Fágaður, hannaður, franskur

TEGUND: Citroen C5 Aircross

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Fágaður, hannaður, franskur

Þegar kemur að því að velja sér bíl er margt sem fólk horfir í, eins og verð eða sætafjölda. Ef þig hins vegar langar í gífurlega vel hannaðan, mjúkan og hentugan bíl sem sýnir kjark og þor í útliti, þá er Citroen C5 Aircross gerður fyrir þig.

Það var á fallegum vetrardegi sem ég fékk þann heiður að vera boðið að vera með Citroen C5 Aircross í reynsluakstri. C5 Aircross er nýr bíll frá Citroen og var hann sýndur fyrst á bílasýningunni í Genf árið 2017. Þetta er í fyrsta sinn sem Citroen spreytir sig á að bjóða stærri sportjeppa og finnst undirrituðum niðurstaðan vera nokkuð góð.

Hliðarsvipur C5 Aircross er kröftugur og flottur. Formin í plastinu neðan á bílnum tengjast einnig formhönnuninni inni í bílnum. Stórar felgurnar gefa bílnum líka kröftugt útlit og einkar góðan stöðugleika á vegi.

Innanrými á við franska höll

Að innan er C5 Aircross gífurlega vel heppnaður. Hann er með breiðustu sætin í þessum stærðarflokki bíla og eru þau mjúk og þægileg. Í bílnum sem ég hafði til prufu voru þau tvílit, svört og Mustang brún, og héldu þau vel við bakið. Aftursætin eru svo kapítuli útaf fyrir sig. Þau eru öll jafn breið og tvö ystu eru með ISIOFIX festingum. Þau koma líka öll á sleðum til að hægt sé að stilla hvert sæti á þann stað sem þörf krefur. Efnisval í bílnum öllum er einnig til fyrirmyndar. Erfitt er á nokkrum stað að finna hart og leiðinleg plast.

Um þessar hurðir er ekkert mál að setjast beint inn í Citroen C5 Aircross. Þær opnast velog veita gott aðgengi, þá sérstaklega að hinum rúmgóðu aftursætum.

Geymslupláss alls staðar og fyrir allt

Fyrir C5 Aircross þarf að hafa heilan kafla útaf fyrir sig um allt geymsluplássið sem í honum er. Ef við byrjum fram í og vinnum okkur svo aftur í þá ættum við að komast yfir að nefna þau öll. Byrjum á hanskahólfinu. Það er nógu stórt fyrir hanska, jafnvel lífstíðarbirgðir af hönskum. Því næst eru stór hólf í framhurðunum. Hólfið í miðjustokki mælaborðsins undir afþreyingarkerfinu er með þráðlausri hleðslu fyrir farsíma og er það nógu stórt fyrir stærstu farsíma markaðarins. Því næst er lítið hólf við hliðina á gírstönginni þar sem hentugt er að geyma lykla og veski. Svo er það hólfið á milli sætanna. Það er risastórt og hægt að loftkæla það. Það þýðir að ef fjölskyldan er á rúntinum landshorna á milli er hægt að kæla drykki fyrir alla fjölskylduna þar.

Skottið á C5 Aircross er stórt og þægilega kassalaga. Algjörlega flatt gólf gerir það virkilega auðvelt að koma farangri fyrir. Það er svo stærst í sínum flokki, rúmar heila 720 lítra!

Sama hönnunin um allan bíl

Það er greinilegt að hönnuðir Citroen C5 Aircross áttu auðvelt með að vinna saman. Þeir sem sáu um ytra byrði bílsins vissu greinilega hvað innanrýmishönnuðirnir voru að hugsa og ákveða. Þú sérð því sömu formin endurtekin bæði að innan og utan. Kassalaga form á hliðum bílsins má líka sjá innan á hurðarspjöldum og í afturljósum bílsins. Mælaborðið er síðan með þessa sömu kassalaga hönnun áfram, bæði í upplýsingaskjá fyrir ökumann, lofttúður og líka í afþreyingarkerfinu.

Afþreyingarkerfið er líka einfalt í notkun, býður uppá íslenskt leiðsögukort og einnig snjallsímatengingar í gegnum blátannarbúnað, Apple Carplay og Android Auto. Allur stjórnbúnaður er svo til fyrirmyndar og einfaldleikinn nýtur sín vel í hversu auðvelt er að nota búnaðinn.

Mælaborð C5 Aircross sæmir sér vel. Það er með tvo bjarta og læsilega skjái. Annan fyrir stjórn bílsins og hinn fyrir afþreyingarkerfið. Afar sniðugt smáatriði er leðurólin yfir mælaborðið.

Ánægjulegir og mjúkir aksturseiginleikar

Að aka C5 Aircross minnir mann óneytanlega á að hér ertu undir stýri á Citroen. Hann liggur vel á vegi en er einstaklega góður í að mýkja yfirborð vegarins. Í honum er lítið veghljóð og engin vindhljóð. Hann kemur búinn 20 aksturskerfum sem aðstoða við aksturinn. Þar má nefna akreinavara, fjarlægðarskynvæddan hraðastilli, neyðarhemlun og einnig kerfi sem fylgist með bílstjóranum og viðbragðstíma hans. Útsýni út úr bílnum er einnig gott og hægt er að stilla sætið á hina ýmsu vegu til að hámarka útsýni hvers og eins út úr bílnum.

Í boði með C5 Aircross eru tvær bensínvélar og tvær dísel. Höfundi er svo sem sama hverja þú velur svo lengi sem þú hefur bílinn sjálfskiptann því 8 þrepa skiptingin er mjúk, þægileg og veitir gífurlega góða akstursupplifun.

Lokaorð

Það eru fáir framleiðendur eftir sem þora að stíga fram og bjóða uppá bifreið sem er jafn vel hönnuð, og hönnuð á jafn djarflegan máta, og Citroen hefur gert enn á ný með C5 Aircross . Virkilega nothæfur bíll sem hefur sterkan karakter og háan nothæfisstuðul. Allt plássið í honum er til fyrirmyndar og ætti hann að þjónusta fjölskyldur landsins vel. Ég mæli með C5 fyrir alla þá sem vilja vera á bíl þar sem mýkt, falleg hönnun og hátt notagildi fær að njóta sín. Ég mæli með honum í hvítu, bláu eða rauðu. Hakið líka við Mustang leðrið því það gefur bílnum frábæran svip.

Ef þér lýst á’ann, keyptann.

Myndir Jóhannes Reykdal

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar