Peugeot E-208 hefur fengið yfirhalningu á miðju tímabili. Þegar við komum upp í Brimborg til að sækja bílinn í reynsluaksturinn kom í ljós að okkur var ætlaður lime-gul-grænn alveg splunkunýr Peugeot E-208.
Þú þarft ekki „fansý” föt ef þú ekur um á svona bíl, þú sest bara inn og hann sér um rest.
Bíllinn fæst hér í fjórum útfærslum og sjö litum auk fjölbreytts aukahlutaúrvals.
Flottur frakki
Ekki nóg með að þessi smarti bíll líti flott út heldur er líka frábært að aka honum. Stýrið er lítið og snaggaralegt og þú getur nánast haft það í fanginu því þú getur stillt fjarlægð og hæð á því.
Þegar ekið var af stað kom svo í ljós að fyrir utan ofangreindar lýsingar heyrist nánast ekkert í rafmótornum inn í bílinn.
Eftir að hraðinn var aukinn og sætið stillt eins og ég vildi hafa það tók ég eftir að bíllin sveif áfram nánast hljóðlaust.
Ótrúleg hljóðvist í ekki stærri bíl, hvorki veg- né dekkjahljóð sem truflar.
Eco LED aðalljós. Mjög smekkleg hönnun ljósabúnaðar á þessum nýja Peugeot.
Rafmagnið dugði vel
Við tókum bílinn með um 95% hleðslu á rafhlöðunni eða um 390 km. Svo var bara ekið af stað, dágóður rúntur um borgina, upp í Breiðholt og svo lá leiðin út á Reykjanesið. Þar ókum við talsvert og vorum ekkert að spara rafmagnið.
Við skil daginn eftir sýndi bíllinn 150 km. drægni á rafhlöðunni. Áætluð drægni bílsins er um 409 km. svk. WLTP staðli miðað við fulla hleðslu á rafhlöðu.
Það er þrælgott að aka nýjum Peugeot E-208. Fjöðrunin er mátulega stíf, hljóðvist frábær miðað við svo lítinn bíl.
Úr nógu að velja
Peugeot E-208 kemur í þremur meginútfærslum, Active, Allure og GT. Einnig er hægt að fá Active gerðina með aðeins minni rafhlöðu en þá með talsvert minni drægni.
Verðið á bílnum kemur þægilega á óvart en Active útgáfan er frá 5.090.00. GT bíllinn er þó ekki langt frá, því fyrir 800.000 kr. til viðbótar ertu kominn á GT útgáfu. Þetta er verð með rafbílastyrk.
GT bíllinn er afar vel búinn og verulega sportlegur lítill hatchback.
Rafmótorinn í Peugeot e-208 er um 156 hestöfl og tog er um 260 Nm.
Bíllinn er þokkalega sprettharður án þess að slá nein met í þeim efnum en þú getur komið honum í 100 km/klst. á 8,2 sekúndum ef þú vilt.
Rafbílaframleiðendur mættu alveg leggja höfuðið smá í bleyti og leysa þessi kaplamál í skottinu í eitt skipti fyrir öll.
Fín sæti og flott áklæði
Sæti eru þægileg og þau ná vel undir hnésbæturnar sem mér finnst skipta miklu máli ef ekið er í lengri tíma.
Í GT bílnum eru sætin með svokölluðu Belomka áklæði en ekki er tekið fram hvor þau séu eitthað öðruvísi í laginu en í Active eða Allure gerðunum.
Í GT útgáfuna er í boði Alcantra áklæði á sætin.
Það er engum blöðum um það að fletta að minni rafbílar eru að verða langdrægari. Hins vegar verður alltaf að hafa í huga að drægni fer eftir aksturslagi og veðurfari.
Peugeot E-208 kemur ekki með varmadælu sem staðalbúnað en hægt er að panta slíkan búnað í bílinn fyrir aðeins 70.000 kr. aukalega. Lykilatriði í bíl sem notaður er í köldu loftslagi.
Góður í grunninn
Í grunninn er Peugeot E-208 mjög vel búinn bíll en svo er hægt að panta í hann mismunandi búnað ef vill. Til dæmis er hægt að fá í hann það sem Brimborg kallar ökumannspakka sem innifelur skynvæddan hraðastilli, umferðaskiltalesara, veglínuskynjara með hjálparstýringu og ökumannsvaka.
Mjög fínn búnaður en alls ekki nauðsynlegur.
Mælaborðið ber yfirbragð hönnunar annarra Peugeot bíla. En þarna hefur þú líka takka til að stilla miðstöðina ef þú vilt ekki nota einungis skjáinn.
Einnig er hægt að panta bílinn með öflugri bakkmyndavél, blindhornaviðvörun og leiðsögukerfi fyrir tæpar 200.000 kr.
Það verður að segjast að Brimborg stillir verðum vel í hóf og gerir kaupendum kleift að kaupa sér vel búinn bíl á sanngjörnu verði. Það má síðan auka við þægindin með aukahlutapökkum, einnig á sanngjörnu verði.
Þjár akstursstillingar, eco, normal og sport. Gírhnúðurinn er horfinn og kominn takki í staðinn.
Þröngt afturí
Peugeot E-208 er frekar nettur í alla staði. Hann er því ef til vill ekki hagkvæmasti kosturinn fyrir hávaxna í yfirþyngd en frábær fyrir þá sem eru í góðu formi og þokkalega liprir.
Einhversstaðar er reyndar sagt að „beauty is pain“.
Framhurðir bílsins eru frekar litlar og það veldur óneitanlega smá brasi við umgengni bílsins, aðallega þó útstiginu. Einnig er talsvert þröngt útstig úr aftursætum.
Það er ekki annað hægt að segja að bíllinn vekur athygli með þessum lime-gul-græna lit.
Nýr Peugeot E-208 er nokkuð vel heppnaður flottur hatchback sem er virkilega gott að aka. Hann er með mátulega stífa fjöðrun, hljóðlátur og stýrið er létt og lipurt.
Bíllinn hentar án efa yngri kaupendum en er örugglega góður kostur fyrir eldri kynlslóðina sem vilja njóta lífsins í borginni, stunda kannski golf og nota bílinn mest í snattið.
Myndband
Helstu tölur:
Verð: frá 4.890.000 kr. til 5.890.000 kr. með rafbílastyrk.
Aflgjafi: Rafmagn
Afl mótors: 156 hö.
Tog: 260 Nm.
Drægni: 409 km. skv. WLTP staðli
Hleðslugeta: 100 kW á klst. DC
Hleðslugeta með heimastöð: Allt að 11 kW á klst. AC
Stærð rafhlöðu: 51 kWst.
Farangursrými: 309/1118 ltr.
Lengd/breidd/hæð: 4.055/1.740/1.430mm.