Bæversk snilld

TEGUND: BMW X5

Árgerð: 2020

Orkugjafi:

Hönnun, aksturseiginleikar, tæknibúnaður
Ekkert Android Auto
138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Bæversk snilld

Það var með mikilli eftirvæntingu sem ég beið eftir því að BMW á Íslandi myndi hefja sölu á BMW X5 45e sem er tengitvinnsútgáfa af hinum geysivinsæla X5 sportjeppa. Bíllinn var frumsýndur á síðasta ári í nýju og endurbættu útliti. Allt sem viðkemur akstursupplifun var uppfært og allur búnaður bílsins. Nýtt stjórnkerfi fyrir afþreyinguna og nýtt mælaborð. Ég fékk að skella mér á rúntinn og síðan troða mér inn í afhendingarherbergi BMW við Sævarhöfða til að taka myndir af gripnum. Það verða því nóg af myndum.

Í miðjum klíðum á meðan hver janúar lægðin á eftir annarri skók landið þá fékk ég að fara rúnt á BMW X5 xDrive 45e eins og hann heitir fullu nafni. Þetta er algjör gæðingur og lék sér í snjónum sem hlóðst upp á götum borgarinnar og nærsveitar hennar. Ég hef áður fengið að prufa dísilknúna útgáfu bílsins og líkaði vel. Ég er hins vegar hrifinn af tengitvinnsútgáfum bíla og eru það bílar sem henta mörgum sem aka langar vegalengdir í bland við borgarakstur. Nú eða þá sem eiga ekki bílskúr eða sitt eigið hleðslustæði, því þrátt fyrir stífa markaðssetningu seljenda raforku á hraðhleðslustöðvum, þá þarftu að geta hlaðið bílinn heima hjá þér. Hvernig ætlarðu annars að losna við að skafa rúðurnar?

BMW X5 eDrive sem hér er sýndur var útbúinn Laser ljósum BMW. Þau eru gífurlega öflug og lýsa vel í myrkri. Hái geislinn á þeim er einnig sjálfvirkur og er það aukahlutur sem ég mæli með.

Í akstri er BMW X5 45e frábær svo ekki sé skafið af því, enda auglýstu BMW á Íslandi einu sinni að eina leiðin til að komast betur á milli staða væri að fljúga. Bíllinn kemur útbúinn línulegu tvinnkerfi. Hvað er það, eflaust spyrðu? Það er tvinnkerfi þar sem rafmagnsmótorinn er hreinlega boltaður á milli vélarinnar, bensín í tilfelli BMW X5 45e, og skiptingarinnar, 8 þrepa Steptronic í BMW X5 45e.

Þarna gefur að líta í vélarsal BMW X5 45e. Vélin er þriggja lítra línu sexa sem skilar 281 hestöflum. Aftan á hana er boltaður rafmagnsmótor sem er 113 hestöfl. Samanlagt er kerfið þá að skila 394 hestum og togar hvorki meira né minna en 600nm.

Þú ert því með betur samsett kerfi að mínu mati og er mun betra að keyra bíla sem hafa þessa uppbyggingu vélarkerfisins. Ólíkt öðrum tvinnbílum þar sem rafmagnsmótorinn er hafður einn á afturhásingunni líkt og honum hafi verið útskúfað í að vinna sín verk annars staðar.

Alvöru púströr eru í afturstuðara BMW X5 45e. Þau eru hins vegar falin fyrir innan stuðarann og þennan krómhring.

Rafhlaðan í BMW X5 45e er uppgefin með drægni uppá 80km. Það þýðir að stærðin á henni er nú loksins orðin nothæf. Jafnvel að vetri til og með allar miðstöðvar, sætishitara í fram og aftursætum sem hita líka armpúða á milli sæta og í hurðum, er hægt að fara um 50km á rafhlöðunni einni saman. Það er frá BSÍ í Reykjavík út á Keflavíkurflugvöll. Eða frá Bautanum á Akureyri niður á höfn á Dalvík. Það þýðir að þetta er fyrsti tengitvinnsjepplingurinn sem ég prufa sem býður upp á drægni sem nýtist mjög vel á stærsta flugvélamóðurskipi Atlantshafsins.

Lítil breyting er á útliti X5 í tengitvinnsútgáfu fyrir utan hleðslutengið á frambrettinu bílstjóramegin.
Grillið að framan á BMW X5 45e er stórt en fer bílnum mjög vel.
Fyrirsætan á myndunum hjá okkur hafði þessa lista á þakinu svarta en ekki úr burstuðu áli eða krómaðir eins og er staðlað.
Skottið á BMW X5 45e er ágætlega stórt þrátt fyrir að rafhlaðan sé þar sem bensín tankurinn er og bensíntankurinn kominn undir gólfið í skottinu. Skotthlerinn er tvískiptur og býður því upp á stað til að sitja á þegar þú þarft að klæða þig í og úr vöðlunum til dæmis. Undir því er síðan geymsluhólf fyrir hlífina yfir skottið, farangursnet yfir opið við aftursætin og líka hleðslukaplana. Þar er líka að finna viðgerðarsett, fyrstuhjálpar kassa og dráttarkrókinn.

Allur efniviður BMW X5 45e að innan er vel valinn og erfitt að finna einhverja galla á þeim. Mælaborðið snýr vel að ökumanni og snýst algjörlega um hans upplifun við að aksturinn. Bíllinn sem ég hafði til prufu og myndatöku var með M-Sport útliti en þægilegri sætum.

Stafræna mælaborðið hafði nóg að segja manni. Takið samt eftir hversu marga km fullhlaðið batteríið býður upp á þarna. Ég náði fjórum kílómetrum meira en þetta og það í frosti.

Leðrið brúna var einstaklega þægilegt viðkomu og hefði ég alveg látið aðrar kinnar en bara þær á rassinum hvíla við það í marga klukkutíma.

Hin eiginlega stjörnstöð BMW X5 45e. Þarna setur maður í gang, hækkar og lækkar gripinn, setur handbremsuna á, skiptir um akstursham og á við afþreyingarkerfið sem loksins er útbúið þráðlausu Apple Carplay. Ef þú átt hins vegar Android síma verður þú að bíða eða streyma allt efni í gegnum Blátannarbúnaðinn.

Hönnuðir innanrýmisins hjá BMW hafa líka verið í því að fækka tökkum, en þó ekki of mikið. Allt sem viðkemur miðstöð og sætishita er í formi takka sem hægt er að nota í þykkum skíðahönskum. Flýtitakka er síðan að finna á miðju mælaborðinu og hægt að setja inn hvaða flýtileið sem er. Rás 1 á takka númer eitt, ekkert mál. Kærustuna á númer sjö?

Ríkulega var hakað í aukahlutalistann á bílnum sem ég hafði til prufu. Flestir af þeim eru hlutir sem ég mæli með, enda ekki annað hægt þegar verið er að versla sér bíl í þessum verðflokki. Ýmislegt vantaði þó í hann sem ég mæli með þegar verið er að panta sér svona bíl, eins og gardínur í afturrúður og akstursaðstoðarpakka BMW þar sem þú getur látið kerfið aka eftir línum á veginum án þess að hafa hendur stanslaust á stýri.

Afar þægilegt er að ganga um BMW X5 45e. Hurðirnar eru stórar og léttar þrátt fyrir opið sem þær mynda.

?

Lokaorð

Sértu að hugsa um að kaupa þér bíl í þessum stærðaflokki sem BMW X5 45e er að keppa í þá er það verkefni sem ég öfunda þig ekki af. Samkeppnin er hörð en að vissu leyti skarar BMW X5 45e fram úri. Helst er að nefna vélarkerfið, drægnina á rafhlöðunni einni saman og afþreyingarkerfið. Bíllinn kemur ágætlega útbúinn í grunninn, en hægt er að setja hann saman að vild og þannig fá bílinn sérsniðinn að þínum þörfum. Aksturseiginleikar BMW X5 45e skara fram úr í hans flokki að mínu mati og útlitið er eitthvað sem hann ber svo sannarlega með sér. Ég mæli með BMW X5. Taktu hann tengitvinns ef þú getur. Hakaðu svo við eins marga aukahluti og veskið leyfir. Hann er flottur í hvítu, rauðu, gylltu og bláu. Passaðu bara að hann komi með glerþakinu og upphituðu og kældu glasahöldurunum.

Ef þér lýst á’ann, kauptann!

Helstu tölur:

Verð frá: 11.190.000 (Janúar 2020)

Verð á sýndum bíl: 13.850.000 (Janúar 2020)

Hestöfl: 394

Tog: 600NM

WLTP Drægni á rafhlöðu: 86-97 km.

Eyðsla: 2,1 l/100km

Dráttargeta: 2.700kg

Skott: 500 l.

L/B/H: 4.922/2.004/1.745mm

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar