Renault 4 og Renault 5 sigursælir á Festival Automobile International
Dómnefnd alþjóðlegu verðlaunahátíðarinnar Festival Automobile International (FAI) valdi í lok síðasta árs sigurvegara ársins í fjórtán mismunandi verðlaunaflokkum eftir yfirferð á úrvali skapandi og framsækinna hönnunarhugmynda sem komu fram á árinu.
Hugmyndir Renault um endurhönnun tveggja af vinsælustu bílum framleiðandans frá upphafi hlutu aðalverðlaun í sínum flokki.
Renault 5 fallegasta hugmyndin
Renault kynnti á síðasta ári hugmynd sína um nýjan Renault 5, sem framleiddur var á árunum 1972 til 1996 og var gríðarlega vinsæll í Evrópu.
Bíllinn fagnar í ár 50 ára afmæli og virðist hugmynd Renault um endurfæðingu hans falla í mjög góðan jarðveg meðal almennings ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var á síðasta ári.
Í henni völdu þátttakendur Renault 5 fallegasta hugmyndabíl ársins (2022 Most Beautiful Concept Car).
Heiðursverðlaun Renault 4
FAI velur árlega heiðursverðlaun dómnefndar og í ár hlaut Renault þau fyrir Renault SUITE N°4, sem er hugmyndabíll sem varð til í samstarfi við franska hönnuðinn Mathieu Lehanneur, í tilefni 60 ára afmælis Renault 4 sem framleiddur var á árunum 1961 til 1992.
Hönnun Renault SUITE N°4 er innblásin af hugmyndinni um nokkurs konar svítu fyrir ferðalanga þar sem hægt er að láta fara vel um sig og njóta útsýnis um leið.
Stærð hugmyndabílsins er í sömu málum og Renault 4, en innviðirnir með róttæku ívafi, svo nokkuð sé nefnt.
Líklega hefði ferðalöngunum í frönsku gamanmyndinni 4 Latas ekki veitt af þessari útgáfu af Renault 4, sem var einmitt farartækið á leið þeirra frá Spáni til Timbuktu.
Umræður um þessa grein