Þá er það hafið, Formúluárið 2022 í fréttum. Í dag tilkynnti keppnislið Aston Martin í Formúlu 1 að liðsstjórinn Otmar Szafnauer væri hættur hjá liðinu. Miklar breytingar hafa orðið hjá liðinu síðustu mánuði en brotthvarf liðsstjórans af sjónarsviðinu má segja að hafi verið frekar óvænt.
Í örstuttri tilkynningu frá Aston Martin segir ekkert um ástæður þess að Otmar Szafnauer hafi sagt skilið við liðið. Það er því óljóst hvort hann hafi sagt upp eða verið rekinn. Otmar hefur verið viðloðandi Formúluna í meira en tuttugu ár og verið liðsstjóri síðastliðin 12 ár.
Höfuðlaus her í augnablikinu
Það er því enginn sem gegnir hlutverki liðsstjóra hjá Aston Martin, eins og staðan er, en í fyrrnefndri tiilkynningu segir að stjórn liðsins muni halda um stjórnartaumana þar til nýr liðsstjóri skýtur upp kollinum.
„Núna leggur liðið megináherslu á gera kláran bíl fyrir keppnistímabilið 2022; samkeppnishæfan bíl, eins góðan og mögulegt er.“ Það voru lokaorðin í stuttri tilkynningunni.
Skemmst er frá því að segja að margt hefur gefið til kynna að umgjörð og innviðir keppnisliðsins væru að styrkjast: Í ágúst á þessu ári er áætlað að nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar Aston Martin liðsins verði teknar í notkun. Höfuðstöðvarnar eru 37.000 fermetrar, auk 12 hektara lands,við sjálfa Silverstone kappakstursbrautina.
Í júní sl. Tilkynnti Otmar að verið væri að ráða fjölda nýs fólks til Aston Martin en fjöldi starfsmanna átti að fara úr 550 upp í 800 manns. Í fréttinni sem vísað er til frá því í júní sagði Otmar að allt gengi glimrandi fínt og að ráðningar gengju vel.
Þeir sem hafa áhuga geta horft á myndband sem þeir hjá The Race settu saman um skyndilegt brotthvarf Otmars og þær spurningar sem það skilur eftir:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein