Polestar 2 þræðir línuna á milli nýja og gamla bílaheimsins
Einn af styrkleikum Tesla, að sögn sumra sérfræðinga, er að þeir einbeita sér meira að tækni en framleiðslu bifreiða.
Stjórnandi eins nýjasta keppinautar bandaríska rafbílaframleiðandans telur að mögulegt sé að skara fram úr báðum.
Tæki Thomas Ingenlath, forstjóri Polestar, til að sanna þetta – og tryggja framtíð 3 ára fyrirtækis síns – er Polestar 2 rafmagns fólksbifreið sem aðeins notar rafhlöður, keppinautur Tesla Model 3. En þetta dótturfyrirtæki Volvo Cars hóf að afhenda bílinn til viðskiptavina í Evrópu í þessum mánuði.
„Við myndum ekki segja að við smíðum farsíma á hjólum,“ sagði Ingenlath. „En á hinn bóginn erum við ekki hefðbundinn bílaframleiðandi.“
Það að vera öðru vísi er að gera sig hjá Tesla. Þeir færðu sig upp um þrú sæti upp í fjórða sætið og fóru upp fyrir Honda, Ford og Nissan, í árlegu röðun verðmætustu bílamerkja heimsins, að sögn markaðsrannsakandans Kantar.
Tesla var einnig eina bílamerkið í hópi 10 efstu sem hækkuðu verðmat sitt, sem var 22 prósent upp í 11,35 milljarða dala. Þetta var að hluta til vegna minnkandi áhuga fólks á rótgrónum bifreiðamerkjum, sagði Graham Staplehurst, yfirmaður stefnumótunar Global BrandZ, við Automotive News Europe.
„Allar greiningarnar sem við gerðum sögðu að ekki væri litið á Tesla bílamerki, heldur sem tæknimerki sem vill svo til að þeir smíði bíla“, sagði Staplehurst.
Heillandi samsetning
Ingenlath vill að litið verði á Polestar fyrir tækni sína og fyrir skuldbindingu sína til framleiðslu bifreiða.
„Við sameinuðum hefðbundið handverk við að smíða bíla, með því að hafa Google sem félaga okkar í að þróa upplýsinga- og afþreyingarkerfið og bjóða upp á þráðlausar uppfærslur,“ sagði hann fréttamönnum á netkynningu fyrir fjölmiðla um Polestar 2 í München í síðasta mánuði. „Þessi samsetning er mjög forvitnileg.“
Polestar 2 er fyrsta gerðin í Volvo fjölskyldunni til að fá Android stýrikerfi Google og samstarfsaðilar eru nú þegar að vinna að næstu kynslóðarkerfi, sagði bílaframleiðandinn í febrúar.
Upphafleg viðbrögð við bílnum hafa verið svo sterk að innlend söluteymi Polestar í Þýskalandi, Hollandi og Noregi hafa næstum selt úthlutanir sínar fyrir árið 2020, sagði talsmaður fyrirtækisins.
Framkvæmdastjóri Polestar Þýskalands, Alexander Lutz, hefur þegar beðið um fleiri bíla. „Við reiknum með að framboðið nægi ekki eftirspurninni,“ sagði hann við ANE í sérstöku myndsímtali.
Í Þýskalandi nýtur Polestar 2 góðs af hvata stjórnvalda og framleiðenda sem lækka byrjunarverð þess í 48.540 evrur frá um 56.000 evrum.
Aðrir Evrópumarkaðir bílsins eru Belgía, Svíþjóð, Sviss og Bretland. Hann er einnig fáanlegur í Bandaríkjunum, Kanada og Kína.
Ingenlath sagði að Polestar, muni halda áfram að leitast við að þræða línuna milli gamla og nýja bílaheimsins með því að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum frá nýjum samstarfsmönnum.
„Fyrir mér er þetta kjarninn í Polestar“, sagði hann, „að hafa ekki nein landamæri eða fordóma varðandi það sem þarf til að smíða þessa frábæru vöru“.
(frétt á Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein