Frábært skref framávið
Toyota á Íslandi var fyrst umboða í Evrópu að frumsýna nýjan RAV4. Er það eflaust til merkis um vinsældir þessa sportjeppa meðal fjölskyldna hér á landi.
Það færist alltaf í aukana að fjölskyldur velji sér sportjeppa sem heimilisbíl. Þegar hann kemur í jafn góðum pakka og RAV4 er auðvelt að skilja af hverju fólk ákveður að eyða krónunum sínum í hann. Einfaldur í notkun, vel smíðaður og góð kjör í sínum verðflokki gerir RAV4 að heillandi valkosti.
Ný og örlítið djarfari hönnun
Fyrri kynslóð af RAV4 var alls ekki ómyndarlegur sportjeppi. Það sama má segja um hinn nýja. Greinilegt er að hönnuðir Toyota hafa ekki setið auðum höndum við hönnun hans. Hjólaskálarnar eru með plasthlífum allt í kring til að ýta undir möguleika RAV4 á því að vera ekið utan vegar eða á grófum íslenskum malarvegum. Framendinn sæmir sér vel með Toyota merkið stórt og með bláum hjúp ef þú ert á Hybrid bíl, líkt og reynsluaksturs bíllinn okkar.
Frábær staður til að vera á
RAV4 mun svara kalli allra fjölskyldna um að koma öllum á milli staða. Ekki skemmir fyrir hversu þægilegt innanrýmið er og mikið um stór geymsluhólf. Sætin líta út fyrir að hafa verið hönnuð fyrir 2045 árgerðina af RAV4 en ekki 2019. Þau eru mjúk og þægileg og veita góðan stuðning við bak og læri við akstur. Skottið er stórt og kassalaga með flatt gólf og rúmar 580 lítra.
Frágangur sem tekið er eftir
Allir saumar mælaborðsins eru þráðbeinir og innan í handföngunum er mjúkt gúmmíkennt efni sem kemur í veg fyrir að hurðin geti fokið úr hendi þinni ef þú opnar hana í miklum vindi. Hið sama efni er notað á stjórntæki fyrir miðstöðina og hjálpar það að vera nákvæmur í hitavali ef þú ert í þykkum skíðahönskum t.d.
Tækni sem einfaldlega virkar
Toyota var fyrst til að koma með tvinnbíl á markaðinn eða árið 1997. Priusinn sem kom þá leit örlítið út fyrir að vera nútímavædd útgáfa af Apollo geimfarinu til að aka um Japan og Kaliforníu. Með því tók Toyota stórt skref og þeir hafa ekki séð eftir því og bjóða nú eitt breiðasta úrval tvinnbíla á Íslandi. RAV4 sem við vorum með til prufu var einmitt framhjóladrifinn tvinnbíll. Fyrstu fjóra kílómetrana sem ég ók bílnum var ég með augun föst á upplýsingaskjánum í mælaborðinu sem sýndi mér hvort vélin væri í gangi, hvort verið væri að hlaða rafhlöðuna eða hvaða aflgjafi væri að knýja bifreiðina áfram. Á fimmta kílómetrinum hætti ég að pæla í þessu og naut bara akstursins. Kerfið sér algjörlega um sig sjálft og þú tekur varla eftir því þegar hann skiptir á milli aflgjafa. Tvinnvélalausn Toyota nýtur sín vel í RAV4 og gefur mjög ánægulega akstursupplifun á hagkvæman og umhverfisvænan máta, ef fólk vill ekki þurfa að standa í því að hlaða bílinn sinn eða hefur ekki aðstöðu til þess.
Lokaorð
Sportjeppar hafa sannað notagildi sitt á stærsta flugmóðurskipi Atlantshafsins þar sem hálfslappir malarslóðar eru merktir þjóðvegir. RAV4 mætir tilbúinn til að verða við öllum þeim kröfum sem gerðar verða til hans. Frábærir aksturseiginleikar, stórt skott, góð kaup í sínum verðflokki, frábær tvinningstækni frá þeim framleiðanda sem hefur mesta reynslu á því sviði og allt sett saman í pakka sem er auðskiljanlegur og vel smíðaður. Ég mæli með RAV4 fyrir alla sem eru að leita sér að sportjeppa til að mæta þörfum lífsins. Ég mæli með Hybrid tækninni frá Toyota og Style útfærslu. Liturinn sem ég mæli með er ljósblár eða dökkblár með svörtu þaki og svörtum álfelgum.
Ef þér lýst á’ann, keyptann!