Við erum á „sportlegri“ nótunum í reynsluakstri dagsins, því bíllinn er Alfa Romeo Tonale Plug-in Hybrid Q4. Sem sumar bílavefsíður hafa kalla“ „tæknilega mest þróaða bíl Alfa nokkru sinni“.
Og Alfa Romeo á svo sannarlega langa sögu „sportlegra“ bíla. Sá sem þetta skrifar minnist þess vel þegar prófaðir voru fyrstu bílarnir frá Alfa Romeo, bæði þegar Jöfur í Kópavogi flutti þá inn á árunum um 1980.
Á svipuðum tíma átti ég leið í bílaferðir til Ítalíu og þá gafst stundum tækifæri til að skoða og prófa nýjustu bílana frá Alfa Romeo. Og það sem stendur enn efst í minningunni er flott hönnun og sportlegir eiginleikar.
Þó það séu liðnir nokkrir áratugir frá upphafskynnum að Alfa Romeo, þá stendur þetta enn óhaggað þegar sest er inn í nýjasta bílinn frá Alfa Romeo sem Ísband í Mosfellsbænum býður upp á – einmitt Alfa Romeo Tonale.
Þegar Tonale kom á markað var hann frumsýndur í fleiri en einni gerð, en Ísband býður upp vel búna gerð með 280 hestafla bensínvél. 1,3 lítra + rafmótor, með sex gíra gírkassa.
Hægt er að nota rafmótorinn eingöngu og þá er drægnin sögð vera allt að 82 km, en í reynd má búast við því að við íslenskar veðuraðstæður sé þetta á bilinu 55 til 65 kílómetrar, sem dugar vel fyrir flest alla, því daglegur „meðalrúntur“ flestra fjölskyldna liggur vel undir þeirri drægnitölu.
Lengdin á Tonale er 4,63 m, hæðin er 1,84 m og breiddin er 1,6 m – en hæðin undir lægsta punkt er 16 cm og botninn á bílnum er býsna flatur því þetta mun duga vel við flestar aðstæður hér á landi
Fjölhæfur bíll
Við fyrstu sýn virðist Tonale ekki svo stór bíll, rétt liðlega 4,5 metrar á lengd, en hann leynir á sér. Og það er rétt að taka það fram strax að hann er fjórhjóladrifinn, enda er hönnunin á þá vegu að það er greinilegt að hönnuðirnir hafa haft „jeppaeiginleikana“ í huga
Það kom strax upp í hugann þegar reynsluaksturinn byrjaði hvort hann myndi standa undir því verði sem verið er að bjóða hann á eða um 10,9 miljónir króna.
En því lengra sem leið á reynsluaksturinn fór þessi efi minnkandi, því bíllinn er stútfullur af búnaði, með góða veghæð eða 16 cm undir lægsta punkt, sem er bara dágott miðað við marga af þeim bílum sem hann er að keppa við.
Já – hverjir eru keppinautarnir? Hönnun bílsins er sögð „laustengd“ við Jeep Compass, en á Evrópumarkið er Tonale nefndur í sömu andrá og Audidi Q3, BMW X1, Mercedes GLA, jafnvel Volvo XC40 – ekki leiðum að líkjast.
Fyrst og fremst „sportlegur“
En strax á fyrstu metrunum kom í ljós að Tonale er fyrst og fremst smíðaður í sönnum „Alfa Romeo anda“ – hér er ekkert til sparað að veita ökumanninum þessa einu og sönnu sportlegu tilfinningu. Þar ber fyrst að nefna stýrið og svörun þess. Það eru nefnilega „alvöru“ sportlegir eiginleikar í þessum bíl.
Stýrið er mjög kvikt og svarar sérlega fljótt og vel, jafnvel örugglega svo vel að mati margra að það þarf að gæta sín þegar verið er að skipta um akrein eða beygja, því minnsta hreyfing á stýrishjólinu skilar svörun í stefnubreytingu.
Stýrið er líka tiltölulega lítið, er með fullt af stjórnhnöppum, og að baki stýrisins er að finna tvo „skiptiflipa með mínus og plús táknum, sem hægt er að nota til að spipta um gír ef gírstöngin er færð til hliðar í átt að ökumanninum, sem sagt samskonar „gírskiptingar“ og á alvöru sportbílum!
Stýrishjólið er vel búið hnöppum til stýringar á skriðstilli, útvarpi og skjámyndum sem birtast á mælaborðsskjánum. Á bak við stýrið er tveir stórir flipar, „-“ og „+“ sem hægt er að nota til að skipta um gír þegar gírstöngin er færð til hliðar í „stillingu handskiptingar“.
Með því að nota einn af hnöppunum á stýrishjólinu er skipt á milli margra skjámynda sem hægt er að kalla fram.
Gott aðgengi og pláss
Eins og sagði hér að framan er Tonale ekki svo mjög stór bíll, en það kemur verulega á óvart hvað plássið er gott og það fer vel um ökumann og farþega. Það fer vel um ökumann undir stýri, miðjustokkurinn þrengir ekki að og þægilegt að ná til allra stjórntækja.
Vel skipulagt umhverfi ökumanns.
Eitt af því sem er gott við þennan bíl er að fyrir neðan miðjuskjáinn er röð stjórnhnappa til að stýra mörgum af helstu aðgerðum, en margir bílaframleiðendur hafa einmitt farið þá leið að fella þessar „aðgerðarstýringar” inn í skjáinn. Plús fyrir Tonale og Alfa Romeo!
Allt innan seilingar! Það er hægt að hækka og lækka í útvarpinu með hnöppum í stýrinu, en það er líka hægt að læða fingri við hliðina á gírstönginni en þar er líka „rúllurofi til að hækka og lækka. Fyrir aftan gírstöngina eru þrír hnappar: lengst til vinstri er hnappur til að slökkva á rafdrifinu, í miðið hnappur til að setja bílastæða aðstoðina á og lengst til hægri er hnappur til að slökkva á fjarlægðarskynjaranum.
Ég hélt fyrst að það yrði þröngt að ganga um afturhurðina, því hurðaropið mjókkar vel niður, en það kom á óvart hversu vel þetta slapp til. Og það er nóg pláss fyrir fullorðinn í aftursætinu þótt búið sé að renna framsætum vel aftur – meira en „hnefapláss“ frá sætisbaki að hné í miðjustöðu hjá mér sem er meira en 1,80 að hæð.
Fer vel í akstri en smá veghljóð
Þrátt fyrir ríkulega sportlega eiginleika fer Tonale vel með ökumann og farþega í akstri. Það er hægt að stilla höggdeyfana eftir akstri, en þótt fiktað hafi verið við þær stillingar þá breytti það ekki miklu varðandi þægindin í akstrinum.
Miðað við hve vel búinn Tonale er þá kom á óvart að veghljóð í akstri var meira en ég átti von á. En það er vel innan marka og það var vel hægt að halda uppi eðlilegum samræðum þótt setið sé í aftursæti og rætt við þá sem sitja í framsætum.
Ein leiðin í þessum reynsluakstri var á mjög grófum malarvegi og þar kom þægilega á óvart hvernig bíllinn höndlaði slíkt vegyfirborð, því dekkin á bílnum eru lág og gúmmíið fjaðrar ekki mikið – og það sem kom jafnvel meira á óvart var að veghljóðið jókst lítið á þessum grófa vegi.
Farangursrýmið er 385 lítrar en 500 lítrar samtals og aðgengi ágætt og það er snertilaust aðgengi til að opna afturhlerann, smellt tvisvar á hnapp á fjarstýringu og svo aftur til að loka.
Undir „gólfi“ farangursrýmisins eru aukahólf til að geyma hleðslukapal og ýmislegt smávegis.
Ríkulegur staðalbúnaður
Í þessum reynsluakstri var stöðugt verið að uppgötva hversu vel bíllinn er búinn, og listinn yfir staðalbúnað er eiginlega allt of langur til að telja þetta allt upp. Þó má telja rafdrifin framsæti með minni, hæðarstillanlegt ökumannssæti, hiti og kæling í framsætum ásamt hita í stýri, Harman Kardon hljómkerfi, 10.25” TFT upplýsingaskjár í mælaborði og 10,1” upplýsinga- og snertiskjár í miðju mælaborðs með íslensku leiðsögukerfi og Bluetooth fyrir tónlist og síma og einnig má telja 360° myndavél.
Þráðlaus hleðsla fyrir farsíma er í hólfi fremst í miðjustokknum, rafdrifin sóllúga, lykillaust aðgengi og ræsing ásamt fjarlægðaskynjarar að framan og aftan, sem virka mjög vel.
Fyrir ökumanninn er vel virk akreinaaðstoð ásamt akstursaðstoð á þjóðvegi, árekstrarvari og fjarlægðarstillanlegur hraðastillir (Adaptive Cruise Control). Til viðbótar má nefna blindhornsvörn, umferðaskiltalesari, hitaðir og aðfellanlegir rafmagnsspeglar og sjálfdimmandi baksýnisspegill.
Af öryggisbúnaði má nefna ABS með bremsuaðstoð (Brake Stability Control) og ESP skriðvörn og spólvörn ásamt brekkuhaldara.
Tonale getur dregið 1250 kg og hann er búinn stöðugleikabúnað fyrir eftirvagna, rafrænni veltivörn og 6 loftpúðum.
Af þægindabúnaði má nefna loftþrýstingsmælir fyrir hjólbarðana, regnskynjara í framrúðu og hitun í framrúðu við rúðuþurrkur.
Það leynir sér ekki að hönnuðir Tonale hafa haldið fast í arfleifð fyrri ára. Og líkt og áður er enn vandræðagangur hvernig best er að hafa númeraplötuna að framan. Þetta byggist væntanlega á því að til skamms tíma amk þurfti ekki að vera með númeraplötu í fullri stærð að framan á bílum á Ítalíu.
Og þá er það aksturinn….
Þá er loks komið að því að tala um aksturinn sjálfan. Ég var búinn að nefna að stýrið væri snöggt og svaraði hratt, eiginlega svo snöggt að það tók nokkra kílómetra að finna „taktinn“ – en eftir það svaraði hann hverri hreyfingu eins og best er á kosið.
Fjöðrunin er sportleg, frekar snögg, en hægt að stilla höggdeyfa að óskum hvers og eins, fyrir mér virkaði greinilega „miðjustillingin“ vel.
En það er ákveðinn „galli“ á Tonale!
Ha…. Gæti einhver spurt. Jú hann leynir verulega á sér varðandi hraða. Hvað eftir annað var hraðinn kominn að mörkum eða jafnvel yfir hraðamörk í umferðinni. Ég þurfti í alvöru að fylgjast vel með og það var mjög þægilegt að sjá „leyfilegan“ hraða birtast efst í mælaborðinu hverju sinni.
Sportlegur bíll með 280 hestafla vél þarf góða hemla – og það kom vel í ljós í þessum reynsluakstri, því túristar á bílaleigubíl sem voru að feta sig fyrstu metrana í íslenska vegakerfinu frá flugstöðinni svínuðu harkalega fyrir mig á einu hringtorganna með viðeigandi hávaða frá viðvörunarkerfi bílsins, en hemlarnir sáu til þess að hann stoppaði „á punktinum“ – sennilega ekki hægt að koma Opal-pakka í milli bílanna.
En eflaust hefði ég þurft verulega mikið lengri tíma til að grípa allt sem þessi bíll hefur upp á að bjóða, en í heildina er hann með mikið jafnvægi í akstri og með skemmtilega aksturseiginleika.
Og verðið? Auðvitað eru 10.940.000 kr hellingur af peningum, en hér í þessum bíl fæst líka hellingur fyrir þá.
Þetta er bíll fyrir þá sem eru að leita að sportlegum bíl, með eiginleikum „sportjeppa“, bíl sem er með mjög góða rásfestu og fylgir vel eftir í beygju. Lokaniðurstaðan: Sportlegur og um fram allt skemmtilegur bíll!
Myndband
Helstu tölur:
Verð: kr. 10.940.000
Afl mótors: 280 hestöfl (bensín + rafmótor á afturöxli með 90 kW hámarksafl)
Hröðun: 0 til 100 km/klst: 6,2 sek
Q4 aldrifsbúnaður
Drægni á rafmagni eingöngu: allt að 82 km
Lengd / breidd / hæð: 4528 mm – 2082 mm -1614 mm
Hæð undir lægsta punkt: 16 cm