Frábær bíll fyrir fjölskyldufólk
Þróunin heldur áfram. Bílaumboðin keppast um að bjóða hagkvæma bíla sem nýtast hverjum og einum á marga vegu. Við tókum einn slíkan daginn fyrir þjóðhátíð nú í júní. Kia X Ceed er glæsilegur bíll með háa veghæð, hagkvæmur og fjölhæfur og síðast en ekki síst flottur bíll sem frábært er að aka.
Þéttur og hljóðlátur
Kia X Ceed er svar Kia við millistærðarbílum á borð við Volkswagen T-Roc og Hyundai Kona svo dæmi sé tekið. Hann er plássmikill og þægilegt er að ganga um bílinn. Kia X Ceed verður seldur í tveimur útgáfum sem báðar eru mjög vel búnar – Urban og Style.
Báðar þessar gerðir er plug-in hybrid og samkvæmt upplýsingum frá umboðinu er talsverð eftirspurn eftir bílnum – enda bíllinn vel búinn og á hagkvæmu verði. Kia býður síðan kaupendum sínum upp á 7 ára Kia ábyrgð sem ekki spillir fyrir kaupum á splunkunýjum bíl. Kia X Ceed er einstaklega vel hljóðeinangraður og þéttur bíll.
Við tókum bíltúr á Urban gerðinni en sá bíll er með 1.6 lítra GDi bensínvel og rafmótor. Saman skila þessir aflgjafar um 141 hestafli og rafmótorinn gefur að hámarki afl upp á 8.9 kWh. Verið á Urban gerðinni er kr. 4.790 þús. (júní 2020) og verður að segjast með eindæmum gott miðað við þetta stóran og hagkvæman bíl. Style bíllinn er rétt ókominn í umboðið en verður á 5.190 þús. sem teljast verður mjög hagkvæmt verð miðað við búnað í Style útgáfunni.
Vel búinn
Ríkulegur staðalbúnaður er í boði í nýjum Kia X Ceed. Bíllinn kemur á 16 tommu álfelgum og er með 8 tommu snertiskjá, hraðastillir, blátannarbúnað, tvöfalda tölvustýrða loftkælingu, lykillaust aðgengi og ræsingu, bakkmyndavél, fjarlægðarskynjara, rafmagnshandbremsu og H-Matic stýri svo eitthvað sé nefnt. H-Matic stýrið eða Flex stýrið er„vökvastýri” stýrt með rafmagni. Ekki einatt býður það manni upp á lauflétta stýringu í öllum aðstæðum heldur er hægt að stilla það miðað við aðstæður. Sérlega flottur og þægilegur fídus í nútíma bílum.
Góður ferðabíll
Kia X Ceed er með stífa og góða yfirbyggingu sem gerir bílinn bæði stöðugan og þægilegan í akstri. Hægt er að skipta á milli aksturstillinga, eco og sport og verður bíllinn talsvert sprækari í upptakinu á sport stillingunni. Einng er í boði að skipta á milli aflgjafa eða nota þá saman – eða láta bílinn sjálfan um að nýta aflgjafana sem best miðað við akstursaðstæður.
Þannig getur þú ekið bílnum á hreinu rafmagni í um 60 km. á einni hleðslu – eða nýtt bensínvélina og rafmótorinn saman og komist þannig af með mjög litla eldsneytiseyðslu. Uppgefin eyðsla er frá 1.43 ltr/100 km. Gæti trúað að rauneyðsla sé ef til vill í kringum 4 ltr/100 km. Togið mætti vera meira á eco stillingunni en var verulega betra í sport stillingu.
Sest inn en ekki niður í bílinn
Kia X Ceed er talsvert hár á vegi og ef þú velur Style útgáfuna á 17 tommu felgum er hæð undir lægst punkt um 17 sm. Séu settar undir bílinn 18 tommu felgur verður lægsta hæð um 18 sm. Þó svo að bíllinn sé á 16 tommu felgum sest maður í raun beint inn í bílinn en ekki niður í hann.
Góð veghæð
Style bíllinn kemur einmitt á 18 tommu álfelgum og er með 10.25 tommu snertiskjá. Í honum er líslenskt leiðsögukerfi, 12.3 tommu LCD stafrænt mælaborð, blindblettsvari, skynvæddur hraðastillir sem heldur jöfnu bili á milli bílsins þíns og þess fyrir framan þig.
Það er sjálfvirk opnun á afturhlera og rafstilling fyrir mjóbak í framsætum. Í bílnum eru öryggisvakar líkt og í flestum nýjum bifreiðum í dag –lætur vita ef hindrun er framundan og hemlar fyrir þig ef þú nærð ekki að gera það í tíma. Akreinavarinn er þannig virkur að hann beinir bílnum frá ef farið er of nálægt miðlínu eða veglínu. Mjög öflugt öryggistæki.
Kia X Ceed er fáanlegur í 11 mismunandi litum, sjálfskiptur og með fallega hannaðri innréttingu og sætum sem gott er að sitja í.
Plássmikill
Okkar mat er að þetta sé einn af flottustu fjölskyldubílunum á markaðnum í dag. Farangursgeymslan er um 291 lítri og stækkanleg á nokkra vegu upp í allt að 1300 lítrum. Vel fer um fimm fullorðna í þessum bíl og ég gæti alveg hugsað mér að sitja alla leið til Húsavíkur í einu rykk, taka pulsu og kók og renna síðan til Egilsstaða á einum og sama deginum.
PHEV – plug-in hybrid ökutæki virka nákvæmlega eins og hybrid ökutæki nema að þú getur einnig hlaðið plug-in með kapli. Endurheimt orku verður til í venjulegum akstri, þegar ekið er niður brattar brekkur eða hemlun.
Helstu tölur:
Verð frá: 4.190.777 kr. (Verð í júní 2020).
Vél: 1.6 rms. PEHV (plug-in hybrid)
Hestöfl: 141
Rafhlaða: 8.9 kWh
Hámarkstog: 265/4000 Nm/sn/mín.
0-100 k á klst: 11 sek.
Hámarkshraði: 188 km/klst.
CO2: 29 gr/km.
Eigin þyngd: 1519-1596 kg.
L/B/H 4395/1826/1483 mm.