Alfa Romeo Tonale frumsýndur
- Alfa Romeo Tonale mun keppa við BMW X1 í uppsveiflu í þessum markaðshluta
- Fyrsta nýja gerð Stellantis vörumerkisins síðan 2016
MÍLANO-Alfa Romeo stefnir að samkeppni við BMW X1 með Tonale; litlum crossover, nýjum þátttakanda í einum vinsælasta bílaflokki Evrópu sem gæti meira en tvöfaldað sölu vörumerkisins.
Tonale er fyrsta nýja gerðin frá Alfa Romeo sem hluti af Stellantis, sem var stofnað í janúar 2021 við sameiningu fyrrverandi móðurfélags þess, Fiat Chrysler Automobiles, og PSA Group. Þetta er líka fyrsta nýja gerð Alfa Romeo síðan Stelvio millistærðarsportjeppinn kom á markað síðla árs 2016.
Eins og Stelvio er Tonale nefndur eftir ítölsku fjallaskarði. Bíllinn var fyrst sýndur sem hugmynd á bílasýningunni í Genf 2019.
Tonale er smíðaður á FCA Small Wide undirvagninum, sem einnig er undir Jeep Compass og Renegade. Verður hann smíðaður í verksmiðju Stellantis í Pomigliano á Suður-Ítalíu. Sala hefst í júní.
BMW er viðmið
Frá stofnun Stellantis hefur Alfa Romeo notað BMW sem viðmið, sagði forstjóri Alfa Romeo, Jean-Philippe Imparato, við Automotive News Europe. Helsti keppinautur Tonale er BMW X1, sem er einnig með bensín, dísil og tengitvinn aflrás. Á síðasta ári seldi BMW 90.330 eintök í Evrópu, samkvæmt Dataforce.
Volvo XC40 var mest seldi úrvalssportjeppi í minni flokki í Evrópu árið 2021, samkvæmt Dataforce, með 120.942 eintaka sölu. X1 endaði í öðru sæti. Audi Q2 var þriðji, með 53.962, þar á eftir Audi Q3 með 51.311 seld eintök og Mercedes-Benz GLA með 46.727.
Stærðarflokkur minni sportjeppa, þar á meðal úrvals- og almennar gerðir, er einn sá vinsælasti í Evrópu, þar sem Alfa Romeo spáir því að magnið verði stöðugt á bilinu 2,5 milljónir til 3 milljónir eintaka á ári.
Stuttu eftir að hafa verið ráðinn forstjóri Alfa, í janúar 2021, ákvað Imparato að fresta markaðssetningu Tonale um 12 vikur, frá mars á þessu ári til júní.
„Ég vildi vera viss um að Tonale gæðin væru fullkomin frá fyrsta degi, en líka að við gætum boðið upp á háþróaða tengingu og notendaviðmót,“ sagði Imparato.
Upplýsinga- og afþreyingarkerfið er byggt á sérhönnuðu Android Auto stýrikerfi sem kemur með 4G tengingu og þráðlausum uppfærslum. Tonale er staðalbúinn með 10,25 tommu miðlægum snertiskjá og Amazon Alexa raddgreiningu.
Í mælaborðinu sjálfu er 12,3 tommu sérhannaður stafrænn skjár.
Tonale er með SAE Level 2 ökumannsaðstoðarkerfi, þar á meðal aðlagandi hraðastilli, akreinarmiðjustillingu, sjálfvirka neyðarhemlun og skynjara fyrir blindpunkta.
Sex mánaða alþjóðleg útfærsla
Opnað verður fyrir pantanir á Tonale í apríl með sérstakri útgáfu. Afhendingar hefjast í júní á útgáfu með 1,5 lítra bensínvél, 48 volta tvinnkerfi og afköstum sem eru 128 hestöfl. Sama aflrás kom nýlega á markað í Jeep Renegade og Compass.
Sérstök Alfa Romeo-útgáfa af aflrásinni verður fáanleg síðar, með forþjöppu með breytilegu rúmtaki sem eykur aflið upp í 158 hestöfl. Tengitvinnútgáfa, sú fyrsta fyrir Alfa Romeo, mun koma á markað í október, sagði Imparato.
Í lok þessa árs mun Tonale koma á markað í Bandaríkjunum þar sem hann verður með sérstaka 2,0 lítra bensínvél, 252 hestöfl, níu gíra sjálfskiptingu og fjórhjóladrifi.
Imparato sagði að aðrir stórir markaðir, eins og Kína og Brasilía, „geta fengið bílinn ef þeir vilja hann.” Hann sagði að Alfa Romeo vilji ekki keppa í verði og þynna út verðmæti vörumerkisins, þannig að aðrir markaðir gætu aðeins fengið Tonale ef þeir geta sýnt fram á traust viðskipti.
Tengitvinnbíllinn verður með fjórhjóladrifi og skilar alls 271 hestafli úr 177 hestafla fjögurra strokka bensínvél og 100 kílóvatta rafmótor sem knýr afturöxulinn. Drægni eingöngu á rafmagni verður meira en 60 km í WLTP blönduðum akstri, sagði Alfa Romeo, með allt að 50 prósent af akstri í þéttbýli í rafmagnsstillingu eingöngu.
Dísilútgáfa verður fáanleg í sumum Evrópulöndum, þar á meðal Ítalíu, með 1,6 lítra aflgjafa sem skilar 128 hö.
Stafræn gögn gögn gætu aukið gildi
Framleiðsluútgáfan af Tonale er ekki verulega frábrugðin hugmyndabílnum, þar sem breytingar eru að mestu bundnar við kröfur eftirlitsaðila. Meðal breytinga eru endurskoðaður framendi og hefðbundin hurðahandföng bæði að framan og aftan, auk stærri afturrúðu.
Nokkrir hönnunarþættir minna á sögulega Alfa Romeo, eins og framlengda ferilinn fyrir neðan mittislínuna (sem heitir „GT Line” eftir Alfa GT coupe 1960); „símaskífu“ álfelgur, innblásnar af 33 Stradale; og sjónaukalaga mælaborðið.
Alfa sagði að það væri fyrsti bílaframleiðandinn til að tengja bíl við stafrænt vottorð (non-fungible token, NFT).
Tonale NFT er byggt á svonefndri „blockchain“-tækni og gefur eigendum aðgang að trúnaðarupplýsingum, óbreytanlegum skrám yfir lífsferil ökutækis síns.
Með samþykki viðskiptavinarins mun NFT skrá gögn Tonale og búa til vottorð sem hægt er að nota sem tryggingu fyrir því að bílnum hafi verið haldið við á réttan hátt.
Alfa Romeo býst við að raunveruleg gögn sem eru í NFT, ekki aðeins fyrirhugað viðhald heldur einnig upplýsingar um allar uppfærslur sem sóttar hafa verið fyrir ökutækið, vegalengdina sem því hefur verið ekið og hvernig því var ekið gætu aukið gildi þess.
Heimildir birgja sögðu Automotive News Europe að Alfa Rome áætli framleiðslu á um 60.000 Tonale-bílum á heilu ári; magn sem gæti tvöfaldað heimssölu vörumerkisins, sem var um 63.000 eintök árið 2020.
Alfa hefur enn ekki gefið upp sölutölur ársins 2021 né heldur gefið nokkuð upp um framleiðslufjölda Tonale.
(frétt á vef Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein