Það var alltaf fjör hjá Bleeg-systkinunum sjö. Pabbi þeirra rak bílasölu sem seldi „bestu notuðu bíla í heimi“ eins og stóð skýrum stöfum á neonskiltinu sem gnæfði yfir gatnamótin.
Suma daga var krökkunum skutlað í skólann á Corvettu, næsta dag á einhverjum buggy-bíl eða hertrukki og ekki kipptu krakkarnir sér upp við að þurfa að skríða, eitt af öðru, út um afturhlerann á svörtum líkbíl fyrir framan skólann. Nei, æskan var ævintýri líkust og upplifðu krakkarnir margt með foreldrum sínum í Portland í Oregon.
Portland – Dachau – Portland
Hér er sagan af Chuck Bleeg sem seldi bestu notuðu bíla í heimi og bjó til bíla sem voru jafnvel þeir spaugilegustu í heimi. Í það minnsta þeir fyndnustu í Portland.
Chuck (1922-2018) var einn þeirra sem börðust í seinni heimsstyrjöldinni. Herdeildin hans, 20th Armored Division, var á meðal þeirra sem frelsuðu fólk sem haldið var í útrýmingarbúðunum í Dachau í Suður-Þýskalandi. Þetta var árið 1945.
Að stríði loknu fór Chuck í háskólann í Portland, útskrifaðist svo þaðan með gráðu í viðskiptafræði og hóf störf hjá General Motors þar sem hann seldi bifreiðatryggingar.
Hann kvæntist stúlku sem hann hafði þekkt alla ævi, Virginiu Sharkey, og næstu 68 árin bjuggu þau og störfuðu í sama hverfi og þau höfðu alist upp í. Þar byggðu hjónin hús, ólu upp börnin sjö og á götuhorninu rak Chuck þessa bílasölu þar sem, að hans sögn, voru seldir bestu notuðu bílar í heimi.
Bráðfyndinn Volvo vekur áhuga blaðamanns
Hvers vegna er fjallað um Chuck hér á Bílabloggi? Það er nú það! Í örstuttu myndbandi á YouTube (myndbandið er hér neðst) er sýnt frá ævintýralegu en mjög svo ruslaralegu „porti“ þar sem furðubílar virtust „búa“ í sátt og samlyndi.
Örmjór Volvo á „númerum“ og með logandi framljósi vakti kátínu undirritaðrar og sömuleiðis Volvo pallbíll. Meira að segja mátti sjá móta fyrir Ford Edsel á bak við Volvo furðuverk.
Þegar maður hefur séð önnur eins furðuverk og hér má sjá (skjáskotin úr myndbandinu) er að sjálfsögðu eðlilegt að vilja vita hver bjó þetta allt til og hvort að til sé meira af gotteríi. Google Jörð er ágætt verkfæri og loks fann ég staðinn sem eitt sinn hafði iðaði af lífi en er nú autt bílaplan.
Að skransa almennilega í beygjum
Þannig byrjaði þetta allt saman og í ljós kom æði mögnuð saga. Saga manns sem fæddist í Portland í Oregon 1922, bjargaði fólki úr útrýmingarbúðunum í Dachau í Þýskalandi árið 1945 þar sem á bilinu 31.000 – 40.000 manns létu lífið á árunum 1933 til 1945; manns sem fór svo aftur, að loku stríði, heim til Portland, á nánast sama blett og hann hafði alla tíð búið, eignaðist fjölskyldu, seldi og endursmíðaði bíla og dó 96 ára gamall.
Þetta þótti mér nóg til að líta aðeins nánar á sögu mannsins.
Chuck kenndi börnum þeirra Virginiu eitt og annað óvenjulegt. Til dæmis að koma í beygju á blússandi ferð og skransa, jafnvel með tvö dekk á lofti, gera að bráð, slá stórkostlegan stoppbolta [e. drop shot] í tennis, hreinsa skorsteininn af krybbum, endurnýja raflagnir og draga í, sem og að „tækla“ erfitt fólk í daglega lífinu.
En aftur að bílasölunni: C. Bleeg Motors var stofnað árið 1953 og sem fyrr segir blasti neonskiltið við vegfarendum og á því stóð „Finest Used Cars in the World“. Kynslóðir Oregonbúa versluðu við manninn sem átti þessu stóru orð á skiltinu og bílasöluna sjálfa. Það hefði nú ekki verið raunin ef hann hefði ekki staðið við orðin stóru.
Kynslóðir, já það er ekkert annað!
Vann á bílasölunni til ársins 2018
Á blómaskeiði Bleeg Motors voru þar tveir bifvélavirkjar í fullu starfi, sölumaður og svo auðvitað Chuck sjálfur. Chuck, sem aldrei hætti í bílabransanum. Enginn hafði rekið verkstæði og bílasölu lengur samfleytt í Oregon en sjálfur Chuck Bleeg.
Upp úr 1990 tók sonurinn, Chuck yngri, við sem bifvélavirki og Chuck eldri annaðist alla samninga og pappírsvinnu. Það gerði hann þar til mánuði fyrir dauða sinn. En öll þessi ár, frá 1953 til 2018, var Chuck Bleeg á sínum stað í Portland og fólk ók þar framhjá, vitandi að allt væri eins og vanalega. Þarna var Chuck og Bleeg Motors og þá var allt í sóma og lífið gekk sinn vanagang.
Því miður er úr ákaflega litlu efni að moða í svipinn og myndir fáar ef nokkrar aðgengilegar. Þess vegna læt ég skjáskotin úr myndbandinu duga en þau gefa þó ekki mynd af starfseminni – enda tekið upp í algjöru rusli nokkru eftir að búið var að skella í lás hjá Bleeg Motors.
Allar ábendingar eru vel þegnar en þær má senda á malin@bilablogg.is
Eitthvað úr sömu sveit eða næstu sýslu:
Vinstra frambretti á Edsel? Ekkert mál!
8. nóvember ´56: Hrapalleg mistök fá nafn
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein