Ættfaðir fjölskyldunnar

TEGUND: VW Touareg

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

Frábær akstursbíll, innrétting, búnaður
Smá töf í togi við snögga inngjöf
137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Ættfaðir fjölskyldunnar

Við erum að tala um VW Touareg sem kom, sá og sigraði árið 2002 og var þá talinn byltingakenndur sportjeppi.  Sterkur, sérlega vel byggður og hönnun byggð á traustum grunni verkfræðinga VW, Audi og Porsche.  Bíllinn var nefndur eftir Tuareg ættbálkinum sem á rætur sínar að rekja til Sahara eyðimerkurinnar í Norður Afríku. VW Touareg hefur verið framleiddur í verksmiðju VW í Bratislava, Slóvakíu frá upphafi.

Sérlega fallegur sportjeppi.

Ein gerð orkugjafa

Reynsluakstursbíllinn var ekki af verri endanum 2019 árgerð af þessum þekkilega bíl af Offroad gerð. Við settumst inn og ræstum 6 strokka túrbó díselvélina og nutum hljóðsins sem hún gaf frá sér. En VW Touareg er sportjeppi sem er stútfullur af tækni enda þótt útlitið sé í hefðbundnari kantinum. Við tókum góðan bíltúr á splunkunýjum Touareg dísel og urðum ekki fyrir vonbrigðum.

Toureg fæst í fjölmörgum útfærslum sem henta hverskyns notkun.

Örlítið breiðar og eilítið lengri en eldri gerðin er Touareginn þvílíkt stæltur og sterklegur og gæti þessvegna hlotið nafnbótina alvöru jeppi. 44 mm breiðari og 77 mm lengri en samt um 100 kg. léttari og stærri farangursgeymsla.

Stílhreinn afturendinn sver sig í ætt nýjustu VW bílanna.

Beygir á öllum

VW Touareg er beygir á öllum hjólum sem gerir bílinn mun skemmtilegri í akstri. Minni beygjuradíus, þægilegra að aka bílnum í stæði og stöðugri akstur í erfiðum aðstæðum. Tölvustýrt veltikerfi er innbyggt í VW Touareg sem tengist stýringu allra hjóla bílsins. Kerfið stýrir halla bílsins og gerir bílinn frábæran í akstri við krefjandi aðstæður. Við getum tekið sem dæmi að á Nesjavallaleiðinni þegar ekið var eftir hlykkjóttum veginum á mesta leyfilegum hraða fann maður greinilega hversu stöðugur bíllinn var á veginum. Aukinheldur virkar loftpúðafjöðrun bílisins fullkomlega en maður finnur ekki fyrir því að aka yfir ójöfnur sem finnast á vegi með frekar lélegu bundnu slitlagi. VW Touareq er búinn aksturstillingum, Comfort, Normal og Sport og er þar aðallega um mismunandi stífa fjöðrun að ræða.

VW framleiðir öflugt fjórhjóladrif 4Motion og Touareg beygir á öllum hjólum.

4MOTION-aldrif knýr hvert hjól fyrir sig, óháð hinum hjólunum, til að tryggja að bíllinn aki áfram jafnvel þótt sum hjólin snerti ekki jörðu.

Auk hinna hefðbundnu stillinga erum við að tala um snjóstillingu, sand, möl og mjög krefjandi akstursskilyrði. Þetta úrval gerir þér kleift að laga vél og gírkassa, auk virkni einstakra akstursaðstoðarkerfa, að akstursskilyrðum hverju sinni.

Þrjár dísel vélar

Touareg kemur með þremur aflmiklum díselvélum. Dísel V6 með átta gíra sjálfskiptingu sem skilar 230 hestöflum, dísel V6 með átta gíra sjálfskiptingu sem skilar 285 hestöflum og síðan V8 díselvél með átta gíra sjálfskiptingu einnig sem skilar 421 hestafli. Eyðslan er frá 6.6 til 7.4 lítrum á hverja hundrað kílómetra.

Vélarnar eru 6 strokka dísel vélar, öflugar og þýðar.

Reynsluakstursbíllinn var með 230 hestafla vélinni og aflið bara í góðu lagi. Tókum reyndar eftir smá töf á togi þegar stigið var snögglega á eldsneytisgjöfina sem leiða má til seinkunar á túrbínunni frekar en að öflugur gírkassinn sé að tefja fyrir. Ekkert sem hægt er að kvarta yfir og venst fljótt við akstur bílsins.

Niðurfellanleg dráttarkúla og lækkun bílsins um allt að 50 mm til að auðvelda hleðslu í bílinn.

Sætin og innanrýmið er æði

Mesta breytingin á VW Touareg síðustu ár er innanrými bílsins. Þar hefur verið tekið til hendinni í hönnunardeildinni því það er bara geggjað að setjast inn í bílinn. VW kallar ökumannsrýmið Innovation enda mælaborðið nánast einn tölvuskjár. Plássið fyrir fæturna er frábært fyrir fullvaxna einstaklinga og beggja megin við farþegana frammí er nægt pláss þrátt fyrir breitt miðjustykkið.

VW Touareg með Offroad plús pakkanum kemur meðal annars með leðursætum.
Glæsileg og vönduð innrétting – þó svo að finna megi hart plast inn á milli.

Sætin í reynsluakstursbílnum eru rafdrifin og hægt að geyma stillingar fyrir þrjá ökumenn.  Í þeim er hiti, kæling, mjóbaksstuðningur og nudd en sá búnaður er aukabúnaður sem hægt er að panta með bílnum.  

Góð yfirsýn og allt innan handar í mælaborðinu.

Það er reyndar alveg hart plast í innréttingunni en það er í fleiri gerðum í þessum verðflokki.

Fjölbreyttur valkæmur búnaður

Meðal þess helsta eru LED matrix ljósabúnaður er þannig hannaður að ljósin eru margskipt og skynja umferð á móti þannig að ökumenn á móti blindast síður. Rafmagnsljúflokun á hurðum er snilldarbúnaður sem hægt er að panta aukalega. Rafdrifinn skotthleri, dráttarkúla sem hægt er að setja undir stuðarann með einum takka. Svo er það Innovation 15″ margmiðlunarkerfi með 12,3″ stafrænu mælaborði, App Connect o.fl. Þú getur svo tengt símann þinn eða farþeganna upp á risaskjáinn í mælaborðinu með App Connect.  

VW Touareg er með stóran og skýran skjá og VW er með eitt besta aðgengi að afþreyingarkerfum.

Í VW Touareg er hægt að fá búinn innrauðri myndavél sem skynjar hindranir í myrkri.

Það væsir ekki um ökumanninn í akstri, rafdrifin sætin gefa manni bestu stillingu hverju sinni.

Veglegur staðalbúnaður

Hækkanlegur um 285 mm, hægt að lækka bílinn að aftan við hleðslu með einum takka í farangursgeymslu um 50 mm niður.

Bakkmyndavél með beygjuaðstoð.
Rúmgott skottið tekur allavega þrjár stórar og tvær minni ferðatöskur auðveldlega og hægt að lækka hæð bílsins meðan hlaðið er.

Að okkar mati er VW Touareg góður kostur fyrir þá sem eru að leita sér að sterkum og þægilegum sportjeppa sem nýtist jafnt í ferðalög og borgarakstur. Með því að tikka í öll boxin með aukabúnaðinum erum við reyndar ekki vissir um að þú viljir endilega borga fyrir brúsann en bíllinn er ágætlega búinn staðalbúnaði en hægt er hægt að bæta ýmsum konfektmolum í kassann viljir þú sérnsíða bílinn eftir þínu höfði en passa þarf að verðið fari þá ekki úr böndunum.

Samkeppnisbílarnir í þessum flokki eru reyndar ekki af verri gerðinni Audi Q7, Porsche Cayenne, Mercedes GLE, Volvo XC90 og BMW X5. Að okkar mati stenst VW Touareg nokkuð vel samanburð við þessa bíla.

Helstu tölur:

Verð 10.790.000 kr. (Offroad gerð með offroad+ pakka)

Tilboðsbílar á 18 tommu felgum 9.850.000 kr. (sjá úrval hér)

Tilboðsbílar á 19 tommu felgum 9.990.000 kr. (sjá úrval hér)

Díselmótor: 230 hestöfl

Hámarkstog: 500 / 1750-3000 Nm á mín.

Hröðun 0-100 k á klst: 7.5 sek.

Eyðsla: 6.6 l/100km.

CO2: 173 g/km.

Eigin þyngd: 2.070 kg.

L/B/H 4878/1984/1717 mm.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar