert undarlegt við að illa gangi að finna út hvernig ofursportbíla Trotter keypti, því frá því hann vann stóra vinninginn til ársins 2019 hélt hann sig fjarri sviðsljósinu. Hann mun kannski greina frá því síðar en hann hefur alla vega ekki sótt um gamla starfið sitt sem bifvélavirki á verkstæði í Coulsdon í suðurhluta Lundúna.
Fleiri greinar um seðla, fólk og bíla:
Manstu þegar stelpur kysstu bíl?
Fann gommu af seðlum þegar hann lagaði bílinn
??Bíllinn sem dreifði peningum í gær
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein