Litli hugmyndabíllinn, sem er ætlaður á markað 2040, verður smíðaður nánast alfarið úr endurvinnanlegu efni
BMW i Vision Circular hugmyndabíllinn er „forsýning á sjálfbærum bíl framtíðarinnar,“ fullyrti forstjórinn Oliver Zipse án þess að hika, við kynningu á bílnum á bílasýningunni í München.
Það er stór fullyrðing og skoðum nú aðeins hvað býr að baki orðum stjórans. Þar njótum við aðstoðar Automotive News Europe sem er með góðar tengingar beint inn á sýningarsvæðið í München.
Hugmyndin, i Vision Circular, byggir nánast eingöngu á endurvinnslu hráefna og endurnýtingu. Það kom fram í máli Zipse við afhjúpun bílsins á IAA München bílasýningunni á mánudag. Hafa ber í huga að hér er um framtíðarsýn framleiðandans að ræða en ekki áþreifanlegt ökutæki, þrátt fyrir að á myndunum sé eitthvað á fjórum hjólum. Hönnun bílsins, sem áætlaður er á markað 2040, liggur ekki fyrir.
Fjögurra sæta rafbíllinn endurspeglar sýn bílaframleiðandans á „sjálfbæran hreyfanleika“ (e. sustainable mobility), að sögn Zipse.
Hringrás orku og efna höfð að leiðarljósi
Hönnun bílsins byggir á því að nýta hráefni til fulls; endurnýta allt sem til fellur, t.d. eftir að vörur hafa gegnt hlutverki sínu í annarri mynd! Hringrás efna og orku er kjarni málsins og virkilega athyglisvert er að rafhlaða hugmyndabílsins, „Solid-state“ rafhlaðan, er sögð vera 100 prósent endurvinnanleg.
„Rafhlaðan nær mun meiri orkuþéttleika með minni nýtingu á verðmætustu auðlindunum,“ sagði BMW í yfirlýsingu.
Zipse sagði að hugmyndin sé ekki forsýning á væntanlegum rafbílum bílaframleiðandans sem byggist á arkitektúr „Neue Klasse“.
Þess í stað horfir BMW til smábíls í framtíðinni, út frá sjónarhorni i Vision Circular hugmyndafræðinni. Smábíls sem kemur á markað eftir tæp 20 ár. i Vision Circular er framtíðarsýn en, eins og fyrr sagði, ekki endilega áþreifanlegt ökutæki.
„Það gleður okkur að sjá hve margir BMW aðdáendur bíða spenntir eftir fyrsta sýnishorninu af „Neue Klasse“, en BMW i Vision Circular er ekki það sýnishorn,“ sagði Zipse. „Ég get hins vegar lofað því að á grundvelli sjálfbærni er verið að þróa „Neue Klasse“ með sama hugarfari og var notað fyrir BMW i Vision Circular.“
Hönnunarstjóri BMW, Adrian van Hooydonk, sagði að hugmyndin endurspegli sýn bílaframleiðandans um að sameina sjálfbærni með nýrri „hringrásar hönnun“, nálgun sem skilur eftir sig lágmarks fótspor.
Hugmyndinni er ætlað að fækka íhlutum, efnishópum og yfirborðsvinnslu.
Nýrnagrillið (eða nasagrillið, eins og sum okkar kalla það) er ekki inni í framtíðarmyndinni. Af orðum hönnunarstjórans má ráða að bíllinn verði ekki málaður með þeim hætti sem jafnan hefur tíðkast og prjál á borð við leður og króm heyrir brátt sögunni til. Í það minnsta verður ekkert slíkt í framtíðarbílum BMW og það sama á við um bíla sænska framleiðandans Volvo.
4000 mm langi hugmyndabíllinn er á stærð við BMW i3 rafmagns hlaðbakinn. Í hönnuninni er blandað saman hönnun jeppa og fólksbíla.
BMW gaf engar tæknilegar upplýsingar um hugmyndabílinn, enda tæp tuttugu ár í að hann bruni fram á sjónarsviðið og eflaust margt sem á eftir að breytast fyrir árið 2040!
Umræður um þessa grein