Það var á þessum degi, 27. janúar [greinin er frá 27. janúar 2022], fyrir 123 árum setti belgískur ökumaður, kallaður „Rauði djöfullinn“, hraðamet á rafbíl. Já, gott fólk, það er alveg magnað að maðurinn hafi náð 80.3 kílómetra hraða á klukkustund á rafknúnu ökutæki árið 1899.
Camille Jenatzy (1868-1913) var bæði kappakstursökumaður og verkfræðingur. Hann var heldur betur í stuði árið 1899 því hann sló fyrst hraðamet manns að nafni Gaston þann 17. janúar, þegar hann náði 66.66 kílómetra hraða á klukkustund á rafknúnu farartæki.
Svo hratt hafði enginn farið á landi en met Gastons frá 18.desember 1898 var 63.13 km/klst.
Ástæða þess að ég kallaði manninn, sem átti fyrsta hraðametið, bara Gaston er sú að hann hét nefnilega Charles-François Gaston Louis Prosper de Chasseloup-Laubat. Það er alveg hrikalega langt en raunar var Gaston greifinn af Chasseloup-Laubat, og því í lagi að skrifa „bara“ Gaston de Chasseloup-Laubat.
Gaston de Chasseloup-Laubat fékk að vera heimsmethafi í næstum mánuð en þá kom okkar maður, Jenatzy, á fleygiferð og sló metið.
Tíu dögum seinna sló Jenatzy eigið met þegar hann náði sem fyrr segir, 80,3 km/klst.
Heimsmetametingur
Haldið þið ekki að greifinn hafi þá komið tvíefldur á 1.400 kílóa rafbíl með 26.8 kW rafmótor og náði þann 4. mars (jú, það er enn árið 1899) að slá metið á hvorki meira né minna en 92 km/klst.
Le Diable Rouge eða Rauði djöfullinn hefur eflaust gengið um gólf og strokið sitt rauða skegg (þaðan er þetta komið, þ.e. nafnið Rauði djöfullinn) meðan hann velti fyrir sér hvernig hann færi nú að því að toppa þetta.
Þann 29. apríl 1899 var tímabært að slá met greifans. Greifinn hafði þá í margar vikur átt metið og það fannst Jenatzy sennilega alveg nógu langur tími. Á rafbíl sem hét Jamais Contente göslaðist hann á 105.88 km/klst og var þar með fyrstur allra til að komast yfir 100 kílómetra hraðann.
Eigið grín varð honum að bana
Vesalings Jenatzy náði ekki háum aldri en hans eigin prakkaraskapur varð honum víst að bana, ef eitthvað er að marka frétt í New York Times frá 1913.
Jenatzy var við veiðar ásamt félaga sínum Alfren nokkrum Madoux. Þar sem þeir voru úti í skógi að leita uppi bráðina fékk sprelligosinn Jenatzy þá afar slæmu hugmynd að laumast bak við runna og þar gaf hann frá sér dýrahljóð. Svona ætlaði hann að hrekkja vin sinn.
Þetta gerði hann nú ekki aftur, blessaður, því vinurinn skaut auðvitað á runnann og hitti þann sem gaf frá sér dýrahljóðin. Madoux tókst að drösla helsærðum manninnum upp í bíl og á leiðinni á sjúkrahúsið fékk Jenatzy ósk sína óvænt uppfyllta. Hann hafði nefnilega sagt einhverju sinni að ef hann mætti ráða þá vildi hann helst deyja í bíl af gerðinni Mercedes.
Og í Mercedes dó hann, á leið á sjúkrahúsið, árið 1913.
[Greinin er frá 27. janúar 2022]
Annað úr sarpi bílasögunnar:
Bökkuðu í 42 daga
126 ár frá útgáfu fyrsta bílablaðsins
Á þessum degi lagði Tom upp í langferð
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein