Nissan kynnir Townstar
- Nissan setur á markað Townstar, lítinn sendibíl sem verður fáanlegur raf- eða bensínknúinn.
- Byggður á Kangoo frá samstarfsaðilanum Renault og verður smíðaður í Frakklandi; Nissan er að endurskipuleggja framboð sendibíla í tilraun til að auka markaðshlutdeild
PARÍS: Nissan setur á markað Townstar, lítinn sendibíl sem er byggður á Kangoo frá bandalagsaðilanum Renault, sem hluta af endurskipulagningu á framboði smærri sendibíla.
Townstar verður fáanlegur annaðhvort með bensínvél eða sem fullrafmagnaður bíll, en það verður enginn valkostur fyrir dísil, sem hefur verið ráðandi á þessum markaði í áratugi.
Townstar verður smíðaður í verksmiðju Renault í Maubeuge í Norður-Frakklandi og sömuleiðis afbrigði frá Mercedes-Benz, Citan. Eins og Kangoo og Citan, þá verður hann fáanlegur í farþega- og sendibílaútgáfum. Hvorki var gefið upp hvenær áætlað er að bíllinn fari í sölu né verð.
Tveir aðrir sendibílar Nissan, hinn meðalstóri NV300 og stóri NV400, munu fá nafnið Primastar og Interstar í sömu röð, sagði vörumerkið í fréttatilkynningu á mánudag. Primastar er byggður á Renault Trafic og Interstar er byggður á Renault Master.
Nissan leitast við að auka hlut sinn á markaði léttari sendibíla með nýjum merkjum og þessum nýja Townstar, að því er Emmanuelle Serazin, sölustjóri hjá Nissan Europe, sagði í tilkynningunni.
„Við erum að forgangsraða framboði sendibíla okkar og nýtum styrk og sérþekkingu bandalagsins til að stuðla að sjálfbærum vexti,“ sagði hún.
Bensínvalkostur Townstar verður 1,3 lítra fjögurra strokka vél (þróuð með Daimler) sem skilar 130 hestöflum. Rafmagnsútgáfan verður með 44 kWh rafhlöðu sem framleiðir jafngildi 122 hestafla. Nissan áætlar að drægi verði 285 km.
Nissan hefur bætt við háþróaðri öryggis- og akstursaðstoð, þar á meðal 360 gráðu myndavél og, á rafmagnsgerðunum; ProPilot kerfi vörumerkisins, sem felur m.a. í sér aðlögunarhæfa hraðastjórnun. Ökutæki með ProPilot geta farið um mjúkar beygjur og hægt á niður í stöðvun án inngrips ökumanns.
Að innan er 8 tommu miðlægur snertiskjár og „fljótandi“ miðjustokkur sem gerir kleift að geyma fleiri hluti við gírskiptinguna.
Tekur við af e-NV200
Rafmagnsútgáfan af Townstar mun taka við af e-NV200, einum af fyrstu og vinsælustu, rafknúnu sendibílunum í Evrópu. 42.000 e-NV200 hafa selst frá því bíllinn kom á markað árið 2014, að sögn Nissan. Hann hefur lengi verið vinsælasti litli rafmagnsbíllinn í Evrópu ásamt Renault Kangoo ZE.
Townstar, líkt og Kangoo og Citan, er smíðaður á CMF-C/D grunni Renault-Nissan bandalagsins fyrir smærri og miðlungs bíla. Bíllinn mun hafa sín einkenni á framendanum, sem Nissan sagði hugsanlega svipa til væntanlegs sportjeppa; rafmagnsbílsins Ariya.
Kangoo býður upp á breitt úrval af drifrásum, þar á meðal tveimur bensín, þremur dísil, fullblendingi (árið 2023) og rafmagns. Sá bíll mun einnig koma í tveimur lengdum.
Auk Kangoo og Citan mun Townstar vera í samkeppni við smærri sendibíla frá Stellantis (Citroen Berlingo og Peugeot Partner), Volkswagen Caddy (nýr á þessu ári), Toyota ProAce (afbrigði af litlum sendibílum Stellantis) og Ford Transit Connect.
Kangoo ZE og Nissan e-NV200 hafa verið mest seldu rafbílarnir undanfarin ár en Peugeot, Citroen og Toyota eru nú fáanlegir sem sendibílar. Caddy og Transit Connect eru ekki með rafmagnsvalkosti en VW Group er að undirbúa markaðssetningu lítils rafknúins sendibíls til að deila með Ford og mun byggjast á ID Buzz hugmyndinni.
Dísilvélin er enn ríkjandi
JATO Dynamics, sem fylgist með evrópskum skráningum, flokkar þessa smærri sendibíla sem „sendibíla byggða á fólksbílum“, þar sem þeir eru smíðaðir á grunni fólksbíla.
Samkvæmt tölum frá JATO var evrópska metsöluliðið árið 2020 Berlingo, með 65.869 sölur, síðan Partner (64.369), Kangoo (52.459), Caddy (49.138) og Transit Connect (37.389).
Evrópsku bílasamtökin ACEA greindu frá því að aðeins 2 prósent allra smærri sendibíla sem seld voru innan ESB árið 2020 væru að fullu rafknúnir, með dísil 92 prósent og bensín 3,4 prósent. Heildarsala rafbíla í öllum stærðum var 28.597, sem er 28 prósenta aukning frá árinu 2019.
Stærstu markaðir rafknúinna sendibíla voru Frakkland, með 9.209 sölur og Þýskaland með 8.830 sölur. Bretland skráði 5.266 sölur árið 2020, samkvæmt ACEA.
Erfitt er að rekja sölu eftir gerðum, en Renault seldi 4.735 rafknúna Kangoo-bíla á fyrrihluta ársins 2021 í Evrópu, að sögn bílaframleiðandans. Renault seldi 9.919 rafmagns Kangoo í Evrópu árið 2020 og 10.111 árið 2019.
(Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein