Þessi er alveg lódaður
Hver man ekki eftir svona upphrópunum: Þessi er lódaður, gullmolinn sem á sér enga líka, einn með öllu, rafmagn í öllu og grjótgrind. Gerðarmerkingum eins og AMG55, SRT8 Hellcat, M5, XR3i, Arctic Edtion og Special Edition.
En hvað þýða þessar merkingar að jafnaði. Jú, það er verið að merkja bílinn einhverri sérstöðu.
Oft er um stærri og kraftmeiri vélar að ræða, sérstakt útlit og yfirleitt meiri búnað.
Fiat 128 Rally er mér minnisstæður en þar var ein svört rönd neðst á bílnum og gerðarnafnið.
Ekki síður Ford Escort XR3i sem þótti með eindæmum flottur – i-ið stóð fyrir beina innspýtingu í stað blöndungs. Hins vegar voru Toyota bílar níunda áratugarins yfirleitt merktir Twin Cam, 16V sem þýddi fjóra ventla á hverjum stimpli og tveir kambásar.
Verðið hækkar
Sammerkt með flóknari gerðarheitum er hærra verð. Í gamla daga var vel sjáanlegur munur á bílum eftir gerð en í dag er þessi munur lítt sjáanlegri en hin breytan er enn til staðar – bílar með meiri búnaði eru jú, dýrari.
Í dag getur til dæmis VW ID.4 GTX litið nákvæmlega eins út eins og ID.4 PRO. Annar er fjórhjóladrifinn en hinn ekki. Undir bílunum geta verið sömu felgur, sami frágangur á máluðum flötum en mismunandi búnaður. Annar er dýrari en hinn.
Allavega erum við að tala um það lítinn mun að það þarf sölumann bílsins til að benda á muninn eða jafnvel skýra frá ósjáanlegum mun.
Tesla Y Performance lítur eiginlega nákvæmlega eins út og Tesla Long Range þrátt fyrir að annar bíllinn sé mun dýrari en hinn. Reyndar svartir hurðarhúnar og litaðar rúður afturí í Performance bílnum.
Mercedes-Benz eru þekktir fyrir útlitslegan klassa í gerðum sínum. Tveir slíkir geta verið nákvæmlega eins í útliti en annar gæti verið einhverjum milljónum dýrari.
Sama endursöluverð?
Eru seljendur notaðara „lódaðra” bíla að fá tilbaka það sem þeir greiddu í verðinu þegar bíllinn var nýr? Sumir segja að aukabúnaðarpakkar verði oft að kaupauka sem fylgi nánast frítt með við endursölu.
Í dag getur þú keypt þér 150kW aflaukningu í VW ID.4 sem kallast Pro Performance á 290 þúsund krónur. Þú getur líka keypt þér Design Plus pakka sem er um 250 þúsund krónur en er staðalbúnaður í VW GTX.
Hjá Mercedes-Benz er möguleiki á að fá aukabúnað frá verksmiðju frá um 20 þúsund krónum upp í 420 þúsund krónur í sama bílnum.
Það er auðvelt og gegnsætt að panta sér BMW IX bílinn. Þar eru tvær gerðir, 40 Atelier og 50 Atelier með mismunandi búnaði en bílarnir líta nánast nákvæmlega eins út.
Umræður um þessa grein