Muntz Car Company var stofnað af Earl “Madman” Muntz. Hann starfaði sem bílasali í LA á fimmta áratugnum og var þekktur fyrir sérkennilegar sjónvarpsauglýsingar sínar. Við myndum sumsé kalla hann furðufugl í dag.
Earl „Madman” Muntz þótti furðufugl sem seldi upphaflega raftæki en stofnaði svo bílafyrirtæki.
Árið 1951 seldi Frank Kurtis, bílasmiður Indy Car Muntz einkaleyfi sitt til framleiðslu sportbíls sem Muntz nefndi fljótt eftir kaupin „Muntz Jet“. Hann breytti hönnun bílsins, lengdi bílinn svo úr varð fjögurra sæta bíll. Upphaflega setti Muntz V8 vél úr Cadillac í bílinn en breytti vélarkostinum yfir í ódýrari kost sem var V8 vél sem kom úr Lincoln.
Muntz Jet var að mörgu leyti framúrstefnulegur bíll, með „mjúku” mælaborði og öryggisbeltum.
Muntz Jet var með innbyggðum plötuspilara og inndraganlegu borði. Þrátt fyrir einstaka hönnun bílsins og marga aðdáendur, gekk framleiðslan ekki sem skyldi og helstu þættir sem spiluðu þar inní voru framleiðslukostnaður, gæðaeftirlit og lélegir íhlutir sem komu niður á gæðum bílsins.
Gott ef maður sér ekki smá Citroen svip þarna.
Muntz Jet var alls ekki ólaglegur bíll en hann var framleiddur í Chicago. Muntz Jet var talsvert sérstakur miðað við kaggana sem voru á markaði á þessum tíma.
Hluti bílsins var smíðaður úr áli og hann var með topp úr trefjaplasti en hann var framleiddur á staðnum.
Fyrirtæki Muntz gekk ekkert of vel. Enda dýrt og að mörgu að hyggja að koma upp bílaverksmiðju. Alls voru framleiddir um 400 Muntz á árunum 1951-1954 og tapaði fyrirtækið um 1.000 USD á hverjum bíl segir sagan – það jafngildir rúmlega 9.000 dollurum á verðgildi dagsins í dag.
Menn sáu ekki til himins og var því rekstrinum sjálfhætt og fyrirtækinu lokað.
Það eru til Muntz bílar enn í dag, þó þeir séu frekar sjaldgæfir og þeir eru mjög eftirsóttir meðal safnara.
Umræður um þessa grein