Þegar við komum að máli við Krúserliða í vor varð að samkomulagi að við hjá Bílablogg fengjum að fylgjast með starfinu í sumar.
Það höfum við gert og kynnst fjöldanum öllum af skemmtilegu bílafólki sem virkilega nýtur þess að sinna þessu skemmtilega áhugamáli – bílnum.
Fjöldi stuttra viðtala
Við höfum tekið í ríflega tuttugu myndbönd, stutt viðtöl við félagsmenn og bíleigendur ásamt myndum af uppákomum sem alloftast tengjast góðu sumarveðri og fimmtudagskvöldum. Krúserklúbburinn heldur úti öflugu starfi þar sem fjölbreyttur hópur fólks hittist og sinnir áhugamálinu.
Félagsskapurinn er bráðskemmtilegur og þarna bera menn saman bækur sínar og læra hver af öðrum.
Starfsemin færist inn
Nú þegar líður að hausti færist félagsstarfið meira inn í Krúserhöllina að Höfðabakka 9 í Reykjavík. Þar hittast menn áfram í vetur á fimmtudagskvöldum. Í sumar var oftar en ekki margt um manninn og stundum gátu félagsmenn fengið sér hamma og franskar enda Hamborgarbíllinn oft á staðnum.
Eftir hitting, bæjarrúnt og stopp við Hörpuna sneru menn tilbaka og enduðu í Krúserhöllinni á Höfðabakkanum.
Ávallt fjör
Okkur skilst að ýmis bílskúrsbönd og trúbadorar hafi troðið upp í Krúserhöllinni yfir vetrartímann en þar er síðan rekið lítið „kaffihús” þar sem félagsmenn geta spjallað og spekúlerað og lagt línur fyrir viðhaldsvinnu vetrarins.
Með þessu síðasta myndbandi sumarsins sem skotið var á bæjarhátíðinni Í túninu heima, fimmtudaginn 24. ágúst sl., þökkum við hjá Bílablogginu fyrir okkur. Hlökkum til að fylgja ykkur í vetur. Myndir eru skjáskot úr myndbandi.
Myndband
Myndband: Björn Hlynur Pétursson
Klipping: Pétur R. Pétursson
Umræður um þessa grein