Framúrskarandi tækni
Við hjá Bílabloggi tókum nýverið splunkunýjan Tesla Model Y í reynsluakstur. Það hefur verið ansi blautt í haust og ekki kannski of margir dagar til að skreppa í góðan reynsluakstur á flottum bíl.
Það var síðan á blautum mánudegi sem við tókum Tesluna og nutum þess að reynsluaka bílnum í mígandi rigningu nánast allan daginn.
En Teslan er vel vatnsheld og fór vel með okkur í rigningu og roki.
Bara venjulegur bíll?
Já og nokk meira en það. Við sögðum frá því í sumar þegar við prófuðum Tesla Model 3 að þar væri á ferð kappakstursfjölskyldubíll og það eru orð að sönnu. Tesla Model Y er síðan nokkurskonar framlenging á þörfum þeirra sem vilja rúmgóðan ferðabíl með því saman og þristurinn býður uppá.
Tesla er í rauninni ekkert öðruvísi, betri eða verri bifreið en flestir samkeppnisaðilar eru að framleiða.
Hönnun, efnisval, samsetning og aksturseiginleikar eru á pari við marga aðra rafmagnsbíla í dag. Það er hins vegar tæknistig bílsins sem hefur skotið samkeppnisaðilum Teslunnar ref fyrir rass.
Kraftmikill og rúmgóður
Við opnun farangursrýmisins er eins og maður horfi inn í lítinn sendibíl. Gólfflötur farangursrýmisins er um fermeter að stærð og með sætin felld niður er plássið um tvö þúsund lítrar – sagt og skrifað! Svo eru allskyns hólf og hirslur í bílnum – bæði fram í og aftur í.
Maður hugsaði til Indiana Jones þegar maður lyfti spjaldinu í skottinu upp og sá „leynihólfin“.
Upptak bílsins er nægilegt – ekki fleiri orð um það. Ef þú þarft styttri tíma en fimm sekúndur í 100 kílómetra á klukkustund kemur Tesla Model Y Performance næsta sumar – þá geturðu farið þetta á rétt rúmum þremur sekúndum.
Auðveldur
Maður hefur heyrt nokkur svona komment „er ekki ægilega mikið vesen að læra á allt þetta tölvudót?“. Þegar þú gengur að bílnum með aðgangskortið eða snjallsímann opnar þú án vandræða með því að taka í hurðarhún, ekki ólíkt og á flestum bílum í dag.
Þegar inn er komið sér bíllinn um að vera tilbúinn fyrir þig þegar þér hentar að leggja í hann. Þú skellir í „áfram“ og ekur af stað (gefið að þú þurfir ekki að bakka fyrst).
Skjáinn höfum við margoft heyrt talað um. Á honum sérðu allt sem þú þarft til að haga akstrinum á sem öruggastan máta.
Þar sérðu afstöðu bílsins í umferðinni, hann skynjar umhverfið í kringum sig og sýnir þér niðurstöðuna á skjánum. Ef þú vilt sjá meira, getur þú kveikt á myndavélum bílsins sem sýna þér til hliðar við bílinn, aftan við hann og fram fyrir hann ef þurfa þykir.
Öflugir sjálfstæðir mótorar
Tesla Model Y er með drifi á öllum hjólum. Bíllinn er búinn tveimur öflugum rafmótorum sem stýra snúningsátaki með stafrænum hætti til fram- og afturhjóla. Þú finnur þegar þú ekur bílnum hversu stýrið er nákvæmt, hann steinliggur og hreyfist lítið sem ekkert í beygjum.
Við prófuðum bílinn í mikilli bleytu og fundum ekki fyrir neinu skriði í beygjum. Hins vegar er finnanlegur munur á Tesla Model 3 og Model Y hvað „boddý-roll“ varðar enda bíllinn talsvert hærri á vegi en Model 3. Það er samt sem áður varla neitt til að tala um.
Pláss fyrir farþega og…
Aftur í er plássið með því betra sem við höfum séð. Framsætin eru reyndar svolítið há og skyggja eilítið á útsýni farþega aftur í, gólfið er slétt þannig að það fer ágætlega um fimm fullvaxna aftur í. Frammí fer ákaflega vel um farþega og ökumann og hægt að stilla sætin á fjölmarga vegu með rafmagnsstýringu.
Eina sem setja mætti út á, er að afturrúðan er frekar lítil og þegar höfuðpúðar aftur í eru dregnir upp sést nánast ekkert út um afturgluggann.
Rafhlaðan
Hún er ekki nema 75 kWst. Uppgefin drægni skv. WLTP staðlinum er 507 kílómetrar. Hægt er að hlaða um 240 km. í Supercharger stöð Tesla hringinn í kringum landið á korteri.
Tesla getur tekið við allt að 250 kWst. á klukkustund sem er með því mesta sem gerist á markaðnum í dag. Supercharger stöðvar Tesla sem eru staðsettar hringinn í kringum landið geta náð hleðslugetu upp á 250 kWst. á klukkustund. Þess má geta að hleðslunet Tesla er aðeins fyrir Tesla bifreiðar.
Ef við skoðum þetta út frá heimilisnotkun getum við ef til vill litið á dæmið svona: Hjón með tvö börn sem búa í Reykjanesbæ eiga splunkunýjan Tesla Model Y. Þau hlaða hann heima í gegnum 11 kWst. hleðslustöð og fylla bílinn alltaf yfir nótt.
Þau pæla aldrei í því hvað það tekur langan tíma. Þau geta leikandi farið tvisvar á milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar án þess að hafa nokkrar áhyggjur af því að rafmagnið þverri.
Þegar kólna fer minnkar drægnin eilítið en aldrei svo að það valdi þeim áhyggjum. Ætli sé ekki verið að tala um 20-30% minni drægni en skv. WLTP staðlinum í roki og snjóbyl skv. íslenskum Veðurstofustaðli.
Smellpassar
Tesla Model Y er svo sannarlega ferðabíll. Fjórhjóladrifið, hæð undir lægsta punkt, Supercharger hleðslunetið og plássið í bílnum gerir bílinn að einum af betri kostunum í rafbílaflórunni á markaðnum í dag.
Svo getur þú dregið tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi allt að 1.600 kílógrömum að hámarki en við það eyðir bíllinn að sjálfsögðu mun meiri orku.
Ef þú vilt bera saman svipaða bíla í verði og gæðum gætir þú borið Tesla Model Y saman við VW ID.4, Mustang Mach E og Skoda Enyaq til dæmis.
Helstu tölur:
Verð frá 7.904.579 kr. skv. upplýsingum á vef Tesla 26.10.2021.
Rafhlaða: 75 kWh.
Dráttargeta: 1.600 kg.
Hæð undir lægst punkt: 17 sm.
Drægni: 507 km.
0-100 km á klst. 5 sek.
Farangursgeymsla: 2.158 lítrar að hámarki.
CO2: 0 g/km.
Þyngd: 2.003 kg.
L/B/H: 4750/1920/1623
Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson