Nýr 2022 Land Rover Defender 130 frumsýndur 31. maí
Lengri útgáfa af Land Rover Defender – 130 bíllinn – mun koma með sæti fyrir allt að átta manns.
Nokkuð hefur verið fjallað um væntanlegan Land Rover Defender 130 og nú hefur Land Rover staðfest að lengsta útgáfan af Defender torfærubílnum verði frumsýnd 31. maí, og birti jafnframt myndina hér að ofan sem sýnir bílinn í reynsluakstri í sandöldum í einhverri eyðimörk.
Eins og sjá má á þessari kynningarmynd, þá er Land Rover Defender 130 með töluvert lengri yfirbyggingu en styttri 90 og 110 gerðirnar af Defender, sem gerir hann að stærstu og rúmbestu gerð bílsins til þessa.
Hann er líka með mestu sætisgetu allra núverandi Defender. Á meðan Defender 90 og Defender 110 koma í staðalgerð með fimm sæta skipulagi (tveir að framan og þriggja sæta bekkur að aftan), þá mun Defender 130 hafa sætaröð til viðbótar sem eykur heildarfjöldann í átta.
Byggt á kynningarmyndinni, og allt í raun staðfest af njósnamyndum og einkaleyfisteikningum, virðist þessi auka sætisgeta ekki hafa verið möguleg eingöngu með því að auka hjólhaf Defender (fjarlægðin milli fram- og afturhjóla).
Þess í stað verður Defender 130 með lengra yfirhang að aftan en Defender 110 og með stærri hliðarglugga sem ná alla leið aftur á bílinn.
Land Rover hefur ekki staðfest hversu langur nýi Defender 130 verður, þó sögusagnir segi að hann sé um 5,1 metri.
Þetta myndi gera þessa Defender 130 gerð um það bil 342 mm lengri en Defender 110 og 227 mm lengri en einn helsti keppinautur hans, Mercedes-Benz G-Class.
Sömuleiðis eru upplýsingar um vélina á huldu þar til frumsýningin kemur 31. maí, en gert er ráð fyrir að að minnsta kosti meirihluti þeirra véla sem til eru í núverandi Defender 90 og Defender 110 gerðum verði boðnar á Defender 130.
Þar af leiðandi má búast við að úrval véla verði með 296 hestafla mild-hybrid 3,0 lítra tvegga túrbó sex-strokka-línudísilvél, 394 hestafla mild-hybrid 3,0 lítra turbó sex strokka línubensínvél og 399 hestafla P400e tengitvinnbíl. 518 hestafla 5,0 lítra V8-vélin með forþjöppu sem notuð er í sumum bílum Land Rover gæti einnig verið fáanleg í Defender 130.
Land Rover hefur staðfest að hægt verði að panta Defender 130 um leið og hann verður afhjúpaður á frumsýningunni, og kaupendur ættu ekki að vera hissa ef bíllinn verður töluvert dýrari en Defender 110 gerðin.
Þetta er vegna þess að Defender 130 er líklega staðsettur sem lúxusútgáfa af núverandi Defender og gæti aðeins verið fáanlegur í dýrustu útfærslunum.
Þrátt fyrir aukna lengd bílsins og meira innra rými er ólíklegt að Defender 130 verði fáanlegur með „Hard Top“ lokuðu húsi sem ætlað er ökumönnum atvinnubíla.
Teygður Defender 130 eykur hins vegar líkurnar á því að Land Rover setji á markað „double-cab“ pallbílsútgáfu af Defender. Fari hann í framleiðslu myndi hann keppa við sérhæfðari pallbíla á borð við Ford Ranger og væntanlegan Volkswagen Amarok.
(Frétt á vef Auto Express)
Umræður um þessa grein