Vekur það upp einhverjar efasemdir? Það eru allir bílar með afturenda, sumir með skott, aðrir með farangursgeymslu en enginn með dindil eða rófu. Hvernig datt okkur eyjaskeggjum þessi orðfæri í hug, skott, station, húdd, sílsar, hvalbakur og stuðari? Jú, þetta eru meira og minna bara beinar þýðingar á erlendu orðfæri.
En skoðum aðeins uppruna erlendu orðanna og af hverju þær komu fram á sjónvarsviðið.
Hvaðan kemur til dæmis orðið „station” yfir bifreið? Jú, í árdaga voru notaðir hestvagnar til að ferja fólk á milli staða. Á þéttbýlisstöðum urðu svo til staðir eins og brautarstöðvar, miðbæjartorg og umferðarmiðstöðvar eins og sú sem við eigum í Vatnsmýrinni. Þegar fólk kom víðsvegar að og inn í borgir og bæi stoppuðu vagnarnir eða lestarvagnar á þessum stöðum.
Station Wagon voru notaðar til að skutla fólki til og frá gististöðum til dæmis.
Þá vantaði fararskjóta frá „stöðinni” að til dæmis hóteli eða gistiheimili. Þá var í boði svokallaður „station wagon” sem flutti farþegana. Ef til vill fyrsti vísir að leigubíl. En þarna er orðið station wagon upprunnið.
Hér eru Griswold feðgarnir að skoða „station bíl” í fríið.
Ef við skoðum eilítið þessa fyrstu „station wagons” sjáum við að þetta eru eiginlega bara venjulegir bílar sem hafa fengið örlitlar yfirhalningu. Byggt var yfir bílana sem kallað er og þannig gerður „station wagon” úr venjulegum fólksbíl. Hins vegar voru þessar breytingar gerðar á þartilgerðum verkstæðum sem sérhæfðu sig í slíkum bílabreytingum en ekki inni í verksmiðjunum þar sem bílarnir voru framleiddir.
Glæsilegur wagon bíll með alvöru timburklæðningu.
Mörg slík fyrirtæki við lýði í Bandaríkjunum og þau sem lengst hafa verið á markaðnum eru til dæmis þeir sem breyta fólksbílum í líkbíla.
Þá komum við að þessu með timburklæðninguna utan á „station” bílana. Ég er á þeim aldri að muna eftir nýjum slíkum bílum á götunum hér. Til dæmis var hægt að fá Ford Fairmont, station árgerð 1978 með svona viðarklæðningu, Dodge Aries um svipað leyti og AMC Eagle í kringum 1980. Reyndar voru þeir bílar ekki klæddir með timburklæðningu heldur plastfilmu. Ekki sérlega falleg hönnun og passaði illa hér á kalda Íslandi.
Það þótti mikill lúxus að eiga „sation wagon” með ekta timburklæðningu. Þá þurfti bæði að bóna og bera fúavörn á bílinn. Þessi er með plastfilmu.
Shooting break
Hafið þið ekki séð svoleiðs bíl? Til dæmis Aston Martin DB5 shooting break. Líklega hugsa flestir, já, þetta er einhvers konar ferðabíll sem nýst getur sem borgarbíll á milli. „Shooting break” er í raun lýsing á vögnum sem fluttu skotfæri og veiðimenn um víðar lendur í leit að bráð. Þannig er það tilkomið.
Aston Martin DB5 shooting break.
Svo koma orð eins og „Sport tourer” sem Renault notar, „Kombi” eins og Skoda og Volkswagen notar og Avant eins og Audi kýs að kalla station bíla sína. Allavega lýsing á sama fyrirbrigðinu.
Skoðum aðeins þróunina í bílaflokkunum
Oft á tíðum hafa fjörugar umræður spunnist um bílgerðir meðal landans. Þar sem þýðing bílgerðanna er oftast bein og óbreytt eru til dæmi oft óljós skil á milli jeppa og jeppa eða jeppa og sportjeppa eða jeppa og jepplings eða jeppa og sportjepplings. Stundum hafa seljendur á nýjum bílum kallað framdrifinn fólksbíl jeppa.
Wagooneer er í raun bara upphækkaður station bíll?
Við vitum flest hvað jeppi er. Hvað er þá jepplingur? Er það fólksbíll, aðeins hærri á vegi en fólksbíll og með drifi á öllum hjólum? Hvað er þá sportjeppi?
Muna ekki margir eftir þessum, Jeep Wagon.
Skoðum aðeins hvernig þessar bílagerðir hafa orðið til. SUV (standard utility vehicle), bíll sem stendur hátt, drif á öllum, hærra undir og er með jeppalegt útlit (grófara og harðgerðara). Þarna falla bílar undir eins og Ford Explorer, Range Rover og Grand Cherokee. Þetta höfum við kallað jeppa.
Audi Avant er ansi flottur bíll.
Crossover (jepplingur). Höfum kallað bíla eins og Toyota RAV4, Honda CRV, Kia Sportage. Kia Sorento er til dæmis kallaður – mid-size-SUV.
Sportjepplingur, crossover er skilgreindur sem léttari bifreið en SUV, byggður á fólksbílapalli en ekki á grind eins og sumir SUV bílar.
Einn af síðustu móhíkönunum, síðasti stóri flekinn, teppið, kagginn sem kom á markað sem hinn eiginlegi „station” bíll þeirra Bandaríkjamanna.
Jú, þetta er óljóst, sérstaklega þar sem seljendur auglýsa bíla sína nákvæmlega eins og þeim sýnist. Þeir kalla bílinn nánast það sem þeir vilja. Til dæmis er T-Roc frá VW týpískur krossover þrátt fyrir að vera ekki endilega með drif á öllum. Köllum við hann ekki sportjeppling?
Í lokin er kannski við hæfi að telja upp íslensk orð yfir bílagerðir – eins og undirritaður hefur skilð þau í gegnum tíðina.
Station wagon – skutbíll
Sedan – stallbakur
Hatchback – hlaðbakur
Cargo van – sendibíll
Mini Van – strumpastrætó
SUV – Jeppi, jepplingur
Krossover – sportjeppi, sportjepplingur
Truck – pallbíll
Liftback – afturhlerinn með afturrúðu opnast
Fastback – bara skottlok/ekki rúða opnast
Endilega komið með athugasemdir!
Umræður um þessa grein