Vermir toppsætið í Evrópu
Nú hefur ný kynslóð hins knáa Hyundai i10 litið dagsins ljós – og hann er kominn til Íslands og tilbúinn í sumarævintýrin. Einhvernveginn er þessi bíll bæði krúttlegur og sportlegur og miklu stærri en við fyrstu sýn.
Í fyrsta lagi kemur þessi nýi Hyundai i10 ákaflega vel búinn. Hann er boðinn í þremur glæsilegum útgáfum, Classic, Comfort og Style. Classic bílinn er verulega vel búinn af grunntýpu að vera – hæðarstillanlegt, upphitað ökumannssæti, hiti í stýri, 205 watta hljómkerfi, USB og 12 volta tengi ásamt útihitamæli.
Vel búinn smábíll
Við fengum Comfort bíl til afnota í reynsluakstrinum. Til viðbótar við Classic útgáfuna erum við að tala um skyggðar og rafdrifnar rúður, rafdrifnir hliðarspeglar, upphitanlegir hliðarspeglar, loftkælingu, bakkmyndavél, 4 hátalara og 8 tommu snertiskjá.
Style bíllinn er verulega flottur og sportlegur bíll. Hann kemur til að mynda á 15 tommu álfelgum (hægt að setja undir hann 16 tommu), dökkar rúður að aftan, stefnuljós í hliðarpseglum, þokuljósum að framan, lyklalausu aðgengi, hraðatakmarkara og þráðlaus símahleðsla.
Eyðslugrannur og mengar minna
Vélar í boði eru báðar 1 lítra Mpi vélar, bensínknúnar með mild hybrid búnaði. Í akstri hleður bíllinn rafmagni inn á geymi sem hjálpar síðan til við orkunýtinguna í upptaki. Þetta sparar talsvert eldsneyti og gerir aksturinn grænni. Eyðslan er gefin upp að meðaltali 4.4 lítrar á hverja 100 kílómetra og kolefnisútblástur ekki nema 99 gr. á kílómeter. Vélin skilar um 66 hestöflum sem er svipað og í öðrum bílum í sama stærðarflokki.
Hyundai i10 er eins og margir bílar í sama stærðarflokki með 3 strokka vél. Þeir sem komnir eru á besta aldur muna eflaust eftir Daihatsu Charade bílnum frá því um 1980 en þeir voru einmitt með 3 strokka vélum og þóttu afburða endigargóðir og sparneytnir. Hyundai i10 er sérlega hljóðlátur af smábíl að vera og fer vel með mann í akstri.
Sest inn en ekki ofan í
Sætin eru vel formuð og halda mjög vel við bak og fætur. Við erum jú að tala um smábíl en ekki stóran lúxusbíl. Þú sest líka beint inn í bílinn en ekki niður í hann. Sjónlínan er líka alveg frábær og útsýni gott allan hringinn. Slík hönnun ýtir undir öruggari akstur og ökumenn sjá betur hvað er að gerast í umferðinni.
Veldu þinn lit
Hönnun innanrýmis Hyundai i10 er glæsileg, efnisval, litaúrval og fjölmargir samsetningarmöguleikar. Til dæmis er hægt að fá bílinn tívílitan og þá með svörtu þaki. Þú getur valið úr tíu mismunandi litasamsetningum. Einnig getur þú valið þinn lit á mælaborð og sætisáklæði.
Hyundai i10 er búinn SmartSense aðstoðarkerfinu. Í því er háaljósaaðstoð, árekstraröryggis kerfi, skynjari fyrir umferð á undan og akreinastýring. Allt þetta í hinum litla en kná Hyundai i10. Síðast en ekki síst lætur i10 bíllinn þig vita ef honum finnst þú þurfa hvíld frá akstrinum, stoppa í sjoppunni og fá þér hressingu áður en lengra er haldið.
Huyundai i10 er fjölhæfur borgarbíll og hentar án efa mjög stórum hópi fólks. Bíllinn er fáanlegur í fjölmörgum útgáfum og hentar allt frá því að vera snattbíll fyrir fyrirtækið, annar bíll á heimilinu eða skólabíll unga fólksins.
Helstu tölur:
Verð frá 2.350 þús. (Verð á reynsluakstursbíl 2.550 þús.).
Vél: 1 lítra Mpi bensínknúin.
Hestöfl: 67.
Tog: 95 Nm.
Eyðsla: 4.4 l/100km.
Co2: 99 g/km.
L/B/H í mm.: 3670/1680/1480