Skoskur rafjeppi kemur á markað á næsta ári
- Torfærubíll frá skoska sprotafyrirtækinu Munro Electric mun fara í framleiðslu á næsta ári, 2023
- Þessi rafbíll – sem fer hvert sem er – er hugsaður sem vinnuvél og gæti hentað við námuvinnslu eða í bústörfin
Munro Vehicles er sprotafyrirtæki í bílaframleiðslu sem var stofnað árið 2019 í Glasgow á Skotlandi og fyrsta framboð þess, Munro Mark 1, er harðgerður rafknúinn torfærubíll hannaður til að flytja fólk og búnað yfir erfitt landslag.
Ætlunin var að búa til farartæki sem er ákjósanlegt í iðnaðarstarfsemi eins og gullnámur, skógrækt eða jafnvel bara fyrir bændur. Helmingur framleiðslu fyrsta árs hefur þegar verið pantaður og fer til Bandaríkjanna þar sem fyrirtækið er þegar með dreifingarsamning.
Munro Mark 1 er með einn 371 hestafla / 700Nm rafmótor sem sendir kraft til allra fjögurra hjólanna í gegnum heila Land Rover Defender öxla.
Farartækið er að miklu leyti byggt á torfæru „kit-car“ sem kallast Ibex og það sem Munro Vehicles hefur gert er að endurhanna það ökutæki til að koma til móts við sína eigin rafknúnu aflrás.
Rafhlaðan er 80,1 kWh og þeir segja að hún geti náð 270 km á einni hleðslu (á vegum) og að hún verði með hraðhleðslu.
Innanrými ökutækisins er mjög einfalt, þó það sé hægt að velja hátt og lágt drif með hefðbundinni driflínu. Bíllinn getur vaðið í gegnum allt að 3 fet af vatni (91 cm), sem er um það bil jafn mikið og Rivian.
Takmörkuð framleiðsla á Munro Mark 1 mun hefjast árið 2023 þegar fyrirtækið hyggst smíða 50 einingar.
Ef allt gengur að óskum ætlar það að auka framleiðslu í 2.500 einingar á ári fyrir 2025 og síðan 5.000 einingar fyrir 2030. Bæði vinstri- og hægri handar útfærslur eru í pípunum og verða þær seldar á um 75.000 pund (um 12,4 milljónir ISK).
Bandaríkin verða einn helsti markaðurinn, að sögn Russ Peterson, forstjóra Munro, sem ræddi við Autocar. Eða eins og hann segir:
- Norður-Ameríka er lykilvaxtarmarkaður fyrir Munro og við erum ánægð með að geta átt í samstarfi við Wyre til að gera okkur grein fyrir metnaði okkar á undan upphaflegu tímalínunni.
- Við helgum helming framleiðslu okkar árið 2023 vinstri handar bílum sem eru þróaðir sérstaklega fyrir Bandaríkjamarkað, sem Wyre mun afhenda viðskiptavinum allt það ár.
Það verður fróðlegt að sjá hvort það verði virkilega markaður fyrir þetta farartæki, sérstaklega með hátt uppsett verð, í ljósi þess að rafknúnir pallbílar (þar af verða nokkrir fyrir árið 2025 í Bandaríkjunum) eru hugsaðir fyrir landsvæði sem erfitt er yfirferðar.
Hinn afkastamikli Rivian R1S eða R1T verður fáanlegur frá um 70.000 dollurum (um 9,9 milljónir ISK) þegar ódýrari tveggja mótora útgáfa þeirra kemur á markað.
Munro EV mun einnig keppa við bíla frá Scout vörumerkinu sem Volkswagen hefur endurvakið, þar sem það vill líka að bílar þess reynist vel utan vega og VW er að hanna þessi farartæki sérstaklega fyrir Bandaríkjamarkað.
(grein á vef INSIDEEVs)
Umræður um þessa grein