Íslendingar óku gjarnan eigin bílum á ferðalögum erlendis og gat það verið meiriháttar áskorun. Í Tímanum árið 1961 birtust ráðleggingar til þeirra sem ætluðu á flakk úti í hinum stóra heimi og það á sínum eigin bíl.
Hér eru nokkrir skemmtilegir punktar úr greininni sem birtist í Tímanum þann 6. júlí 1961 og svo eru hér teikningar sem birtust með greininni. Fyrst var farið yfir hámarkshraða víða í Evrópu sem og takmarkanir á notkun flautunnar. Til dæmis sagði um flautunotkun í Frakklandi: „Þar er bannað að nota flautu að nóttunni óg víða, t. d. í París, einnig á daginn.“
Akið hægt á Gíbraltar
„Á Gíbraltar er hámarkshraðinn stutt og laggott 32—48 km á klst. Þrátt fyrir þennan litla hraða höfum við ekki fréttir áf því, að umferðarslys séu fátíðari þar en annars staðar í Grikklandi er eina hraðatakmörkunin í bæjunum, þar má ekki fara hraðar en 30 km á klst.“
Fá afslátt af sektum
„Svo komum við að Ítalíu. Þar er hámarkshraði 50 km á klst. í borgum og bæjum og biðskylda fyrir allri umferð frá hægri. Úti á þjóðvegum eru engin sérstök hraðatakmörk. Það er bannað að nota flautu, þegar farið er fram úr, við gatnamót og blindar beygjur. Sé bílum lagt á myrka staði, verða þeir að nota biðljós eða sjálflýsandi þríhyrninga. Sektir eru kræfar á staðnum, en hægt er að fá afslátt á sektum. Sé borgað innan fimm daga, er nóg að borga 15% af sektinni, en sé borgað á næstu 55 dögum nægir 1/3 hluti. Dragist lengur að borga sektina, greiðist hún öll.“
Mikið flautað í Júgóslavíu
„í Júgóslavíu má fara með 50 km hraða á klst. í byggð, nema fólksflutningabílar og vörubílar verða að fara með 40 km hraða. Annars staðar má aka með 80 og 70 km hraða, nema á leiðinni milli Belgrad og Ljubljana má aka með 100 og 80 km hraða. Milli kl. 2 og 5 á nóttunni má ekki nota flautu, en annars er flautan notuð til þess að gefa alls konar umferðarmerki. Eitt flaut þýðir: ég held beint áfram. Tvö flaut: ég beygi til hægri, þrjú: ég beygi til vinstri, og tvisvar sinnum þrjú flaut: ég ætla að snúa við. Eftir sólarlag má ekki skilja við bíl nema með logandi biðljósum. Sektir eru kræfar á staðnum.“
Ekki flauta á skepnur
„ Á Spáni er skylt að nota flautuna í hvert skipti, sem farið er fram úr, þegar farið er fyrir beygju o.s. frv. En líka verður að hafa það hugfast, að bannað er að flauta, ef einhver lifandi skepna er á veginum framundan. Hámarkshraði er venjulega enginn, en 40 km á klst. í slæmu skyggni eða þegar ekið er með aftanívagn.“
Alltaf að flauta!
„Í Austur-Þýzkalandi er hámarkshraði í bæjum og borgum 50—60 km á klst., 90 km á þjóðvegum og 100 km á „autoböhnum” . Í Austurríki má ekki fara hraðar en 40 km á klst. í bæjum, og alls staðar skylt að nota flautu, þegar farið er fram úr. Sektir allt að 50 schillingum eru kræfar á staðnum.“
Bannað að snúa við á „autobahn”
„Í Tyrklandi er hámarkshraði í bæjunum 30—40 km á klst, en enginn þar fyrir utan. Það er bannað að nota flautuna í Istanbul og öðrum stórborgum. Í Vestur-Þýzkalandi er hámarkshraði 50 km í bæjum og borgum, en 100 km á flestum aðalvegum. Þó er búizt við, að hámarkshraði verði enginn á „autobahninum” milli Frankfurt og Mannheim. Hringakstur á alltaf réttinn. Biðljós skulu tendruð, þar sem bílar standa um nætur. Þokuljós má aðeins nota með lægri ljósunum. Á „autoböhnunum” er bannað að aka afturábak eða snúa við. Sekta, allt að fimm mörkum, er krafizt á staðnum.“
„Mismunandi alkohólmagn“
„Og svo er hér að lokum lítið eitt um alkohólmagnið, sem bílstjórinn má hafa í blóðinu: í Danmörku má hafa 1 prómíll, í Noregi og Svíþjóð 0,5 prómíll, 0,75 prómíll í Tékkóslóvakíu, í Austurríki 0,8 prómíll, Sviss 1 prómíll og í Belgíu og Lúxemborg 1,5 prómíll.“
Margt er öðruvísi í dag en það er óneitanlega dálítið spaugilegt að hugsa til rammvilltra Íslendinga á VW bjöllu með R-númeri reyna að bakka á þýskri hraðbraut!
Af ferðalögum áður fyrr:
Kraftaverka-Trabant frá Íslandi
1965: Svíinn, glymskrattinn og Landrover-inn
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein