Audi e-tron GT í samkeppni við Tesla Model S
Audi var að kynna nýjan bíl í dag: Audi e-tron GT sem verður flaggskip vörumerkisins og eins og annar bíll innan samsteypunnar: Porsche Taycan, mun hann skora á Tesla Model S.
e-tron GT mun fara í sölu með vorinu í tveimur útgáfum – 470 hestafla e-tron GT quattro og 590 hestafla RS e-tron GT, sagði Audi í yfirlýsingu á þriðjudag.
Audi sagði að e-tron GT tákni „næsta þróunarstig“ í hönnun vörumerkisins og markar upphafspunktinn fyrir útlisthönnun á á framtíðar rafbílum þeirra.
Verð á e-tron GT mun byrja á 99.800 evrum (15.439.000 ISK) í Þýskalandi. RS e-tron GT byrjar á 138.200 evrum (21.379.000 ISK).
e-tron GT fólksbíllinn er þriðja rafhlöðuknúna gerð Audi á eftir e-tron sportjeppanum og coupe-gerð systkini hans, e-tron Sportback.
85 kílówattstunda litíumjónarafhlaða e-tron GT quattro veitir aksturssvið allt að 488 km samkvæmt WLTP prófunarferli í Evrópu, sagði Audi.
Bíllinn er byggður á J1-grunni frá Volkswagen Group, sem notaður er á Porsche Taycan og væntanlegum Taycan Cross Turismo. Samnýting á grunni lækkaði heildarþróunarkostnað fyrir gerðirnar.
Audi bíllinn er með sama fyrirkomulag á rafhlöðum sem Porsche markaðssetur og Performance Battery Plus.
Hægt að hlaða í 80% á 23 mínútum
e-tron GT er einnig með sama 800 volta rafkerfi sem gerir honum kleift að hlaða allt að 270 kW. Með því að nota hraðhleðslustöð er hægt að hlaða tæmda e-tron GT rafhlöðu upp í 80 prósent á 23 mínútum.
e-tron GT er með rafmótor á hvorum öxli sem sameinaðir til að bjóða upp á afl sem nemur 350 kílóvöttum eða 469 hestöflum, jafnvel þó að samtalan afköstum þeirra, 495 kW, sé langt umfram það. Audi segir að þetta sé vegna þess að báðir mótorar séu með „varaafl“ í boði fyrir sérstakar aðstæður.
Til að tryggja að afköst ökutækisins séu öflugri og móttækilegri nota mótorarnir varanlega samstillta einingu (PSM), frekar en spanmótora, eða blöndu af báðum.
0 til 100 km/klst á 3,3 sekúndum
Þetta gerir e-tron GT að komast frá 0 í 100 km/klst á 4,1 sekúndu og hafa hámarkshraða 245 km/klst. RS e-tron GT mun komast frá 0 til 100 km/klst á 3,3 sekúndum. Hámarkshraði hans er takmarkaður við 250 km / klst.
Þrátt fyrir töluvert afl beggja ökutækjanna munu þeir eiga í harðri samkeppni í Tesla Model S Plaid. Tesla gerðin er með þrjá rafmótora og samanlagt afl 761 kW. Hann getur komist úr 0 í 100 km/klst á 2,1 sekúndu og náð 322 km/klst hámarkshraða. Tesla fólksbíllinn hefur 628 km akstursvið samkvæmt bandaríska prófunarferlinu.
Tesla safnar nú þegar pöntunum fyrir Model S Plaid frá þýskum viðskiptavinum á byrjunarverði 116.990 evrum. Líklegur afhendingardagur bílsins er september.
Valkostir e-tron GT til að auka meðhöndlun og þægindi eru meðal annars þriggja hólfa loftfjöðrun með aðlögun í akstri. Stýri bílsins á afturhjólum hjálpar til við að bæta stöðugleika í beygjum. Báðir þessir eiginleikar eru einnig í boði á Porsche gerðum.
Audi bílarnir eru á álfelgum sem eru á milli 19 og 21 tommu. e-tron GT er 4990 mm að lengd, 1960 mm breiður og 1410 mm á hæð sem er svipuð stærð og Audi A7 Sportback. Farangursrýmið að aftan er 405 lítrar sem er líka nokkuð ágætt.
Innréttingar e-tron GT eru með leðurlaust áklæði sem staðalbúnað til að leggja áherslu á sjálfbærni en upplýsingakerfið notar þriðju kynslóðar MIB tækni VW samsteypunnar sem þegar er notuð í fjölda gerða í ýmsum vörumerkjum fyrirtækisins.
Bílnum fylgir kunnuglegt tveggja skjáa útlit bílaframleiðandans: „Audi Virtual Cockpit“ fyrir aftan stýrið er 12,3 tommu skjár en miðjuskjárinn er 10,1 tommur að stærð með snertingu og veitir viðbrögð með hljóði.
Kemur líklega í stað Audi R8
e-tron GT mun líklega koma í stað Audi R8 sportbílsins. 10 strokka vél R8 með hefðbundinni hönnun gefur frá sér 300 grömm af CO2 á hvern kílómetra og framtíð hennar er enn óljós því Audi hefur ekki tekið ákvörðun um hvernig eigi að rafvæða arftakann.
e-tron GT verður smíðaður í verksmiðju í Bollinger Hoefe í Neckarsulm í Þýskalandi. Á þessum stað er „heimili“ Audi Sport og þar er það sem RS gerðirnar eru framleiddar. Lokasamsetning bílsins fer fram á sömu línu og R8.
Samkvæmt Audi er framleiðsla rafbílsins algjörlega kolefnislaus og notar endurnýjanlega orku og vottaða kolefnisjöfnun þar sem þess er þörf.
(frétt á Automotve News Europe – myndir Audi)
Umræður um þessa grein