Hyundai Motor Group (HMG) stefnir að því að verða meðal þriggja helstu framleiðenda rafbíla í heiminum eigi síðar en árið 2030. Þetta kemur fram í tilkynningu sem móðurfélagið kynnti í Seoul í byrjun vikunnar.
Markmiði sínu hyggst fyrirtækið ná með aukinni framleiðslugetu dótturfyrirtækja sinna; Hyundai Motor, Hyundai Mobis, Genesis og Kia Motor með stækkun núverandi bílaverksmiðja og byggingu nýrrar og afkastamikillar verksmiðju í Kóreu.
Samkvæmt áætlunum HMG er gert ráð fyrir að fjárfestingin nemi alls um 18 milljörðum bandaríkjadala og er ætlunin að heildarframleiðsla framleiðendanna verði alls orðin um 3,64 milljónir eintaka í síðasta lagi 2030, þar af í Kóreu, sem er mikilvægasti einstaki markaður félagsins, um 1,5 milljónir eintaka.
Auk þess er gert ráð fyrir umtalsverðum fjármunum til fjölbreyttrar innviðafjárfestinga, nýsköpunar og þróunar þar sem m.a. verður komið á fót sameiginlegri rannsóknamiðstöð sem styðji við markmið HMG á alþjóðavísu.
Þá er eitt af markmiðum móðurfélagsins að auka samþættingu dótturfélaganna á sviði undirvagna, rafmótora, rafhlaða og hugbúnaðarkerfa til að auka samkeppnishæfni þeirra og er stefnt að því að árið 2030 telji framboð fyrirtækjanna á rafbílum alls 31 mismunandi gerðir á alþjóðlegum markaði.
Umræður um þessa grein