Pallbílar. Þetta snilldarfyrirbæri sem t.d. Bandaríkjamenn elska svo heitt að eitthvert ríkið á án efa eftir að nota pallbíl í fána eða skjaldarmerki áður en langt um líður. En þeir eru ekki allir fallegir. Því miður.
Þeir ljótu eru sem betur fer í minnihluta og vonandi víkjandi því þeir sem hér eru til skoðunar eru flestir nokkuð komnir til ára sinna.
Þeir sem eru alvarlega ljótir eru ljótir að framan og „góður á hlið“ eða „lögulegur afturendi“ breyta litlu í heildina litið þegar það sem er fremst er einfaldlega ljótt. Þá er allt vont. Það stoðar lítið að benda á góða vél, frábæra fjöðrun, marga glasahaldara, geggjað hanskahólf eða nokkuð því sé hann alvarlega ljótur þá er það bara mjög alvarlegt mál.
Til að skýra þetta er best að byrja á grafalvarlegu dæmi.
Chevrolet SSR
(2003-2006)
Hann má eiga það að ljótur er hann. Einlæglega skrifa ég beint frá hjartanu: LJÓTUR.
SRR (Super Sport Roadster) fékkst með 5.3L, 300 hestafla vél í upphafi (Vortec 5300 V8) og síðar með 6.0L LS2 V8 390 hestafla vél sem ég held að sé algjör snilld.
En í þessum bíl er það eins og að kasta perlum fyrir svín. Æj, þetta er kannski ljótt að segja um ljótan bíl. Já, ljótt er það.
GMC 1000 Series
(Nítjánhundruðsextíuogsúrkál)
Eitt lítið, tvö lítil, þrjú lítil bílgrill… Það er eins og þeir hafi ekki getað ákveðið sig og þess vegna hlammað grilli ofan á grill í von um að grilla í manni augun svo enginn tæki eftir þessari vitleysu!
International pikkari
(1958-1961)
Eitthvað klikkaði þarna í framljósauppröðuninni. Þau ættu betur heima á fólksbíl og jú, Lundúnaleigubíll gæti borið þessi ljós. Viðurkenni þó að mér finnst hann ekki alvarlega ljótur heldur bara ljótur. Blessað greyið rataði óvart inn á listann minn og ég tími ekki að henda honum út.
Subaru Baja
(2003-2006)
Bílgerðaráttunarvandi er ekki orð. Meira svona „óorð“ en lýsir sumum ökutækjum kannski örlítið: Ökutækin sem eru, eins og SRR og Baja, hvorki pallbíll né fólksbíll. Hvorki traktor né þreskivél.
Rinspeed Tatooo (jebb, með þremur o-um!)
2000
Fyrsti bíllinn með interneti átti að vera aldamótasnilldin mikla. Hot Rod í bland við pallbíl sjötta áratugarins var hugmyndabíll frá svissneska fyrirtækinu Rinspeed Design. Vond hugmynd en hlægileg.
Nissan XIX hugmyndabíll
1995
Hugmyndabíll, hjúkk. Og af einhverjum ástæðum gekk illa að finna mynd í fókus og það er eiginlega bara eins gott. Þetta er bíll sem maður vill hafa úr fókus.
Dodge MAXXcab
Veit ekki og vil ekki vita
GMC Centaur
1988
Svona sáu þeir framtíðina fyrir sér… Bölsýnismenn kannski þarna hjá General Motors?
Annað sem átti framtíðina ekki fyrir sér:
Bjuggu þeir þetta virkilega til?
Bílar sem aldrei fóru af stað
Bíllinn sem heimurinn hafnaði
Brot af því versta: Pallbílar
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein