Mazda mun fljótlega koma fram með endurmerkta útgáfu af Toyota Yaris í staðinn fyrir hinn aldraða Mazda 2
Mazda virðist ætla að koma fram með endurútgáfu af Toyota Yaris, sem gæti orðið staðgengill fyrir Mazda 2, sem er núna í sinni þriðju kynslóð frá árinu 2014. Ekkert er opinbert enn, en eftir að hafa kynnt sér ýmsar kynningar fjárfesta fyrirtækisins og útreikninga, er þetta niðurstaðan hjá breska bílavefnum Auto Express.
Langvarandi samstarf Toyota og Mazda
Nýi bíllinn verður hluti af langvarandi samstarfi Mazda og Toyota, en framleiðendurnir tveir munu vinna saman við allt frá tækni fyrir sjálfstæðan akstur til hreinna rafknúinna ökutækja.
Á kynningu fjárfesta í nóvember 2020 tilkynnti Mazda að fyrirtækið myndi setja á markað „endurframleiðslugerð (OEM) sem byggð er á Yaris THS“ árið 2022. Býst blaðamaður Auto Express við að verði næsta kynslóð Mazda 2, í ljósi þess hve svipaðir bílarnir eru að stærð.
Í júní á þessu ári tilkynnti Mazda að fyrirtækið myndi setja 13 nýjar gerðir rafmagnsbíla á markað árið 2025. Þeir yrðu aðskildir í fimm tengitvinnbíla, fimm blendinga og þrjá rafbíla. Í sömu skýrslu staðfesti Mazda einnig að blendingarnir verða knúnir sömu rafmögnuðu tækni og í nýjustu Prius og Yaris – sem nefnt hefur verið Toyota Hybrid System (THS).
Svipað samstarf á milli Toyota og Suzuki
Við höfum þegar séð svipað samstarf milli Toyota og Suzuki. Síðarnefnda fyrirtækið hleypti nýlega af stokkunum Swace-stationbílnum og Across sportjeppanum, sem eru minniháttar breytingar á Corolla og RAV4 og deila sama grunni, aflrásum, tækni og stærstum hluta útlits með samsvarandi bílum frá Toyota.
Svo að næsta gerð Mazda 2 mun, samkvæmt þessu, nota sama grunn og yfirbyggingu og nýjasti Yaris, þar sem Mazda gerir nokkrar breytingar á framendanum og innréttingum til að gera bílinn að sínum.
Sama vél og í Toyota
1,5 lítra bensínblendingvél Toyota, sem er 114 hö verður einnig samnýtt á þessum tveimur bílum, sem þýðir að eyðslutölur um 3,62 lítrar/100 km ættu að vera mögulegar. Sem aukinn ávinningur fyrir Mazda mun tvinnbílsaflrás Toyota einnig draga úr losun flotans og hjálpa fyrirtækinu að mæta sífellt hertum CO2 reglum.
Hvað varðar innanrými segja þeir hjá Auto Express að búast megi við sama fyrirkomulagi mælaborðs, stafrænna mæla og sjö tommu upplýsingakerfis og í Yaris, þótt grafík Toyota-skjáanna verði skipt út fyrir Mazda-bílana til samræmis við merkið á farangursgeymslu bílsins.
(frétt á Auto Express)
Umræður um þessa grein