Mazda kemur með smábíl á grunni Toyota til Evrópu á næsta ári
Nýi bíllinn mun nota hybrid drifrás til að draga úr CO2 losun
Sala hefst í vor á nýjum smábíl Mazda sem byggður er á Toyota Yaris. Kemur sá bíll í stað Mazda2. Myndin af Mazda2 Hybrid (hér að ofan) sýnir að hann er að mestu óbreyttur frá Yaris. Nýi bíllinn verður smíðaður í verksmiðju Toyota í Valenciennes í Frakklandi ásamt Yaris og verður eingöngu tvinnbíll, sagði Toyota Europe í tölvupósti til Automotive News Europe.
Myndir af bílnum, sem mun heita Mazda2 Hybrid, sýna að hann er að mestu óbreyttur frá Yaris að undanskildum Mazda-merkjum.
Þessi nýi Mazda2 Hybrid býður upp á „lipra meðhöndlun, hágæða akstur, þægilegt farþegarými og nýjustu öryggistækni“, sagði Mazda í tilkynningu. Mazda2 Hybrid mun nota drifrás Yaris tvinnbílsins, sem parar þriggja strokka bensínvél við litíumjónarafhlöðu til að minnka koltvísýringslosun í 92 grömm á km mælt samkvæmt WLTP ferlinu.
Mazda hafði sagt að fyrirtækið myndi bæta við smábíl byggðum á grunni Yaris, á afkomukynningu í nóvember 2020. Bíllinn mun hjálpa fyrirtækinu að uppfylla strangari CO2 reglugerðir Evrópusambandsins, sagði bílaframleiðandinn í kynningunni.
Mazda sameinar einnig bílasölu sína innan Evrópusambandsins við Toyota ásamt Suzuki og Subaru til að koma í veg fyrir sektir fyrir að ná ekki koltvísýringsmarkmiðum.
Núverandi Mazda2 kom á markað árið 2014 og var endurskoðaður árið 2019 til að bæta við hann mildri hybrid tækni.
Sala á Mazda2 í Evrópu jókst um 16 prósent fyrstu 10 mánuðina í 17.714 samkvæmt JATO. En magnið er langt undir þeim 37.112 bílum frá Mazda sem seldust í Evrópu allt árið 2019.
Toyota vill ekki tjá sig um hversu marga Mazda2 þeir muni smíða á ári. Yaris var annar mest seldi bíll Evrópu á 10 mánuðum ársins (til loka október), samkvæmt tölum JATO.
Hins vegar hefur Toyota varað við því að sala í Evrópu muni dragast saman á síðasta ársfjórðungi vegna skorts á örflögum.
Mazda mun einnig nota tvinnkerfi Toyota á nýjum sportjeppa fyrir Bandaríkin, sem búist er við að verði nýr CX-50, sem og í gerð fyrir Kína, sagði fyrirtækið í afkomuskýrslu sinni í nóvember 2020.
(frétt á Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein