Fyrsti „100%“ rafbíllinn frá Volvo, XC40, er kominn til landsins og blaðamaður Bílabloggs hefur reynsluekið honum. Haldið ykkur nú fast því hér koma niðurstöður prófunarinnar:
Volvo XC40 er frábær! Það er ekki siður blaðamanns að halda einhverju svona fram en mátið stenst ég ekki og skelli þessu bara á borðið. Svo ánægð var ég með Volvo XC40 að mér leið eins og ég hefði hitt einhvers konar gúru sem vildi líka vera félagi minn. Það var góð tilfinning.
Já, ef samlíkingin fær að lifa aðeins lengur þá myndi ég segja: eins og gúrú og félagi sem bregst við skipunum mínum og fyrirmælum en hefur samt vit fyrir mér.
Í þessu tilviki: „Jú, blaðamaður kær, þú vilt fara yfir á næstu akrein en ég ræð þér eindregið frá því!“
Á næstu akrein er nefnilega bíll, kaktus eða eitthvað sem ökumaður sér ekki og væri ekki gott að koma of nálægt. Bíllinn streitist aðeins á móti og við það kviknar á sparperu í toppstykki ökumanns sem fær hann til að endurmeta aðstæður með aðstoð undirvitundarinnar og endurskoða ákvörðun sína um að t.d. skipta um akrein.
Stundum leið mér eins og bíllinn gæfi eftirfarandi í skyn: „Ökumaður góður, ég virði skoðun þína en hún er einfaldlega röng.“
Þetta er frábært því XC40 stjórnast ekki af tilfinningum heldur hreinræktuðum útreikningum. Við akstur eru margir ökumenn, því miður, líkamlega við stýrið en heilinn er nánast undir dekkinu. Svo framkvæmir ökumaðurinn eftir vöðvaminni skrokksins og skyndihrifum heilans en það er ekki alltaf það besta.
Rétt eins og maðurinn sem velti bílnum til að aka ekki yfir rottu og stofnaði lífi og limum fimm manna fjölskyldu í hættu. Rottan lifði en bíllinn og fjölskyldan voru í misgóðu standi eftir veltuna (eða velturnar). Rottan var eflaust þakklát ökumanninum sem vildi ekki fletja út saklaust dýrið. Skítt með mannfólkið og bílinn.
Æj, þið vitið vonandi hvað ég á við. Þarna hefði Volvo XC40 pottþett gert eitthvað brilliant og engum orðið meint af: Ekki einu sinni meindýrinu! Það er nú meinið!
Hugsun á gráu svæði?
Athyglisvert er að fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós að flestir ökumenn telja sig býsna góða stjórnendur ökutækja. Já, flestir eru nefnilega yfir meðallagi góðir, að eigin mati.
Í grein nokkurri sem birtist fyrir nokkrum árum á vef Association for Psychological Science kemur fram að biðji maður einhvern að meta eigin ökufærni á kvarðanum einn til tíu eru góðar líkur á að viðkomandi gefi sjálfum sér einkunn yfir meðaltali, eða í kringum 7.
Á meðan einn metur þann bílstjóra „góðan“ sem ekur hægt og af varfærni gæti næsti metið þann góðan sem getur skrifað og sent SMS meðan hann ekur á fullri fart.
Hvað sem því líður þá vitum við vel inn við beinið, nema búið sé að úrbeina okkur, að það er síður en svo raunin að flestir ökumenn séu frábærir bílstjórar. Væri það svo hefðum við ekkert fyndið að horfa á inni á YouTube.
Og hér komum við að titli þessarar greinar um vonda sem verða góðir o.s.frv. Já við komum líka að millifyrirsögninni sem vísar til hugsunar sem hugsanlega mögulega kannski…er á gráu svæði: Þeirri hugsun laust niður í kollinn á mér, með tilheyrandi brunalykt, hávaða og gangtruflunum, að ef allir lélegir ökumenn ættu svona gasalega fínan Volvo XC40 myndi heimurinn vera öruggari staður fyrir mannfólkið að búa á.
Þetta er sannarlega hugsun á gráu svæði og ekki endilega réttur vettvangur til að varpa fram slíkum vangaveltum. Siðfræðideildin í Langtíburtistan tekur við öllum ábendingum hvað þetta varðar.
Kjarni málsins er sá að þessi bíll er hannaður af slíku hugviti að maður þarf að vera algjör erkisérfræðingur til að klúðra akstri á ökutæki sem þessu. Einbeittur brotavilji, mótþróaþrjóskuröskun eða hvað það nú heitir, gæti auðveldað manni að klessa á. Annars gerist það bara hreint ekki svo glatt.
Volvo XC40 er andklessubíll. Hugsunin að baki miðar að núll-óhöppum-í-umferðinni.
408 hljóðlaus hestöfl
Áður en ég bruna fram úr sjálfri mér í sálfræðilega þættinum er rétt að bruna fram úr öllu öðru með því að rifja upp hversu ljúft það var að þjóta fnyk-og hljóðlaust eftir malbiki og malarvegum á þessum bíl. Fjórhjóladrif er alltaf eitthvað til að gleðja mann, fallegir bílar gera það líka en sá bíll sem yfir hvoru tveggja býr auk afls og hugvits, gleður einna mest. Þess vegna einkenndi kæti mikil þennan reynsluakstur.
Bíllinn er 408 hestöfl og 4,9 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 kílómetra hraða. Á hleðslunni er gefin upp drægni allt að 418 km. Því miður var ég of uppveðruð til að hafa rænu á að gera nákvæma mælingu í þessum reynsluakstri en það er sennilega bara í lagi þar sem veðrið var að mestu óþverralegt þá daga sem um ræðir.
Ótrúlegt en satt. Þ.e. þetta með veðrið. En gleymdi ég nokkuð að taka fram að reynsluaksturinn fór fram á Íslandi og það að hausti?
Eitt sem vert er að nefna í þessu samhengi: Hægt er að hlaða XC40 allt að 80% á fjörutíu mínútum í hraðhleðslu en munum að þá er miðað við allt að 150 kW DC og bærilegt hitastig. Í kafaldsbyl, kulda og 50.00 kW hleðslu myndi þetta taka lengri tíma.
Sjálfbærnireið á réttum tíma
Áður hefur verið fjallað um magnaða framtíðarstefnu Volvo. Rafmagnaða, jú, en svo margt fleira en rafvæðing flotans (á næstu níu árum) felst í stefnunni og einkum vil ég nefna umhverfismál og rekjanleika vissra íhluta.
Sjálfbært efni er og verður notað í innréttingar. Til dæmis heyra leðurinnréttingar og leðursæti fortíðinni til hvað Volvo áhrærir.
Nú er m.a. notast við blöndu úr ullarefni og endurunnu pólýester. Úr verður sjálfbært efni sem er ljómandi gott. Gólf„teppi“ og klæðningar hurða eru að mestu (97%) úr endurunnum plastflöskum en eins og einhver sagði þá „minnir ekkert þarna á plastflöskur“ og það er nú líka eins gott.
Endurunnir korktappar og rekjanlegur lífrænn efniviður sem til fellur í sjálfbærum skógum í Svíþjóð og Finnlandi eru á meðal þess sem notað er og verður í innréttingar nýrra gerða Volvo.
Fjölmargir hafa látið í ljós áhyggjur af því hvernig rafhlöður rafbíla verða til og margt er það sem erfitt er að átta sig á hvað uppruna og framtíð þeirra snertir. Ég er ein þeirra sem haft hafa efasemdir og hafa efasemdirnar stafað af þekkingarskorti og þekkingarskorturinn stafað af takmörkuðum upplýsingum sem almenningur getur nálgast.
Skilst mér, man reyndar ekki nákvælega hvar ég las það, að helsta áskorun bílaframleiðenda sé að gefa upp hvaðan hráefnin í rafhlöðuna koma. Þessar upplýsingar gefur Volvo hins vegar upp. Það ku vera ákaflega fátítt, jafnvel einstakt að hægt sé að rekja hvaðan hver og einn hlutur sem er í rafhlöðum rafbíla kemur. Þar á meðal kóbaltið sem er það efni sem margir tengja við leiðindi, þrælkun og fleira ósæmilegt á ferð þess úr jörðu til rafbíls.
Volvo telur það skýlausan rétt neytenda að geta gengið úr skugga um að neysluhegðun þeirra sé ábyrg (upprunavottorð og fleira sem tryggir áreiðanleika).
Þess vegna er gagnsæi við framleiðslu og í upplýsingagjöf nauðsyn. Takk Volvo. Þetta kalla ég góða viðskiptahætti og ég segi takk þó engan eigi ég Volvo-inn.
Já, lesendur góðir. Hér hafa mörg orð verið notuð sem ég hélt að langt væri í að hægt yrði að nota í reynsluakstursgreinum. En sennilega er Volvo bara svona langt á undan ýmsu og þar á meðal undirritaðri.
Hugsar hinn almenni kaupandi um rekjanleika?
Samkvæmt könnunum sem Volvo vísar til í nýlegri grein, sögðu tæp sjötíu prósent aðspurðra að uppruni efnis og efnisval réði úrslitum við val á vörum (hér í samhengi við efnið í innréttingum og áklæði í bílum).
Hér er splunkuný skýrsla um „meðvitaða“ hönnun: The Rise of Conscious Design, sem áhugasamir geta kjamsað á.
Ekki vera „úti að aka“
Það var lítil hætta á að undirrituð gleymdi að fara af stað á ljósum þegar bíllinn var prófaður. Þó gerðist það einu sinni þrátt fyrir litla hættu… Þannig komst ég að því að félagi minn, XC40, minnir mann á að aka af stað þegar bíllinn á undan hefur lagt af stað. Þetta getur t.d. gerst sé hugsanaflæðið það stórbrotið að athyglin dreifist um of. Sé maður þannig „úti að aka“ meðan á akstri stendur lætur bíllinn mann vita.
Af einhverjum ástæðum koma upp í hugann fjölmargir ökumenn sem gætu haft gott af slíkri áminningu.
Ákaflega sniðugt þykir mér að þurfa sem minnst að nota bremsurnar við akstur (og þá á ég auðvitað við á þann hátt að ekki hljótist af tjón) og þar kemur mikil og góð tækni við sögu. Hér á ég við eins fetils akstur (e. One Pedal Drive) sem eftirfarandi myndband skýrir ágætlega:
Endurheimt hemlunarafls má segja að verði þegar rafmótor er notaður til að hægja á bílnum í stað hemlanna. Þá endurheimtir (hleður) kerfið viðbótarorku sem safnast inn á rafhlöðu. Og eins fetils akstur gengur einmitt út á þetta.
En fyrst minnst var á það að vera „úti að aka“ þá er XC40 ótrúlega magnaður þegar kemur að því að hann „aki sjálfur“. En þar sem hann er ekki orðinn sautján má hann ekki vera sjálfkeyrandi og ökumaður verður alltaf að halda við stýrið. Annars flautar kerfið.
Kerfið kallast „Pilot Assist“ hjálparstýring og aldrei hef ég verið viðlíka sátt við nokkurn búnað í ætt við þennan. Þetta nefnilega virkar alveg stórkostlega vel. Engin rassaköst eða hrossalegheit. Allt bara ljúft og gott og ef maður er eitthvað utan þjónustusvæðis í eigin höfði þá sér félaginn XC40 í gegnum mann og heimtar að maður fái sér kaffi! Eins og hann er nú klár þá fór alveg framhjá honum að ég drekk ekki kaffi.
„Googlaður“ í gegn
Samstarf Volvo og Google er „alveg googlað sniðugt“ og opnar nýjar víddir bæði hvað afþreyingarkerfi bílsins varðar og eykur sömuleiðis yfirsýn bíleigenda yfir nýtingu rafmagnsins og hvenær og hvar sé best að hlaða bílinn.
Innbyggða Google þjónustan lofar góðu: Google Assistant tekur við skipunum bílstjóra t.d. um að hækka hitann, spila lagalista eða að bæta einhverju á minnislistann – allt án þess að bílstjóri líti af veginum.
Google Map finnur til dæmis hleðslustöðvar og þegar farið er í lengri ferðir er bráðsniðugt að nota Google Map til að reikna út hvar og hvenær best sé að hlaða bílinn
Google Play kemur sér vel enda fjölmörg forrit þar sem nota má í bílnum. Gagnaáskriftin að þessari stafrænu þjónustu Volvo og Google fylgir með bílnum og ekki þarf að greiða fyrir hana fyrstu fjögur árin. Nánari upplýsingar um Google þjónustupakkann er að finna hér og má lesa um hluti á borð við hvernig stjórna má ýmsum snjalltækjum heimilisins úr bílnum (og það með einföldum raddskipunum – er ekki að grínast sko).
Þar sem ég er ávaxtamanneskja (með eplasíma sem einnig nefnist iPhone) fann ég að aðgangur minn að allri snilldinni reyndist ekki eins greiður og hann reynist Androidsinnuðum. Ef ég næ að safna nógu mörgum krónum til að kaupa Volvo þá ætla ég að safna aðeins fleiri krónum og kaupa síma sem ekki er ávaxtakyns. En þetta virkar samt alveg fyrir iOS. Bara ekki eins vel.
Volvo Cars: Appið snjalla
Uppveðruð yfir tækninýjungum nútímans beið ég ekki boðanna þegar upplýsingaskjárinn bauð mér að tengjast „bílnum mínum“ með Volvo Cars appinu. Ég hélt nú það! Snarstoppaði og kom mér vel fyrir með eplið í lúkunum. Í glaðværð minni hafði ég steingleymt einu smáatriði: Þetta var ekki bíllinn minn! Arg!
Appið gat ég sótt og stofnað notanda en lengra náði notkunin ekki:
Þetta app er svo æðislega dásamlegt (virðist vera það: Ég gat, eðli máls samkvæmt, ekki prófað það. Bara lesið um það. Eins gott ég kunni að lesa) því með því má til dæmis hita upp farþegarýmið, sætin og stýrið á meðan maður situr inni í eldhúsi, les kaffið og drekkur Moggann. Eða les Moggann og drekkur kaffið (þá er maður greinilega vaknaður). Afköst bílsins og nýting rafhlöðunnar er best þegar rétt hitastig er á öllu og því er fremur snjallt að vera búinn að vekja bílinn til „lífs“ með því að kynda hann áður en ekið er af stað. Rétt eins og bílstjórann.
Nú, það má líka sjá í appinu hver hleðslustaðan er og hleðsluhraði, rýna í aksturs- og orkunýtingarmynstur ökumanns, halda akstursdagbók, skoða allt mögulegt um bílinn og helling til viðbótar.
Eitt sem mér fannst mjög spennandi og gæti nýst til að hrella aðra notendur bílsins: Ef maður á táning sem er nýkominn með bílpróf og hann suðar um að fá fína bílinn lánaðan (þá segir maður auðvitað NEI en jæja, gefum okkur hið gagnstæða) þá er hægt að stilla hámarkshraða bílsins og tryggja þannig að sá nýprófaði fari ekki að spæna upp malbiki. Svo, til að hann brjóti ekki og bramli viðkvæm bifhár eyrnaganga sinna og nærstaddra, þá má setja „stoppara“ á hljóðstyrkinn í græjunum. En auðvitað eru allir svo indælir að engum dytti svona lagað í hug. Úps…!
Maður er ekki ofstopamanneskja fyrir ekki neitt. Nei, onei! Auðvitað fór ég að lesa umsagnir notenda um blessað appið. Það magnaði bara löngunina og ærði upp í mér hinn nýfundna Volvo-sult!
Einn notandi skrifaði m.a.: „Appið réttlætir þessi dýru bílakaup mín algjörlega. Ég finn að þau voru hverrar krónu virði.“ Já, ég er viss um að þessi manneskja sitji ekki bara út við stofugluggann og dundi sér við að opna og læsa bílnum sínum á víxl til að sjá ljósin blikka. Nei, það er svo margt annað í þessu appi. Það lætur mann vita ef bíllinn stendur ólæstur í einhverja stund og sem fyrr segir; fjölmargt annað.
Nú hætti ég að fjalla um appið! Held ég. Jú, ég lofa.
Frábærar græjur og fleira svona í blálokin
Þessi grein er löngu orðin allt of löng. Það stafar af því að frá mörgu þurfti að greina.
Nú er nóg pláss á Internetinu fyrir langar greinar en þá sömu sögu er ekki að segja um athyglissvið fólks og þolinmæði almennt. Því mæli ég með að fólk lesi um búnað og annað sem ég komst ekki yfir hér.
En í örstuttu máli þá ber þar hæst WHIPS bakhnykksvörnin, sérstakur Nordic Cold Climate pakki þar sem flest er upphitað í bílnum (meira að segja sjálft Volvo merkið!). Harman Kardon hljómtækin sem voru í bílnum sem prófaður var og eru hrein og tær snilld.
Þjófavörn með hreyfiskynjurum er flottur búnaður og það sama má segja um einfaldleika á borð við það að geta lengt setu framsæta. Þetta kunna langlöppur að meta.
Ekkert þýðir að skammast yfir verðinu. Volvo er dýr bíll en þú veist hvað þú færð og hvaðan það kemur. Þú lendir ekki í því að kaupa nautabökur sem reynast svo innihalda hrossakjöt. Svona ef einhver man eftir því fréttamáli.
Ljósmyndir og texti: Malín Brand