Sterkur karakter og kröftugur
Það færist í vöxt að menn velji sér frekar sportjeppa fram yfir kröftuga og skemmtilega bíla sem gefa manni mikla akstursánægju. Þegar að maður fær í hendurnar jafn öflugan og skemmtilegan bíl eins og Jaguar XE, er erfitt að skilja af hverju einhver myndi velja sportjeppa fram yfir hann.
Allt fyrir ökumanninn
Það eru til þrjár týpur af bílum. Bílar sem þú sest niður í, bílar sem þú sest inni í og svo bílar sem þú sest upp í. Jaguar XE er bíll sem þú sest niður í og kemur þér vel fyrir undir stýri. Undir stýri á XE finnur þú strax að þar sé gott að vera og eitthvað virkilega spennandi að fara að gerast. Jaguar XE er bíll sem þú næstum því klæðir þig í. Að spenna öryggisbeltið er örlítið eins og þú sért að setja á þig skó. Sportsætin faðma líkama þinn og þér líður eins og verið sé að halda á þér í stórum lófa, líkt og afar gera við barnabörnin sín þegar þeir lyfta þeim til lofts.
Öflug hönnun í takt við fjölskylduna
Hönnun XE sver sig vel í Jaguar ættartréð. Bíllinn sem ég hafði til prufu var R-Sport útfærsla og með henni kemur öflugur og grimmur framendi. Bíllinn var á svörtum felgum og allt það sem venjulega er krómað var svart á prufubílnum. Meira að segja loftopið sem er á framhliðum bílsins er svart. Dökkar rúðurnar og dökk sóllúgan gefa bílnum svo enn sterkara útlit. Við þetta bætast breiðari hliðar undir hurðum og fram- og afturstuðari með sportlegum línum.
Bara þú og vegurinn
Að aka Jaguar XE er upplifun. Í gegnum stýrið ertu vel tengdur veginum og skiptir bíllinn um stefnu alveg jafn hratt og stýrinu er snúið. Tenging bílstjórans við veginn í gegnum bílinn er einstök og hjálpar það mikið hvernig bíllinn liggur á vegi. Þyngdarpunktur hans er mjög lágur sem gerir það að verkum að hann haggast ekki í beygjum. Fjórhjóladrifskerfið, sem var í reynsluakstursbílnum, sendir meirihlutann af togi vélarinnar til afturhjólanna. Það finnur þú vel þegar að komið er út úr hringtorgum til dæmis og gefur aftur inn. Hröðunin þá fer mest í gegnum afturhjólin og þér líður sem bíllinn svífi áfram staðfastur í stefnu sinni því framhjólin geta enn einbeitt sér að því að stýra. Þetta finnst líka þegar þú ekur af stað á ljósum. Ekkert tog kemur þá í stýrið til hægri eða vinstri.
Og já, praktískur líka
Það er ekki bara frábær akstursupplifun og geggjuð vél sem þú færð í pakkanum með Jaguar XE. Þar færðu líka hentugan bíl til daglegra nota. Á milli framsætanna eru stórir glasahaldarar ásamt góðu geymsluhólfi. Fyrir framan farþegann er hanskahólf og í hurðum eru geymsluhólf. Þau geymsluhólf eru með mjúku teppi í botninum til að koma í veg fyrir skrölthljóð ef þú geymir eitthvað þar. Plássið í aftursætunum er líka gott. Þar er nóg fótapláss og fínt höfuðrými. Hurðirnar opnast líka mjög vel og hægt er að koma fyrir barnabílstól þar líka, enda eru þar ISIOFIX festingar.
Meira að segja skottið er vel nothæft. Í það passar golfsett af meðalstærð og undir gólfinu má finna varadekk.
Lokaorð
Jaguar XE afhendir þér í einum pakka allt sem að sportlegur fólksbíll getur veitt þér. Frábærir aksturseiginleikar og sportlegt útlit sameinast til að veita þér upplifun í hvert skipti sem þú ekur á milli staða. Það að fólk færist meira og meira í áttina að eignast litla jepplinga í staðinn fyrir frábæra bíla eins og Jaguar XE er óskiljanlegt. Ef þig langar í bifreið sem býður uppá eitthvað öðruvísi en bara lítið farartæki til að koma þér frá A til B þá er Jaguar XE hannaður fyrir þig. Sterkur karakter sem veitir þér ánægju í hvert skipti sem þú sest undir stýri. Ég mæli með Jaguar XE fyrir alla þá sem sækjast eftir bifreið sem veitir þeim ánægju og hamingju í hvert sinn sem þeir aka honum.
Ef maki þinn segir nei bentu honum þá á tvennt: Í fyrsta lagi þá er hann fjóhjóladrifinn og í öðru lagi þá átti Halldór Laxness Jaguar um árabil.
Þú þarft hinsvegar ekki að vinna Nóbelsverðlaun til að fatta það að Jaguar XE eru frábær kaup.
Ef þér lýst á’ann, keyptann!