Paddan helmingi ódýarari en Tesla Model 3
Rafbíllinn Aptera er um helmingi ódýrari en Tesla Model 3 en margir myndu benda á að hann sé líka helmingi „ljótari“. Jú, hann minnir dálítið á pöddu og það á hann sannarlega að gera en orðið „aptera“ vísar til skorkvikindis án vængja.
Aptera er nýr rafbíll sem er framleiddur í Kaliforníu. Í maí voru pantanir komnar yfir 22.000 sem segir manni að áhuginn er nokkur. Nú eru blaðamenn búnir að prófa bílinn vestanhafs og styttist vonandi í almenna afhendingu sem eitthvað hefur dregist.
Allt að 1.600 kílómetra drægni
Vænglausa liðdýrið, eða Aptera, er ekki algjör padda því margir eru hrifnir af henni; verðinu, drægninni, hröðuninni og notagildinu.
Grunnverðið er 25.900 dollarar eða um 3.6 milljónir íslenskra króna. Drægnin er í grunninn 250 mílur (400 km) en með stærri rafhlöðupakka verður drægnin allt að 1000 mílur eða 1.600 kílómetrar og kostar bíllinn með þeim pakka og aldrifi minna en grunngerðin af Tesla Model 3 (afturhjóladrifinni) sem svo oft er miðað við. Nánar um verðið má sjá hér.
Höfum samt í huga að það eru bara þrjú hjól undir Aptera og þetta er tveggja manna farartæki. Aptera er 3,5 sekúndur frá 0-60 mílur.
Bíllinn sá þolir allt að -30°C og gæti því vel átt heima í kuldanum, rétt eins og í hitanum því hann er þokkalega sáttur upp að 50°C. Þetta hljómar eflaust vel í eyrum Ástrala því þar fer Aptera á markað fljótlega. Æj, ég gleymi auðvitað stóru atriði: Markmið framleiðandans er að selja Aptera út um allan heim en Evrópa og Ástralía eru næst í röðinni á eftir Bandaríkjunum.
En áður en lesendur kveðja pödduna síkviku er kannski við hæfi að sjá hana „sprikla“:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein