Nissan Maxima mun hætta í framleiðslu árið 2023
En hugsanlega gæti Maxima-nafnið komið aftur
Autoblog færir okkur þær fréttir að enn eitt kunnuglegt nafn í bílaheiminum muni hætta: Eins og svo margir ástsælir fólksbílar á undan, hefur Nissan staðfest að Maxima muni „stíga upp í stóra ruslahauginn á himni“ þegar framleiðsluferli núverandi kynslóðar tegundarinnar er lokið einhvern tímann á miðju ári 2023.
Þó að fréttirnar komi vissulega ekki á óvart þá er þetta samt súrt í broti fyrir aðdáendur stórra fólksbíla sem leitast við að fara bil beggja milli þæginda og sportleika.
Það eru ekki margir svona bílar eftir – sumir hafa horfið þar sem vörumerki eins og Pontiac og Oldsmobile voru slegin af, önnur eins og Chevy Impala og Buick Regal frá Ameríku og Acura RLX og Lexus GS frá Japan dóu þar sem sölutölur þeirra lækkuðu í uppsveiflu sportjeppa og fjárfestingu bílaframleiðenda í rafvæðingu.
Andlát Maxima má rekja til sumra þessara ástæðna. Í yfirlýsingu sem Nissan sendi til Motor1 sagðist framleiðandinn vera „að forgangsraða rafknúnum ökutækjum og háþróaðri tækni.“
Auk þess kynnti Nissan fyrr á þessu ári tvær glænýjar, alrafmagnaðar gerðir í Canton samsetningarverksmiðjunni í Mississippi.
Var „lúxusbíll“ hjá Nissan
Maxima kom hingað til lands undir lok síðustu aldar, því Ingvar Helgason markaðssetti bíllinn sem „lúxusbíl“ á þeim tíma.
Ekki komu margir svona bílar til Íslands á þessum tíma, en nóg til þess að hann komst í reynsluakstur, eins og hér segir í ágúst 1998:
„Aflmikill og sérlega Ijúfur,“ skrifaði undirritaður um reynsluakstur Nissan Maxima QX 3,0 V6. „Allir bílaframleiðendur bjóða upp á töluverða breidd bíla og margir eru með bíla sem spanna allt sviðið frá minnstu smábílum upp í háþróaða lúxusvagna.
Hér á landi fáum við oft ekki að sjá nema brot af framleiðslulínu hinna ýmsu bílaframleiðenda en þó slæðist einn og einn bíll í „betri“ flokki hingað þótt sjaldan sjáist bílar í efstu flokkunum hér.
Japanski bílaframleiðandinn Nissan er enginn eftirbátur annarra bílaframleiðenda þegar kemur að breiðri línu og meðal bíla í „betri“ flokki þar á bæ er glæsivagninn Nissan Maxima QX. Það er einmitt einn slíkur sem við erum með í reynsluakstri í dag.
Við tókum einn slíkan í reynsluakstur fyrir tveimur árum, þá með 2,0 lítra vél sem skilar 140 hestöflum.
Í ljósi þess hve langt er um liðið frá fyrstu kynnum við Maxima QX og einnig að nú er bíllinn einnig kominn hingað með 3ja lítra vél, sem skilar ríflega 193 hestöflum, er rétt að endumýja kynnin.
Hróður Maxima QX hafði borist hingað til lands löngu á undan bílnum og í erlendum bílablöðum mátti sjá hástemmdar lýsingar á góðum aksturseiginleikum bflsins“.
Svo mörg voru þau orð fyrir 24 árum, en núna sem sagt mun Maxima væntanlega heyra sögunni til.
En kemur nafnið aftur?
En þetta eru kannski ekki opinber endalok Maxima nafnsins.
Yfirlýsing Nissan gefur möguleika á því að stóri fólksbíllinn gæti snúið aftur í einhverri mynd í framtíðinni.
„Vinsamlegast fylgist með fréttum af Nissan Maxima í framtíðinni þar sem við munum koma með spennandi farartæki og tækninýjungar,“ segir Nissan, sem fær okkur til að trúa því að rafknúinn Maxima eða annar rafknúinn bíll gæti verið í sjónmáli.
(frétt á Autoblog í DV Bílum í ágúst 1998)
Umræður um þessa grein