Þessi glæsilegi Camaro er RS/SS árgerð 1967 og líklega elsti Camaro hér á landi í dag.
Þessi bíll kom til landsins með bandarískum hermanni á Keflavíkurflugvelli árið 1976 og var fyrst skráður á íslensk númer árið 1984.
Bíllinn ber upphaflegt verksmiðjunúmer. Sérpantaður búnaður í bílnum eru RS pakki (Rally Sport) sem inniheldur ljósalokur og krómpakka ásamt fleiru.
Ef RS og SS pakkarnir eru pantaðir saman er SS merkingin notuð. Í bílnum er dýrari hurðaklæðning og önnur hurðaspjöld en í grunntýpunni.
Einnig eru fjögurra stimpla diskabremsur að framan og fjögurra gíra kassi ásamt fleiru.
Kraftur sem heyrist í
Vélin í bílnum er ekki í máttlausari kantinum – 5.7 lítra / 350 cubic í 4 bolta blokk. Edelbrock „heitur kambás” með vökvaundirlyftum, potthedd með víkkuðumm inn og útgöngum.
Edelbrock „Performer” millihedd, 4 hólf Holley 650 cfm, double pump blöndungur og pústflækjur. Háspennt Petronex fjölneista kveikja, 2.5 tommu tvöfalt pústkerfi með krossmillipípu og hálfopna „túrbó” hljóðkúta.
Reynslubolti í kvartmílunni
Gunnar Ævarsson er meira en tvævetra þegar að kemur að bílasporti. Hann keppti til dæmis í ein fimm ár á þessum bíl í Kvartmílunni.
Þessi bíll er svokallaður spól- og spyrnubíll þar sem krafturinn fær virkilega að njóta sín.
Var illa farinn
Upphaflega var bíllinn rjómagulur og var þá með svörtum víniltoppi. Þegar hann kom í sölumeðferð hjá Sölunefnd varnarliðseigna var farið að síga talsvert á ógæfuhliðina með ástand bílsins.
Hann var óryðgaður en vélarsalurinn var í rugli.
Flottur spyrnubíll
Gunnar geymir bílinn inni á vetrum en er óhræddur við að taka bíltúr á bílnum þegar eitthvað stendur til.
Hann er duglegur að sækja Krúser hittinga og bíllinn vekur líka verðskuldaða athygli því flottur er hann.
Felgurnar eru sérlega veglegar og hann er hækkaður að aftan og með breiðari dekkjum sem gerir hann ansi vígalegan.
„Ég hef farið fimm sinnum á Turkey Ride sýninguna á Florída og einnig nokkur kvartmílumót þar líka“.
„Hins vegar er ég búinn að uppgötva eiginlega nýja Ameríku en hún er United State of Sweden. Svíar standa sig ótrúlega vel í fornbílageiranum og margt skemmtilegt þar að sjá“, segir Gunnar að lokum.
Umræður um þessa grein