Rúmgóður rafmagnsbíll
Nú eru rafbílar í sókn á Íslandi. Þeir seljast sem aldrei fyrr og umboðin hafa vart undan eftirspurninni. Reyndar er það svo að langur biðlisti er eftir nýjum bílum hjá flestum umboðum. Markast það meðal annars af Covid faraldri og öðrum hörmungum heimsins.


Skoda Enyaq vakti mikla athygli þegar hann lenti í Heklu í fyrra. Bíllinn er frumraun Skoda í framleiðslu hreinna rafbíla og verður að segja að vel hafi til tekist.
Skoda Enyaq er byggður á MEB grunni VW samsteypunnar og er á sama undirvagni og VW ID.4. Það er því margt sem er líkt ef ekki alveg eins í þessum tveimur rafbílum.
Skoda Enyaq er ansi mikið fyrir augað. Falleg lína og sambland hefðbundinna hönnunar í bland við nýtísku rafbílahönnun gerir bílinn að góðum kosti fyrir mjög breiðan markhóp.
Þú getur til dæmis fengið hann í Sportline útgáfu þar sem svarti liturinn undirstrikar línur bílins og stórar felgur draga fram sportlegt útlit.
Ríkulegt úrval
Hekla býður Skoda Enyaq í hvorki fleiri né færri en níu útgáfum. Allt frá byrjunartýpunni sem heitir Skoda Enyaq IV60 og er afturdrifinn með 58 kwst. rafhlöðu. Sá bíll er að fara allt að 412 km. á hleðslunni skv. WLTP staðlinum.
Bíllinn sá er um 180 hestöfl og kostar frá 5.790.000 (apríl 2022).

Reynsluakstursbíllinn var hins vegar fjórhjóladrifinn og með stærri rafhlöðunni. Rafhlaðan tekur um 77 kwst. og drægni er um 496 km. skv. WLTP staðlinum. Hestöflin 265 talsins og hægt að hlaða frá 10-80% á um 40 mínútum. Sá bíll tekur við allt að 125 kw. í hraðhleðslu en um 11 kw. í heimahleðslu. Það þýðir að hægt er hægt er að fullhlaða á um sex til sjö klukkustundum.
Hins vegar er mælt með hlaða rafhlöðuna ekki meira en í 80% að jafnaði.

Tvíburar, þó ekki eineggja
Nú erum við hjá Bílablogg búin að reynsluaka nokkrum rafbílum á síðustu misserum. Nú getum við loksins farið að bera saman slíka bíla að einhverju leyti.
Þó svo að Skoda Enyaq og VW séu tvíburar í eiginlegri merkingu verður ekki hægt að kalla þá eineggja í því tilliti. Það er nefnilega talsverður munur á að aka Enyaq og VW.
Enyaq er með öðruvísi karakter og sætisstaðan er öðruvísi í bílnum. Mælaborðið er aðeins pakkaðra og þar er meira af tökkum en í ID.4 bílnum.
Stýrið er einnig minna. Allt þetta finnst okkur gefa Skodanum aðeins meiri sportlega eiginleika en til dæmis ID.4.

Fjöðrun bílsins er stíf en Style Plus bíllinn kemur með stillanlegri fjöðrun. Hins vegar er draumur að aka bílnum og eins og með flesta rafbíla, liggur hann eins og sleggja í beygjum og er afar nákvæmur í stýri.
Rafbílar eru yfirleitt með þyngdarpunktinn fyrir miðju og megin þyngdin liggur neðst í honum. Skoda Enyaq vegur rúmlega 2 tonn.

Gott pláss og aðgengi
Skoda Enyaq er örlítið lengri en ID.4 bíllinn. Það má alveg finna það í aftursætinu. Fótaplássið er frábært og höfuðpláss einnig. Það fer vel um bæði farþega og ökumann í vel formuðum sætum og gólfið er slétt.
Við ókum bílnum aðallega um götur Reykjavíkur og í frekar þungri umferð. Þar reyndist bíllinn afar vel. Skoda Enyaq er hljóðlátur og áreynslulaus í akstri. Aflið er meira en nóg og við söknuðum þess ekkert að geta ekki tekið hann úr 0-100 km/klst. á undir fimm sekúndum.
Reyndar er uppgefinn tími á slíkri hröðun um sjö sekúndur á reynsluakstursbílnum.


Rafbílar virka ágætlega Íslandi
Nú hafa undirritaðir báður ekið um á rafbílum í rúmt ár og líkað vel. Það sem komið hefur á óvart er að hugtakið „hleðslukvíði” er eitthvað sem hvorugur okkar þekkir.
Yfirleitt er maður að hlaða yfir nótt í heimahleðslustöð og þá frá um 20-80%.
Maður pælir ekki einu sinni í hleðslutímanum – hann hreinlega skiptir ekki máli.
Annar okkar ekur til dæmis mjög reglulega milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Að auki sinnir maður þeim erindum í borginni sem þarf – og er þá í borgarakstri þar sem bíllinn eyðir minna rafmagni heldur en í langkeyrslu, öfugt við bíl með brunavél. Maður þarf nánast aldrei að nota hraðhleðslustöð.

Hleðslukvíði óþarfur
Rafbílar líkt og Skoda Enyaq og ID.4 með uppgefna drægni um og yfir 500 kílómetra duga því vel við íslenskar aðstæður. Ef við horfum til raunnotkunar á bíl eins og ID.4 með uppgefna drægni upp á 500 kílómetra samkvæmt WLTP staðli um fulla rafhlöðu.
Við hlöðum um 80% að jafnaði sem gefur 400 kílómetra. Miðað er við blandaðan akstur.
Að sumri til er hægt að draga 30-40 kílómetra frá þessari tölu vegna sumarhitans á Íslandi. Þá værum við að tala um heildardrægni upp á um 365 kílómetra.
Að vetri til hefur raundrægnin síðan farið niður í 285 kílómetra sem nemur lækkun á drægni upp á 80 kílómetra miðað við sumar og vetur. Allt er þetta innan marka ef skoðaðar eru tölur frá EV-database

Fjölskyldubíll eða sportari?
Við mælum með Skoda Enyaq sem hagnýtum fjölskyldubíl með góðu plássi og þægindum. 585 lítra farangursgeymslan er rúmgóð og að henni er gott aðgengi. Mjög vel fer um fjóra farþega í bílnum, fínt að stíga út og setjast inn.
Framsetning stjórntækja er þannig að hún hentar öllum aldurshópum – þeir sem vilja frekar takka, geta þrýst á svoleiðis eða notað snertiskjá.
Skoda Enyaq er fáanlegur í fjölda útfærslna og því eitthvað fyrir alla úr að velja. Hekla býður upp á úrval aukahluta og lúxus sem hægt er að panta með bílnum.


Helstu tölur:
Verð frá 5.790.000 kr. Reynsluakstursbíll af Style gerð á 7.690.000 kr.(apríl 2022).
Rafhlaða: 77 kWh.
Dráttargeta: 1000 kg.
Drægni: 496 km.
0-100 km á klst. 6,9 sek.
Farangursgeymsla: 585 lítrar.
CO2: 0 g/km.
Þyngd: 2.195 kg.
L/B/H: 4.649/1.879 /1.616 mm.
Myndataka og myndvinnsla: Dawid Gali?ski.
Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson