Unginn í fjölskyldunni
Mazda 2 er nettur og vel hannaður smábíll. Hann hlaut hin eftirsóttu Red Dot hönnunarverðlaun sem sannarlega eiga við þennan sportlega bíl. Mazda 2 er líka sérlega vel búinn og tæknivæddur frá toppi til táar. Bíllinn er búinn hinni vinsælu Skyactive vél frá Mazda sem þekkt er fyrir minni eldsneytiseyðslu án þess að það komi niður á vinnslu vélarinnar. Með Skyactive vélunum hefur Mazda skapað sér sérstöðu þar sem rúmtak véla í bílum Mazda hefur haldið sér meðan aðrir bílaframleiðendur hamast við að minnka rúmtak véla sinna til að eldsneytiseyðslu niður.
Hentugur borgarbíll
Mazda 2 er akkúrat bíllinn sem hentar í borgarumferðinni, sem annar bíll á heimili eða skólabíll mennta- eða háskólanemans. Virkar örugglega sem prýðisgóður fjölskyldubíll fyrir minni fjölskyldu sem getur skellt barnabílstólnum í Isofix festingarnar á leiðinni heim úr vinnunni eða skólanum þegar barnið er sótt á leikskólann.
Við tókum góðan túr á Mazda 2 og byrjuðum á hefðbundum bæjarrúnti og keyptum okkur ís. Það verður að segjast að bíllinn kom á óvart. Ávalar línur Mözdunnar vekja hjá manni athygli, stórt grill og ljósin sem minna á arnaraugu gera bílinn sportlegan og flottan. Mazda notar KODO aðferðarfræðina, Soul of Motion við hönnun bílsins þar sem listfengi hönnuðanna nær alla leið hvað útlit og upplifun bílsins vaðar.
Mazda 2 er rúmgóður smábíll sem rúmar fjóra fullorðna ágætlega. Við settum þrjá farþega afturí en hefðum ekki lagt í að skella okkur norður á Akureyri með bílinn þannnig hlaðinn. Skottið er svipað að stærð og bílar í sambærilegum stærðarflokki en djúpt er ofan í skottið og því ef til vill hægt að koma aðeins meiru fyrir þegar lagt er af stað í útlileguna. Gluggarnir eru stórir og vel sést út um þá allstaðar í bílnum.
Vel byggð sæti
Framsætin eru þægileg og nokkuð góður stuðningur við bakið, sætin halda ágætlega við í hliðunum og nægt fótapláss er fram undir hvalbakinn. Stýrið er lítið og mælaborðið sportlegt og skýrt. Digital mælar sýna snúning vélar og eldsneytismagn.
Að sjálfsögðu er Mazda 2 búinn 7 tommu skjá sem staðsettur er fyrir miðju mælaborðinu fyrir hljómflutning, símatengingu og fleira. Í Niseko útgáfunni, bílnum sem við prófuðum er geislaspilari og stýring fyrir skjáinn er með snúningstakka á milli sætanna. Hentugt, þægilegt og minna truflandi en að vera með fingurinn á skjánum.
Ríkulegur búnaður
Eins og með fleiri litla bíla á markaðnum í dag stækkar bíllinn þegar sest er inn, ýtt á start/stop takkann og ekið af stað. Það er einfaldlega gott að aka Mazda 2. Hann er lipur, rásfastur og vélin kemur honum vel áfram þó upptakið sé kannski alveg það sneggsta á markaðnum. Svo sem ekkert viss um að það henti Mazda 2 að geta farið úr 0 og upp í 100 km. á klst. á einhverjum 6 sekúndum. En aflið er nægilegt og stendur akstrinum síður en svo fyrir þrifum.
Við prófuðum Niseko bílinn með sjálfskiptingu. Hann skilar um 90 hestöflum og eyðir um 5,4 lítrum á hundraðið. Core útgáfan er með 75 estafla vél og eyðir um 5,1 lítra á hundraðið en Optimum útgáfan er með 115 hestafla vél og eyðir um 5,6 lítrum á hundraðið.
Mazda 2 er sérlega vel búinn bíll. Hann er með start/stop tækni sem Mazda kallar i-stop, stöðugleikakerfi, spólvörn, rafdrifnar rúðar að framan og aftan, rafstýrðir speglar, fjarstýringu á hljómtækjum, 12 volta tengi, USB tengi, stigstilltur hiti í framsætum, öryggispúða fyrir ökumann, framsætisfarþega, í hliðum og loftpúðagardínur. Umfram í Niseko bílnum (sem er einmitt á tilboði hjá Brimborg þegar þetta er skrifað) er veglínuskynjari, radarstýrð snjallhemlun sem stöðvar bílinn ef radarinn skynjar yfirvofandi fyrirstöðu. Skyggðar rúður að aftan, 40/60 niðurfellanlegt aftursætisbak, hraðastillir með hraðatakmörkun og blátannarbúnaður, loftkælingu og hiti í útispeglum.
Aukabúnaður
Fáanlegur aukabúnaður er meðal annars, upplýstur állisti í hurðarfals, bakkmyndavél, aukafelgur og svo mætti lengi telja.
Brimborg býður öryggispakka með Optimum útfærslunni en í honum eru LED aðalljós með hæðarstillingu og sjálfvirkri háuljósastýringu. Framrúðuskjár (Head up display), snjallhemlunarkerfi þegar bakkað er, lyklalaust aðgengi, bakkmyndavél og ökumannsvaki.
Helstu tölur:
Tilboðsverð frá: 2.270.000 kr. (Niseko reynlusakstursbíll 2.670.000 kr.)
Vél: 1.500 rms
Hestöfl: 90 við 6.000 sn.
Newtonmetrar: 148 við 4000 sn.
0-100 k á klst: 12 sek.
Hámarkshraði: 177 km
CO2: 118 g/km
Eigin þyngd: 1.021 kg
L/B/H 4060/1695/1495 mm
?