Vel búinn alvöru jeppi

TEGUND: Jeep Cherokee Longitude

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Vel búinn alvöru jeppi

Jeep Cherokee Longitude Luxury enn betur búinn og fágaðri en áður – en  „jeppinn“ er enn til staðar

Þegar óvenju lengur kafli með miklum kulda og nóg af snjó er á landinu og í boði er að reynsluaka nýjum sportlegum alvöru jeppa – þá segir maður einfaldlega „já takk!“.

Fallegar línur, breytt umgjörð framljósa og nýr framendi ásamt stórum hjólbogum einkenna útlit nýs Jeep Cherokee Longitude.

Ís-Band í Mosfellsbæ frumsýndi nýjustu gerð af Jeep Cherokee á dögunum og strax að frumsýningardegi loknum var lagt út í snjóinn. Þessi nýi Cherokee er kynntur til leiks í tveimur gerðum, Longitude og Limited, og það er sú fyrri sem er til umfjöllunar í dag.

Hlaðinn staðalbúnaði

Fyrir þá sem hafa gaman að tökkum, er af nægu að taka í nýjum Cherokee longitude. 8,4 tommu snertiskjár fyrir miðju er áberandi og þaðan er hægt að stjórna öllum helstu aðgerðum loftræstingar og miðstöðvar, útvarpi og upplýsingakerfi. Þar er íslenskt leiðsögukerfi og bakkmyndavél. Að sjálfsögðu er Apple og Android Carplay til staðar ásamt Bluetooth tengingu fyrir síma.

Ný hliðarlína birtist í aftursveigðum hliðargluggum og breiðum sílsalista að neðan.

Aðeins neðar í miðju eru einnig hnappar fyrir stýringu á miðstöð og hnappur til að stjórna hljóðstyrk í útvarpi upp á gamla mátann. Fremst í miðstokknum, fyrir framan gírstöngina er valhnappur til að stilla fjórum drifstillingum Selec-Terrain drifstillingarinnar, sem er stillt með snúningsrofa – stillingar eru auto (sjálfvirkt), snow (snjór), sport og sand/mud (sandur/drulla).

Einn er sá kostur sem verður að geta, en það er rafhitað stýrishjól, búnaður sem er farinn að sjást í æ fleiri bílum, og kom sér vel þess frostdaga á meðan á reynsluakstrinum stóð.

Annars er ekki hægt að fjalla um allan þann staðalbúnað sem er að finna í þessum vel búna bíl, listinn yrði einfaldlega of langur, en hægt að nefna nokkur atriði. Jeep Active Drive I, Selec-Terrain® með fjórum drifstillingum, rafdrifin og snertilaus opnun á afturhlera, loftþrýstimælir fyrir hjólbarða (hægt að fylgjast með loftþrýstingum í mælaborðinu), fullkomið Alpine-hljómkerfi með bassaboxi o.fl.

Alveg ný hönnun á afturhlera og afturljósum eru áberandi.

Jafngóður á vegum og vegleysum

Fyrstu viðbrögð þegar ekið var af stað eru að þetta er fyrst og fremst mjög vel búinn fólksbíll – en „jeppinn“ er hér enn til staðar, líkt og þegar fyrsti Cherokee-jeppinn kom fram á sjónarsviðið fyrir meira en 30 árum. Í venjulegum akstri á bundnu slitlagi er þetta bíll sem stendur öllum keppinautum vel á sporði. Góð yfirsýn er úr bílnum, góðir hliðarspeglar, og „borgarpakkinn“ ,sem er aukabúnaður, og innifelur akreinavara og blindhornsvörn, er góður kostur, einkum þessa dagana í hálkunni þar sem margir eru ekki nægilega duglegir að hreinsa snjóinn og hrímið af rúðunum.

Framsveigð vélarhlífin með innfelldu grilli nær alveg niður að framstuðaranum. Ný umgjörð aðalljósa og þokuljósa.

Góður í snjónum

En af því að þetta er líka „alvöru jeppi“ var leitað að vegslóða með nægum snjó, sem var auðvelt að finna í útjaðri bæjarins. Þar var vegslóði með nóg af snjó og spori eftir einn amerískan pallbíl af stærstu gerð sem var nýkominn niður brekkuna. Snjórinn náði vel upp að stuðara en þegar búið var að stilla á „snjóstillinguna“ þá fór hann léttilega upp alla leið og í gegn um næsta skafl líka. Þar var ákveðið að láta gott heita, en óneitanlega var tilfinningin svipuð því þegar sá sem þetta skrifar átti upphækkaðan Cherokee af árgerð 1985. En óneitanlega er þessi nýjast kynslóð jeppans mýkri í svona torfæruakstri en sá gamli var. Hæð undir lægsta punkt er 21 cm, sem gerir sitt við þessar aðstæður.

Það fer ekki á milli mála að Jeep Cherokee 2019 er með nýrri hönnun.

Gott innanrými

Það kom mér nokkuð á óvart hve innanrýmið í heild er gott. Það fer mjög vel um ökumann og farþega í framsætum og það á einnig við um aftursætin. Bíllinn sem við vorum með í reynsluakstri er búinn „glerþaki“ sem hægt er að loka af með rafdrifinni hlíf. Þegar henni er rennt aftur má sjá upp í stjörnubjartan himinninn jafnt úr fram- og aftursætum og opna framhlutann til að fá inn ferskt loft (sem var nú sleppt að þessu sinni í kuldanum). Ég var fyrir fram búinn að gefa mér það að glerþakið myndi verða til vansa hvað varðar höfuðrýmið í aftursætinu, en það kom á óvart hve vel það slapp, og samt er ég örugglega meðalmaður á hæð (183 cm). Eina sem er hægt að finna að innanrýminu er að það er full þröngt að koma fótunum út aftur vegna þess hve hurðaropið er niðurmjótt. Isofix-festingar eru fyrir barnabílstóla.

Farangursrýmið er dágott, 570 lítrar og hægt að stækka það í 714 lítra með því að renna sætum fram (aftursætin eru á sleða líkt og framsætin). Séu aftursætin lögð fram myndast farmrými sem er 1267 lítrar.

Farangusrýmið er rúmgott, eða frá 570 lítrum. Dugar vel fyrir golfsettin hjá þeim sem eru í þeim hugleiðingum.
Stór snertiskjár í miðju er þægilegur í notkun, en þar er hægt að stýra helstu aðgerðum bílsins á auðveldan hátt. Öll stjórntæki og takkar eru innan seilingar.

Dugleg dísilvél

2,2 lítra dísilvélin murrar nokkuð hljóðlega í venjulegum akstri, og fyrstu viðbrögðin hjá mér í akstri voru þau að mér fannst hún ekki svara nægilega vel, en strax á fyrstu kílómetrunum hvarf þessi tilfinning og við náðum góðu „sambandi“. Níu hraðastiga sjálfskiptingin á einnig vel við þessa vél (hugbúnaður skiptingarinnar mun hafa verið uppfærður frá eldri gerð) og þá sérstaklega þegar gírkassinn er stilltur á „auto“.

2,2 lítra dísilvélin hæfir þessum bíl vel, murrar létt í venjulegum akstri en lætur til sín taka þegar gefið er inn.
Drifbúnaði er stjórnað með snúningshnappi vinstra megin fyrir framan gírstöngina.

Góður valkostur fyrir marga

Í heild er þessi nýi Cherokee Longitude Luxury góður valkostur fyrir marga. Hann sameinar fullkomlega kosti góðs fólksbíls og alvöru jeppa. Hann lendir beint í stórum hóp keppinauta sem eru á svipuðu verðbili. Bíllinn sem við erum með í reynsluakstri hér kostar þegar þetta er skrifað í lok janúar 2019 kr. 7.990.000, sem er í góðu lagi þegar horft er á markaðinn í heild. Reynsluakstursbíllinn var með aukabúnaði, eins og „borgarpakka“ (kr. 150.000) og glerþaki (kr. 290.000). Örugglega eru einhverjir sem geta vel sleppt því að vera með glerþakið, en „borgarpakkinn“ sem er meðal annars með akreinavara, blindhornsvörn og bílastæðaaðstoð er nokkuð sem ég vildi ekki sleppa.

Inn- og útstig er gott að framsætum, sem eru með rafstillingum.
Það fer vel um farþega í aftursætum og höfuðrými er gott, jafnvel þótt glerþakið yfir öllu farþegarýminu taki sitt pláss af höfuðrýminu. Aðeins þrengra er fyrir fætur að stíga út úr aftursætum vegna þess hve hurðaropið mjókkar neðst.

Jeep Cherokee Longitude Luxury í tölum:

Lengd: 4,62 m
Breidd: 1,86 m
Hæð: 1,70 m
Þyngd: 1.954 kg.
Vél: 2,2 lítra dísil, 195 hestöfl.
Sjálfskipting: 9 þrepa
Farangursrými: 570 lítrar
Hæð undir lægsta punkt: 21 cm
Dráttargeta: 2.370 kg
Eldsneytistankur: 60 lítrar

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar