Smíða jeppa þar sem áður voru smíðaðir Smart-smábílar
Ineos mun smíða 5 metra langan torfærubíl í Smart smábílaverksmiðjunni frá og með sumri.
Fyrstu Grenadier-jepparnir í forframleiðslu eru nú þegar að renna af línunni í Hambach verksmiðju Ineos, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Fjöldaframleiðsla hefst í sumar.
En á vef Automotive News Europe er Nick Gibbs að velta því fyrir sér hvernig Ineos Automotive tókst að koma framleiðslu á Grenadier torfærubílnum, sem er meira en 5 metra langur, inn í franska verksmiðju sem er hönnuð til að byggja miklu minni Smart, 2,7 metra langan smábíl?
Ineos, hluti af samnefndum jarðolíurisa í Bretlandi, samþykkti að kaupa Smart verksmiðju Daimler í Hambach, í norðaustur Frakklandi, árið 2020 eftir að hafa hætt við upprunalega áætlun sína um að byggja nýja verksmiðju í suður Wales.
Ákvörðunin vakti mikla gagnrýni í Bretlandi, þar sem Jim Ratcliffe, forstjóri Ineos, hafði verið fylgjandi umdeildri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
En þegar Daimler gerði það ljóst að þeir vildu losna við Hambach í endurskipulagningu vegna heimsfaraldursins, var erfitt fyrir Ineos að hunsa efnahagsmálin.
Breska fyrirtækið gaf ekki upp hvað það borgaði fyrir verksmiðjuna en lét í það skína að það kostaði aðeins um 50 milljónir evra að aðlaga hana til að geta framleitt Ineos jeppann, sem er innblásinn af upprunalega Land Rover Defender. Daimler hafði unnið mikið af vinnunni eftir að hafa ákveðið að endurskoða þá 20 ára gamla aðstöðu árið 2018 til að smíða rafknúna EQB sportjeppann í þessar verksmiðju.
Daimler tilkynnti á sínum tíma að það myndi eyða 500 milljónum evra til að uppfæra þætti eins og málningarspruatun og samsetningu.
Hins vegar náðu áætlanir þess fyrir Hambach til bíla stærri en EQB og allt að stærð S-Class. Þetta kom Ineos til góða.
„Bílasprautunar hlutinn er venjulega hálfgerður flöskuháls í bílaverksmiðju, en Hambach verksmiðjan var hönnuð fyrir úrval Mercedes bíla, þess vegna þurftum við ekki að laga neitt,“ sagði Dirk Heilmann, forstjóri Ineos Automotive, við Automotive News Europe. „Á þeim tíma voru þeir að hugsa um að byggja Hambach upp að stórri Mercedes-Benz verksmiðju“.
Daimler hafði eytt miklu af peningunum, þar á meðal áætlað 80 milljónir evra í nýja málningarverkstæðið, áður en þeir breyttu stefnu sinni.
Á meðan byrjaði Ineos að aðlaga það sem fyrir var til að henta smíði Grenadier, þar á meðal að flytja um 80 af 100 nýju Kuka vélmennunum í yfirbyggingarlínunni til annarra verka innan framleiðsluferlisins.
Verksmiðjan eins og hún var hugsuð árið 1997 var háð nálægum birgjum og er enn ekki með smiðju til að pressa yfirbyggingarhluta.
Austurríska fyrirtækið Voestalpine framleiðir pressaða yfirbyggingarplötur Grenadier en Gestamp, sérfræðingur í stáli, framleiðir grindina á staðnum í Bielefeld, Þýskalandi, þar sem það smíðaði einu sinni sama íhlut fyrir VW Amarok pallbílinn sem er á útleið.
Auk þess að smíða Grenadier mun Ineos halda áfram að framleiða Smart ForTwo EV á staðnum til ársins 2024 samkvæmt samningi og hefur þegar smíðað 27.000 farartæki. Það mun einnig smíða einingar í framenda fyrir Mercedes EQB og EQA EV til 2027.
Framleiðsla á Smart-bílum fer fram á litlu færibandi sem var minnkað eftir að smábíllinn varð rafbíll árið 2019.
Grenadier er með sérstakt færiband í hinum nýstárlega Hambach krosslaga samsetningarsal sem er hannaður til að auðvelda aðgang að íhlutum.
Upprunalega ákvörðunin um að staðsetja verksmiðju í Mósel-héraði Frakklands var að hluta til höfð að leiðarljósi af löngun frönsku og nálægra þýskra stjórnvalda til að færa meiri atvinnu á svæði sem hafði orðið fyrir samdrætti í stóriðju eins og stáli og kolum.
Smart verksmiðjan drottnaði yfir þessum pínulitla bæ með um 3.000 manns, sem gerði ákvörðun Daimlers um að hætta í verksmiðjunni að miklu áfalli fyrir heimamenn.
„Ef þessi verksmiðja lokar og bílaframleiðsla mun leggjast af, munum við missa allt,“ sagði eiginkona eins verksmiðjustarfsmanns við dagblaðið Le Parisien árið 2020.
Og þó að Ineos hafi ekki metnað til að smíða eins marga bíla og Mercedes gerði í verksmiðjunni, hefur breska fyrirtækið haldið því fram að allir haldi störfum sínum eða um 1.000 manns.
Ineos gerir ráð fyrir að smíða 33.000 Grenadier og 24.000 Smart bíla árlega, samanborið við 80.000 Smart-bíla sem smíðaðir voru þar árið 2017.
Þegar Grenadier fer loksins í framleiðslu í sumar munu íbúar á staðnum vona að eftirspurn eftir torfærubíl með „retró-útliti“ til að fara hvert sem er – verði nægilega mikil til að koma í stað rafknúins borgarbíls og halda Hambach gangandi til framtíðar.
(Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein