BYD er brennheitt umræðuefni um þessar mundir, eftir að hafa selt fleiri rafbíla en Tesla á síðustu mánuðum ársins 2023 og sett þrjá glænýja rafbíla á Bretlandsmarkað með góðum árangri á innan við ári: Atto 3 fjölskyldujeppann, Dolphin og Seal Saloon.
Fullt af bílum í bígerð
En BYD er með enn fleiri gerðir nú þegar til sölu á heimamarkaði sínum og talið er að nýjasta viðbótin við línu kínverska golíatsins sé meira en líkleg til að leggja leið sína til Evrópu og gera þar góða hluti.
Hann er kallaður BYD Yuan Up: lítill rafmagns sportjeppi og litli bróðir fyrrnefnds Atto 3, sem er seldur í Kína sem Yuan Plus.
Það er þess vegna sem menn grunar að hann geti fengið nafnið Atto 2 í Bretlandi og Evrópu.
Nýr sportjepplingur
Hvað sem hann verður látinn heita mun þessi bíll brúa bilið á milli Dolphin og Atto 3. Ef við pælum í verðlagningu gæti Atto 2 verið á um 30,000 pund í Bretlandi og ef til vill grafið undan hugsanlegum keppinautum eins og MINI Aceman, Jeep Avenger og Volvo EX30 og fleirum.
Fyrstu myndunum af BYD var deilt á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo sem sýna alvöru blöndu af hönnun úr eigin línu vörumerkisins og öðrum jepplingum á markaðnum.
Til dæmis eru flæðandi framljósin og svarti þverbitinn með silfurklæðningu mjög BYD-lík, en plastklæðning við sílsa minna okkur kannski frekar á Citroen Aircross línuna.
Háa þaklínan, fljótandi þakhönnunin og hamarslík hönnun að aftan gefa BYD svipað útlit og Citroen C5 Aircross á meðan flókið, samtvinnað afturljósa fyrirkomulagið er þáttur sem kemur frá BYD Dolphin.
Önnur smáatriði sem við sjáum eru sléttir hurðarhúnar, klossaður framstuðari með stórum loftopum og stutt yfirhang að framan og aftan.
Byggður á Atto 3
Að innan er bíllinn hefðbundnari og ansi líkur Atto 3. Í miðju mælaborðs er fljótandi snertiskjár sem líklega má snúa eins og í Atto 3 og Seal, en á bak við stýrið er nokkuð stór og góður stafrænn mælaborðsskjár.
Miðstokkurinn er búinn tökkum, innblásna úr jeppum eins og Ford Bronco, þó að kristalgírstöngin sæki meira innblástur til BMW.
Það eru frekar litlar tæknilegar upplýsingar um þennan fimm sæta jeppa á þessu stigi, sem kom upp á yfirborðið á netinu eftir að hafa verið birt af iðnaðar- og upplýsingatækniráðuneyti Kína.
En allavega liggur fyrir að BYD 2 er 4.310 mm langur, 1.830 mm breiður og 1.675 mm á hæð og hefur 2.620 mm hjólhaf – svipaðar stærðir og annar mögulegur keppinautur, Smart #1.
Einnig er ljóst að í þessum bíl er sama litíum-járn-fosfat (LFP) rafhlöðutækni og finna má í Atto 3 og Dolphin.
Á meðan við bíðum frétta um að Atto 2 komi til Evrópu, eru næstu tvær gerðir frá BYD staðfestar fyrir Bretland Seal U – jeppi í Qashqai stærð sem verður fáanlegur með tengiltvinnafli í Bretlandi – og síðan dularfullur nýr rafbíll sem verður kynntur síðar á þessu ári.
Byggt á grein: Autoexpress.co.uk
Umræður um þessa grein