Hann er bara svo hljóðlátur
BMW IX er frumraun fyrirtækisins í flokki rafdrifinna sportjeppa. Bíllinn er þéttur, flottur og afar hljóðlátur. IX er talsvert líkur Vison hugmyndabílnum sem kynntur var árið 2018. Nú er hann kominn og við hjá Bílabloggi fengum hann að láni einn kaldan vetrardag fyrir nokkrum dögum.
Nýtt og framandi útlit
BMW IX er stútfullur af tækni enda ekki við öðru að búast af einum fremsta bílaframleiðanda í heimi. Þessi bíll er enginn X5, það eru engir sérstakir sporteiginleikar sem koma upp í huga manns við fyrstu kynni. Fyrst þegar ég sá nýrnalaga grillið hugsaði ég með mér „þetta er andskotanum ljótara”.
Það breyttist hins vegar fljótt þegar maður fór að skoða betur.
Bíllinn samsvarar sér afar vel og demantslaga formið kemur vel út. Hann er hins vegar mjög nálægt bræðrum sínum X5 og X6 í stærð.
Það er langt á milli hjólanna, þetta er rafbíll – það þarf að vera dágott pláss fyrir rafhlöðuna. Hún er staðsett neðst í bílnum sem gerir hann stöðugri í akstri og hann liggur vel á vegi.
Og þessi bíll leggst ekki í beygjurnar. Stýrið er hárnákvæmt og svarar um leið og maður kemur við það.
Sætin eru dásamleg. Þau eru svona eins og maður sitji í sófasetti á hjólum. Yfirleitt finnur maður ekki slíka tilfinningu í BMW. Þeir eru stífir, stinnir og gerðir til að gefa svolítið í.
Skemmtileg fjöðrun
Við vorum svo sem ekki það lengi með bílinn að við mynduðum við hann nein bræðrabönd en nægilega lengi til að átta okkur á að þessi bíll er aðeins öðruvísi en aðrir rafbílar á markaðnum.
Það gæti alveg eins verið að maður væri að aka hefðbundnum bíl með brunavél þar sem þyngdarpunkturinn er framarlega og ofar en í þessum. Fjöðrunin kemur vel út og þú finnur ekki högg á ósléttu vegyfirborði.
Við reyndum bílinn meðal annars úti á Seltjarnarnesi þar sem nóg er af akbrautum með hálfónýtu malbiki.
Það hefur verið lagt talsvert í nýjungar á innanrýminu. Stór, breið sæti, djúp aftursæti og nóg af plássi fyrir alla farþega. Efnisval framúrstefnulegt og sumt endurvinnanlegt fyrir þá sem vilja vera „pro” í umhverfismálum.
Hægt er að panta bílinn með hita og kælingu í sætum, nuddi, rafknúinni stillingu á breidd aftursætisbaks (afar sjaldgæfur valmöguleiki) og sjálfvirkri gangstéttabrúna-stillingu farþegamegin.
Svo mætti reyndar lengi telja. Sólþakið er með rafstýrðri dimmingu sem er fáheyrt í öðru en framtíðartryllum í bíó.
Þrjár útgáfur
BMW IX kemur í þremur útgáfum sem eru til sölu hjá BL. Grunnútgáfan heitir xDrive40 Atelier. Millitýpan er svo Launch Edition og síðast en ekki síst er það dýrasta gerðin; xDrive50.
Bíllinn kostar frá 11 milljónum og upp í 15 milljónir eða meira eftir því hvaða jólaskraut þú velur á gripinn. Allir útgáfur eru fjórhjóladrifnar.
Ágæt drægni
Launch Edition, sá sem við prófuðum, kemur með 71 kWst. rafhlöðu. Hámarksdrægni er uppgefin skv. WLTP um 425 kílómetrar. Hámarksdrægni á til dæmis Mercedes EQC er um 400 kílómetrar skv. WLTP en Tesla X er með uppgefna um 560 kílómetra drægni.
xDrive50 gerðin kemur með 105.2 kWst. rafhlöðu sem sögð er með allt að 630 kílómetra drægni.
Þess má geta að mælt er með að hlaða rafhlöður rafdrifinna bíla ekki meira en í 80%. Reikna má með um 20-25% afföllum í rafmagni yfir vetrartímann t.d. þar sem lofthiti er nálægt frostmarki.
Afþreyingarkerfið er alveg glæsilegt. 15 tommu panorama skjár byggður á nýjustu tækni BMW sem kölluð er iDrive8. Það er bara eitt orð yfir tæknistöffið: Það er æði.
Skjárinn er eins og hugur manns og maðu rétt snertir yfirborðið og hann svarar strax.
Mæli með því að áhugasamir renni við hjá BMW á Sævarhöfðanum og taki bíltúr.
Þægindi sem kosta
Bíllinn er sérlega hentugur fyrir þá sem þurfa mikið pláss. Ríkulegt farangurspláss gerir bílinn að góðum kosti fyrir þá sem hafa í hyggju að ferðast um landið. Myndi kannski ekki taka hálendisvegina á honum. Að öðru leyti er þessi flotti bíll ekkert frábrugðinn öðrum rafmögnuðum jepplingum á markaðnum.
Þessi þægindi eru reyndar ekki ókeypis. Bíllinn kostar frá 11 milljónum sem er ansi drjúgt fyrir hinn venjulega vinnandi mann.
Einhver sagði að verðið væri eini mínusinn við bílinn.
Auðvitað er það alltaf matsatriði og gera má ráð fyrir að talsvert stór markaður sé fyrir bíla í þessum verðflokki.
Í sumum ódýrari bílum er búnaður eins og skynvæddur hraðastillir staðalbúnaður. Hann fylgir svokölluðum Professional akstursaðstoðarpakka hjá BMW og kostar 300 þús. krónur aukalega.
Helstu tölur:
Verð frá 10.990.000 kr. nóv. 2021.
Rafhlaða: 71-105.2 kWh.
Dráttargeta: 2.500 kg.
Drægni: 425-630 km.
Hæð undir lægsta punkt: 20.2 sm.
0-100 km á klst. 4.6-6.1 sek.
Farangursgeymsla: 1.750 lítrar að hámarki.
CO2: 0 g/km.
Þyngd: 2.365 kg.
L/B/H: 4.953/1.967/1.695