Nissan Sakura tekur upp arfleifð litla i-MiEV
Nissan mun kynna lítinn rafmagns-sportjeppa á næsta ári og nefnist hann Sakura. 3,4 metra langir borgarbílar eru ein meginástæða þess að umferð í stórborgunum í Japan hefur gengið hnökralaust fyrir sig. Af hverju eigum við svo fáa borgarbíla?
Japönsku smábílarnir, skilgreindir sem Kei bílar með hámarkslengd 3,4 metrar, mest 1,48 metrar á breidd og með vél sem er ekki meira en 64 hestöfl, eru um þriðjungur af japanska innanlandsmarkaðinum.
Já auðvitað. Fyrsta gerðin sem gerði rafbíla rúmgóða og aðlaðandi í Evrópu var í raun Kei: Mitsubishi i-MiEV sem kom á markað síðla árs 2010.
Mitsubishi i-Miev kom til Íslands og í raun nokkrir slíkir, þar á meðal afhenti Hekla átta fyrirtækjum tólf slíka bíla í ágúst 2013.
Sá sem þetta skrifar reynsluók þessum bíl á sínum tíma, hann var sprækur og skemmtilegur en drægnin ver langt frá því sem við þekkjum í dag í rafbílum.
10.000 til Noregs á sínum tíma
Þessi bíll var í raun seldur í Evrópu í 3 gerðum því bíllinn var einnig seldur sem Citroën C-Zero og Peugeot iOn. Þegar „þríburarnir eru dregnir saman“ voru sem dæmi um 10.000 þeirra fluttir til Noregs.
Reyndar var bíllinn bara kallaður „i“ og var afrakstur samstarfs Mitsubishi og Mercedes. Bíllinn deildi grunni með Smart ForFour og var því með vélina að aftan, ólíkt nánast öllum öðrum japönskum smábílum sem voru í grundvallaratriðum framhjóladrifnir.
Með því að bæta við „i“ og gera bílinn rafknúinn varð i-MiEV = intelligent (greindur) Mitsubishi rafbíllinn að veruleika.
Bíllinn var lítill en hann var með ABS bremsur, loftpúða og rafdrifnar rúður, eins og búast má við að nútímabílar hafi. Þá skipti ekki miklu máli hvort hann væri lítill eður ei því það var svo auðvelt að koma sér fyrir innan um stærri bíla í þröngum götum.
Blóm kirsuberjatrésins
Þannig að þegar Nissan fyllir nú rafknúið smábílsskarðið eftir Mitsubishi i-MiEV (Nissan tryggði sér stjórn á Mitsubishi fyrir nokkrum árum) þá er það með Sakura, með alveg sömu ytri mál og i-MiEV og svipaða getu og frammistöðu.
Rafhlaðan upp á 20 kWt er heldur ekki mikið stærri en í japanska smábílnum fyrir næstum 12 árum, en mælt með japanska prófunarferlinu er talað um 180 km drægni hjá Sakura-rafbílnum..
Einnig er hægt að nota rafhlöðuna í bílnum sem aflgjafa fyrir farsíma í neyðartilvikum og til að veita heimilinu afl í einn dag.
„Við teljum að Sakura muni breyta stöðunni fyrir japanska markaðinn og gera rafbíla mun aðgengilegri fyrir viðskiptavini í Japan,“ sagði Asako Hoshino hjá Nissan við kynninguna.
Því miður hefur Nissan engin áform um að flytja bílinn út eins og er, en hver veit nema að hann birtist í Evrópu einn daginn líkt og MiEV gerði á sínum tíma.
Litlir bílar þurfa ekki að vera minna búnir en stórir, svo Sakura, sem er nefndur er eftir japanska kirsuberjatrénu sem blómstrar svo fallega á vorin, býr vissulega yfir allri þeirri akstursaðstoð sem völ er á í dag. Þetta felur einnig í sér ProPilot sjálfkeyrslugetu á stigi 2.
Hann hefur þrjár akstursstillingar: Eco, Standard og Sport, og auðvitað eins fótstigs stýringu á akstrinum.
Nissan Sakura fer í sölu í Japan í sumar og mun kosta 2.333.100 ¥, eða um 2,4 milljónir króna á Japansmarkaði að meðtöldum innlendum styrkjum upp á 550.000 ¥ eða 555 þúsund ISK.
(frétt á vef BilNorge)
Umræður um þessa grein