Nýr alrafmagnaður Fisker Pear verður annar jeppi bandaríska framleiðandans á eftir Ocean og mun fara í framleiðslu árið 2024
Rafdrifinn blæjubíll – Fisker Ronin hefur 1063 km drægni og fer hann frá 0 upp í 100 km/klst á innan við 2 sekúndum
Bandaríski rafbílaframleiðandinn Fisker tilkynnti nýverið að von sé á tveimur nýjum bílum frá framleiðandanum. Sá fyrri er rafbíllinn Pear EV, sem sagt er að muni kosta allt frá 29.900 (um 4 milljónir ISK) þegar hann fer í sölu í Bandaríkjunum árið 2024. (myndin hér að ofan)
Fisker kynnti nýlega Ocean sportjeppann, sem mun fara í framleiðslu í Graz í Austurríki í nóvember á þessu ári, og núna segir Fisker að framleiðsla á Pear gerðinni, sem er minni, muni hefjast árið 2024 í nýrri verksmiðju fyrirtækisins í Ohio, Ameríku.
Pear, sem við gætum kallað „Peran“, en er í raun skammstöfun sem stendur fyrir „Personal Electric Automotive Revolution“ mun verða keppinautur annarra fimm sæta rafbíla eins og Volkswagen ID.3, Cupra Born og Renault Megane E-Tech Electric, þó Fisker segi að hann passi ekki í neinn stæarðarflokk á markaði í dag. Sá bíll er byggður á nýjum undirvagni, sem Fisker segir að muni verða undirvagn tveggja gerða til viðbótar.
Fisker sendi einnig frá sér nýja mynd af Pear sem sýnir stórt neðra grill með því sem gæti verið innbyggt ratsjárkerfi. Framljósin eru mjó og leiða inn í upplýst Pear merki – það er líka Fisker merki með svipaða baklýsingu á vélarhlífinni.
Fisker Ronin
Þá kynnti Fisker einnig hinn væntanlega Ronin, sem verður flaggskip Fisker, rafknúinn fjögurra sæta, fjögurra dyra blæjubíll sem lofar 1.063 kílómetra drægni á einni hleðslu. Einstök hönnun bílsins mun setja hann í „sinn eigin flokk“ þegar hann kemur árið 2024 og sameinast framboði vörumerkisins ásamt Ocean sportjeppanum.
Upphaflega var hann kynntur þannig að hann leit út eins og fjögurra dyra GT-bíll með hefðbundinni yfirbyggingu (fyrr á þessu ári) en nýjasta myndin sýnir að Fisker Ronin er í raun blæjubíll. Fyrir vikið verður Ronin einstakur bíll, þar sem enginn annar framleiðandi býður upp á þetta einstaka útlit með rafknúinni aflrás. Ekkert hefur verið gefið upp um afköst enn sem komið er, en fyrirtækið hefur greint frá því að bíllinn verður með þremur mótorum og getur farið úr 0-100 km/klst á innan við tveimur sekúndum.
Ronin er hannaður af forstjóra vörumerkisins, Henrik Fisker, sem einnig teiknaði BMW Z8 og fjölda Aston Martin gerða. Þrátt fyrir að vera rafdrifinn virðist Ronin vera með svipuð hlutföll og hefðbundinn GT bíll með vél að framan. Það er löng vélarhlíf og skarpt, oddhvasst nef, með fjölþátta LED ökuljósum innbyggð í stuðarann.
Umræður um þessa grein