Lítill 600 hestafla rafmagnspallbíll
- Canoo leggur áherslu á notagildi og hagkvæmni og má segja að þetta sé nokkuð vinaleg hönnun á bíl
Ansi flottur pallbíll
Þeim fjölgar enn rafmagnspallbílunum. Canoo er nýr framleiðandi á rafbílamarkaði og bætir nú við annars langan lista, einum pallbílnum enn, sem reyndar er nú ekki alveg tilbúinn í sölu.
Bílnum hefur ekki verið gefið nafn en Canoo nefnir hann einfaldlega pallbílinn.
Þó svo að þessi nýi pallbíll sé ekki nærri því eins áberandi öfgafullur eins og „Ceybertruck”, þýðir það ekki endilega að hann sé síður áhugaverður.
Sexý hönnun
Einstök hönnun er það sem vekur áhugann. Þessi gaur er frambyggður og er ekki með þetta týpíska ferkantaða, boxlaga útlit. Hann svipar meira að segja aðeins til Dodge A100, alveg húddlaus með stórum palli.
Sjá má einkennandi ljósahönnun Canoo framleiðandans en það er eins og ljósin nái fyrir horn. Bíllinn er fjögurra dyra en aftari hurðarnar eru aðeins hálfar að stærð á við þær fremri.
Eins langt er á milli öxla eins og mögulega unnt er og brettakantar ná yfir vegleg hjólin.
Notagildi og hagkvæmni
Pallurinn er alger snilld. Hann er frekar stór miðað við stærð bílsins eða um 1200x2500mm og búinn borðum sem hægt er að draga út til hliðanna. Á pallinum er stemningslýsing ásamt möguleika á að skipta pallinum í smærri einingar. Á pallinum eru síðan festingar fyrir farm t.d. hjól eða vélsleða – og hægt að stinga í samband við rafmagn.
Ný hugsun
Að framan er stórsniðugt geymslurými en því fylgir borð sem hægt er að draga út. Canoo kom fyrir sex rafmagnsinnstungum ásamt fjórum USB tengjum víðsvegar um bílinn. Það er nú meira en hægt er að segja um meðal hótelherbergi. Að lokum hafa þeir komið fyrir rúmgóðu farangursrými fyrir aftan sætin í ökumannsrýminu.
Fjölnota
Það er ekki annað hægt að segja en þessi hönnun sé hin hugvitsamlegasta. Canoo býður upp á pallhús eða skel sem lokar pallinum alveg en að auki er reiknað með að þú getir tjaldað á toppnum. Bíllinn á að hafa eitt lægsta fótspor (kolefna) á markaðnum en bíllinn er um 10cm styttri en nýjasta útgáfan af 3 línu BMW.
Canoo álítur að hönnun bílsins gefi svipað notagildi og hefðbundnari pallbílar þar sem ekki fer neitt pláss í vélarrúm.
Enginn aumingi
Krafa er gerð um ákveðna drægni og hefur heyrst að hún verði allavega um 320km án þess þó að framleiðandinn hafi gefið það út. Canoo mun bjóða pallbílinn í tveimur megin útfærslum – með einum rafmótor eða með tveimur rafmótorum. Tveggja rafmótora útgáfan er áætluð um 600 hestöfl sem togar um 750 Nm.
Að sjálfsögðu verður þessi bíll talsvert þungur en gert er ráð fyrir að ofangreint afl sé meira en nóg fyrir þennan pallbíl. Canoo ætlar að pallbíllinn geti borið ríflega 800 kg. en óvíst er með toggetu.
Engar af meðfylgjandi myndum sýna útgáfu með aftursætum en Canoo heldur fram að hægt verði að panta bílinn með aukasætum og þá sé pláss fyrir ökumann og þrjá farþega.
Canoo álítur einnig að eftirspurn sé eftir tveggja sæta bílnum þar sem hann hefur talsvert farmrými sem sem eykur notagildið.
Nú, ef þú hefur áhuga segja Canoo menn að hægt verði að byrja að forpanta bílinn núna í apríl 2021. Fyrstu afhendingar fara fram 2023.
Verðið er ekki á hreinu en miðað við að MPDV einrýmisbíll Canoo sem byggður er á sama grunni sé á um 33 þúsund dollara binda menn vonir við að verðið á pallbílnum verði þolanlegt.
(Byggt á grein Autoblog)
Umræður um þessa grein