Hljóðlátur, 7-manna og hannaður af hugviti

TEGUND: Toyota Highlander Hybrid

Árgerð: 2021

Orkugjafi:

150
DEILINGAR
1.4k
SMELLIR

Það var vel við hæfi að mynda Toyota Highlander fyrst á Bessastöðum því hann myndi heldur betur sóma sér vel, sá bíll, í hlutverki fararskjóta þjóðhöfðingja. Hann er nefnilega það sem kallast getur „alveg elegant“!

Highlander er alls ekki ný undirtegund Toyota. Hann hefur verið framleiddur síðan um aldamótin þó svo að hann sé fyrst núna kominn í sölu hér á landi. Highlander Hybrid er 7-manna sportjeppi, mitt á milli RAV4 og Land Cruiser í stærð. 2,5l. fjögurra strokka bensínvél auk rafmótors skila tæplega 250 hestöflum og er það stórgott. Hann er sjálfskiptur og með aldrifi. Eyðslutölur fyrir blandaðan akstur eru á bilinu 6.6 – 7.1l/100 km og var eyðslan um 8.3l/100 í reynsluakstrinum.

Auðvelt hefði verið að lækka eyðslutölurnar ef sá gállinn hefði verið á undirritaðri.

CO2 gildið er um 160g/km sem er nokkuð gott fyrir svo stóran og öflugan bíl.

Japanskt og gott

Eftir að hafa heimsótt hið ótrúlega land, Japan, á síðasta ári, er mér enn betur ljóst hversu mikill metnaður býr að baki hverju því sem Japanir taka sér fyrir hendur. Af framkomu þeirra geta allir lært eitthvað gott en framkoman er einmitt stór hluti af þeirri virðingu sem t.d. Toyota, hinn gríðarstóri japanski framleiðandi, sýnir viðskiptavinum sínum.

Þessi virðing og metnaður skilar sér í bílaframleiðslunni og fullyrðir undirrituð að fúsk og flaustur er álíka fjarri Japönum og stöðugt veðurfar og lágt vöruverð Íslendingum. Sem sagt: Ekki til.

Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá

Það er ekki þar með sagt að maður treysti í blindni á að Toyota framleiði bara fullkomna bíla. Nei, að sjálfsögðu ekki. Þar komum við bílablaðamenn m.a. til sögunnar. Við ökum æði mörgum mismunandi bílum og drögum saman það helsta til að þeir sem eru í bílahugleiðingum geti tekið mið af niðurstöðum okkar; Kostir og gallar, verð og gæði, samanburður, nýjungar og svo mætti lengi telja.

Þessi atriði eru m.a. skoðuð og svo má ekki vanmeta huglægt mat og tilfinningu bílablaðamanns sem lesendur kunna margir hverjir að meta.

Stundum heyrast óánægjuraddir lesenda: „Hvurslags? Engir gallar? Gallalaus bíll?“ Já, lesendur góðir, bílar verða stöðugt betri og fullkomnari og ekki alltaf sem einhverjum augljósum galla eða mínusum er til að dreifa. „Bíllinn fór fyrir það fyrsta ekki í gang. Enginn tjakkur fylgdi og kom það óþægilega á óvart þegar sprakk á bílnum… Rúðuþurrkumótorinn bræddi úr sér í úrhellinu sem skall á rétt áður en reynsluakstri lauk.“

Þetta er sem betur fer sjaldgæft og heyrir nánast fortíðinni til. Það er því ósköp eðlilegt að gallar séu mun færri en kostirnir.

Hátt verð er ekki „galli“

Þá er það hið augljósa sem bílablaðamaður verður að nefna, þótt augljóst sé: Highlander er langt frá því að vera ódýr. Verðið er frá 10.690.000 kr. til 12.790.000 kr. Þeir sem eru á höttunum eftir ódýru ökutæki ættu að skoða aðra valkosti.

Þeir sem hafa ráð á bíl með þessum verðmiða: Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum! Bíllinn er frábærlega hannaður og hér virðist hugsað fyrir öllu. Líka því sem manni hefði ekki dottið í hug en gleðst yfir að sé til staðar í bílnum.

Með það í huga sem skrifað var hér að ofan þá er verðið ekki galli heldur staðreynd að frábærlega búinn „elegant“ 7-manna jeppi kostar meira en fólksbíll og förum ekki nánar út í það.

Er virkilega rok úti?

Ísland er auðugt land og eitt af því sem nóg er til af er vindur. Stundum truflar vindurinn mann voðalega við akstur og vindgnauðið getur gert bílstjóra og farþega allt að því sturlaða. Þegar verst lætur. Eðli máls samkvæmt var rok hluta þess tíma er reynsluakstur fór fram.

Mér dauðbrá þegar ég stöðvaði ökutækið og ætlaði út að taka af því myndir: Ég fauk nánast um koll!

Rokinu tók ég hreinlega ekki eftir því hönnunin á Highlander er með því móti að vindgnauð er ekki á meðal þess sem bílnum fylgir. Þetta þurfti að skoða nánar og þegar skyggnst var nánar ofan í hönnunarsögusarp hins nýja Highlander, kom í ljós að verkfræðingar Toyota einsettu sér að útrýma vindgnauði. Þeim tókst það!

Hljómar vel

Prófuð var sú útgáfa er nefnist Luxury og fylgir henni býsna gott hljóðkerfi frá JBL. „Fyrsta flokks“ hljóðkerfi segir í staðalbúnaðaryfirlitinu og, já, það getur sko vel passað. 11 hátalarar, einangrun bílsins og hönnun (vindgnauðs„leysið“ t.d.) og sitthvað fleira gera bílinn að einhverju sem nánast má líkja við tónleikasal. Það er reyndar svo lummó að segja að bíll sé „tónleikasalur á fjórum hjólum“ að best er að sleppa því.

En maður lifandi! Hversu gaman það var að hlýða á góða tónlist í þessum bíl.

Prófaði reyndar ekki vonda tónlist en hver veit nema hún hefði jafnvel hljómað ögn skár en vanalega í þessum græjum. Lífið er samt of stutt fyrir vonda tónlist!

Ótrúlegt rými

Rýmið hlýtur að vera með því margbreytilegasta sem völ er á í ökutækjum innan þessa stærðarflokks. Þó svo að sum okkar (já, ég) hafi ekki sérlega góða rýmisgreind þá tala tölurnar sínu máli. Og jú, maður finnur að sjálfsögðu þegar nánast endalaust er hægt að hlaða dóti og fólki í bíl (var ekki prófað samt!).

Hægt er að leggja niður bæði aðra og þriðju sætaröð og sé það gert verður til gímald nokkurt sem mælist 1909 lítra.

En sé ekkert verið að vasast í sætunum þá ætti að fara vel um alla í bílnum, hvort sem þeir eru einn, tveir eða sjö talsins. Fótarými er gott, þriggja svæða loftkæling sem ætti að koma í veg fyrir rifrildi þar sem hægt er að stilla allt hátt og lágt eftir þörfum. Það er hiti í öllum sætum nema tveimur öftustu. Reyndar skal tekið fram að greinarhöfundur prófaði ekki að planta sér í öftustu sætaröðina. Það gerði sonurinn, 12 ára gamall, og hann sagði að það væri ekki mikið pláss þar. Sætin tvö myndu henta vel fyrir smærri börn.

USB-tengi eru þar sem þau eiga að vera og enginn skortur þar á. Geymsluhólf eru hér og þar í bílnum fyrir allt mögulegt. Það er í það minnsta enginn vandi að finna hlutunum stað í Highlander.

Tækni- og öryggisþáttum eru gerð góð skil á síðu Toyota og má lesa um þá hér.

Akstur og umhverfi

Highlander Hybrid er þægilegur í akstri en það var ekkert sem virkilega kom á óvart hvað aksturseiginleika snertir. Ekkert „VÁÁÁ“ gerði vart við sig. Yfir engu er þó að kvarta; aflið er býsna gott, hann er snöggur (8,3 sekúndur frá 0 upp í 100) og lipur, eyðslutölurnar vel ásættanlegar og svo er hægt að draga eftirvagn upp að tveimur tonnum. Það er ekkert því til fyrirstöðu að 7-manna fjölskylda geti skottast um landið með hjólhýsi í eftirdragi.

Það er hægt að velja á milli NORMAL- ECO- og SPORT stillinga og það er fínt.

Auðvitað er „hrein“ dásemd að geta ekið á rafmagni eingöngu þegar gríslingunum er skutlað eitthvert eða farið út í búð. Það er mikill munur að þurfa ekki að skapa mengunarský í hvert skipti sem skjótast þarf eitthvert eða þegar beðið er á ljósum.

Persónulega finnst mér bíllinn gera mikið fyrir umhverfið því hann er svo fallega hannaður! Þykir mér þar hafa tekist vel til. Framendinn og grillið gera hann reffilegan og línurnar gera hann rennilegan. Reffilegur og rennilegur! Ekki slæm blanda það!

Smáatriðin sem oft hafa vinninginn

Smáatriði; Þráðlaust hleðslutæki fyrir farsíma, hiti í stýri, viðvörun sem minnir mann á að taka lyklana með ef maður virðist ætla að yfirgefa bílinn án þeirra, minni í ökumannssæti, stemningslýsing í hurðaspjöldum og undir mælaborði. Allt eru þetta smáatriði sem við getum sannarlega verið án og höfum flest verið án til þessa. En þetta eru svo skemmtileg smáatriði!

Það að geta hlaðið símann þráðlaust er skemmtilegt „smáatriði“

Eins og fjallað var um í upphafi greinar þá eru Japanir höfðingjar miklir með fágaða framkomu sem einkennist af virðingu. Er það smáatriði? Það getur verið en veit sú er þetta ritar að í þeirri heildarmynd sem Toyota-risinn er þá er virðingin ekki smáatriði þar. Virðingin fyrir viðskiptavinum er eitt af grundvallaratriðum Toyota út um allan heim. Líka hér á Íslandi.

„Omotenashi“ af öllu hjarta

Þessi grein er ekki lofræða um Toyota en það er um að gera að hrósa fyrir það sem vel er gert og rifjast nú upp viðtal sem undirrituð tók fyrir mörgum árum síðan við forstjóra Toyota á Íslandi, Úlfar Steindórsson. Viðtalið birtist í Morgunblaðinu og bar yfirskriftina „Með japanska gestrisni að leiðarljósi“ .

Leyfi ég mér að grípa niður í eigin skrif þar sem segir um þjónustulundina og hina japönsku gestrisni: „Hugsunin að baki ristir djúpt og byggist á japanskri kurteisi og speki. Þar í landi er þjónustulundin mikil og fær fólk sem gegnir þjónustustörfum þar ytra alla jafna góða þjálfun í því að líta á viðskiptavininn sem býsna mikilvæga manneskju. „Omotenashi“ er japanskt nafnorð og þýðir í rauninni að „hafa ofan af fyrir gestum af öllu hjarta“ og er af mörgum talið kjarninn í japanskri gestrisni og þjónustulund.“

Smáatriði? Nei. Þjálfunaratriði? Já, oftar en ekki. Starfsmenn fá þjálfun því ekki er gestrisni meðfædd. Virkar það? Tjah, fjöldi fólks kaupir Toyota aftur og aftur. Auðvelt er að fá varahluti, ekkert vesen – kostar alveg sitt en jú, þetta gengur upp.

Nú kunna einhverjir að hrapa að þeirri ályktun að Malín Brand, bílablaðamaðurinn sá arna, aki um á Toyota og hampi sinni tegund. Já, og gott ef hún er ekki japönsk líka. Í aðra ættina kannski. En nei, onei! Svo er ekki.

Átt hef ég Toyotur þrjár. Ekki allar í einu. Einu sinni þurfti ég að mæta með 90 Cruiser-inn minn til Toyota (sem þá var enn í Kópavoginum).

Var ég pirruð og viðskotaill því tíminn sem mér var gefinn var eldsnemma að morgni mánudags og úti var brunagaddur og almennt leiðindaveður.

Öll leiðindi hurfu þó eins og dögg fyrir sólu þegar mér var tekið eins og þjóðhöfðingja (vinsælum þjóðhöfðingja sko!) og ég settist í mjúkan hægindastól með kaffi og ylvolgt bakkelsi, á meðan ökutækið var afgreitt.

Þessu man ég eftir og núna, mörgum árum síðar, er þetta það sem stendur upp úr. Ekki hvað heimsóknin kostaði heldur þjónustan og – ég vissi það ekki þá – „omotenashi“ sem bræddi á einhvern hátt gaddfreðinn bíleigandann og gleymist seint.

Ljósmyndir: Malín Brand og Óðinn Kári

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar