Audi ætlar að vinna Dakar rallið á rafmagni
- Audi hefur afhjúpað bílinn sem þeir ætla að nota í Dakar-rallinu 2022. Til að forðast það að verða rafmagnslausir í eyðimörkinni hefur bíllinn sína eigin hleðslustöð um borð
Það er aðeins rúmt hálft ár síðan Audi tilkynnti að þeir myndu snúa aftur í Le Mans-kappaksturinn auk þess að taka þátt í Dakar rallinu. Markmiðið er hvorki meira né minna en að vinna báða þessa virtu viðburði.

Norski bílavefurinn bilnorge.no segir okkur frá því að Audi hafi verið að frumsýna Dakar bílinn með heitinu Audi RS Q e-tron og þá gerum við okkur grein fyrir að bíllinn er með rafknúna drifrás.
Fyrst quattro – og núna rafmagnið
„Quattro búnaðurinn okkar var það sem skipti máli í heimsmeistarakeppninni í rallakstri. Audi var fyrsta vörumerkið til að vinna sólarhringskappaksturinn í Le Mans með rafmagnsdrifrás.
Við erum nú að reyna að ná árangri í Dakar rallinu, á sama tíma og við prófum og þróum frekar e-tron tækni okkar við öfgafullar aðstæður“, segir Julius Seebach, forstjóri Audi Sport GmbH.
„RS Q e-tron var þróað frá grunni á mettíma og er dæmigert dæmi um heimspeki okkar „Vorsprung durch Technik“.

Erfiðasta rallið
Audi leynir því ekki að það býður upp á miklar áskoranir við að þróa bíl fyrir það sem er talið erfiðasta rallið. Maraþon-keppnin stendur í tvær vikur og er með daglega áfanga sem ná yfir allt að 800 kílómetra.
„Það sem við ætlum að gera hefur aldrei verið gert áður. Þetta er fullkomin áskorun fyrir rafknúna drifrás“, segir Andreas Roos – ábyrgur fyrir Dakar verkefninu hjá Audi Sport.
Nú, eins og kunnugt er, eru fáar hleðslustöðvar á þrepum Dakar rallsins, þannig að þó að bíll Audi sé með rafmótora nota þeir skapandi lausn.
Til að framleiða rafmagn fyrir rafhlöðurnar á leiðinni notar Audi TFSI vél sem kemur frá DTM. Kerfið er með orkubreyti sem hleður háspennurafhlöðuna. Þar sem mótorinn getur gengið á kjörhraða á bilinu 4500-6000 snúninga á mínútu er eyðslan undir 200 grömmum á kWt.
Rafmótorar úr formúlubíl
Driflínan í RS Q e-tron er að sjálfsögðu fullrafknúin með rafmótorum (MGU) á báðum öxlum sem koma úr Audi Formula E bílnum.
Mótorunum er aðeins breytt fyrir Dakar rallið. Þriðja MGU-einingin er hluti af orkubreytinum og er notuð ásamt endurnýjun með hemlun til að hlaða rafhlöðuna meðan á akstri stendur.
Rafhlöðupakkinn vegur um 350 kg og hefur getu 50 kWt. Þetta hefur verið þróað ásamt sérfræðingum samstarfsaðila.
Til mikils að vinna
„Sem verkfræðingar sjáum við þróunarmöguleika í öllum íhlutum, en þegar kemur að driflínunni höfum við þegar náð 97 prósenta hagkvæmni í formúlu E, þannig að hér er lítið meira hægt að gera“, segir Stefan Dreyer, þróunarstjóri fyrir akstursíþróttir hjá Audi Sport.
„Aðstæðurnar eru allt aðrar þegar kemur að rafhlöðu- og orkustjórnun, hér liggja mestu möguleikarnir í rafvæðingunni almennt. Það sem við lærum við erfiðar aðstæður í Dakar verkefninu, tökum við með okkur í framtíðar framleiðslugerðir“, segir Dreyer.

680 hestöfl
Driflínan er með 500 kW afl (680 hestöfl). Hversu mikið afl er hægt að nota í rallinu sjálfu er ekki enn ákveðið af skipuleggjanda Dakar. Samkvæmt Audi er hægt að stjórna rafmótorum mjög nákvæmlega og þeir skila hámarks togi yfir breitt svið.
Bíllinn er aðeins með einn gír fram ásamt aftur á bak-gír og öxlarnir eru aðeins tengdir rafrænt þannig að þarna er verið að spara þyngd og rými sem millikassi notar venjulega.
Audi er í samstarfi við Q Motorsport um Dakar verkefnið og framkvæmdastjóri þar, Sven Quandt, sem áður hefur verið þáttakandi í Dakar verkefnum Mitsubishi og Mini, ber áskorunina saman við fyrstu lendingu manna á tunglinu.
„Á þeim tíma vissu verkfræðingarnir ekki hvað væri að fara að gerast og það er svipað hjá okkur.
Ef okkur tekst að ljúka fyrsta Dakar-rallinu okkar, þá verður það árangur í sjálfu sér”, segir Quandt.

Í bili segir Audi ekki hver muni aka bílnum en Mattias Ekström er að minnsta kosti miðlægur í þróuninni og því er sá reyndi Svíi líklega heitur frambjóðandi í eitt sætanna.
(frétt á vef BilNorge)
Umræður um þessa grein