Íturvaxnir og ofurlágir
Þjóðverjar hafa verið duglegir í bílaframleiðslu. Með sínar sléttu beinu hraðbrautir frá því um miðja síðustu öld hafa þeir smíðað bíla sem hannaðir eru til að límast við þessa vegi.
Árið 1974 leit dagsins ljós lítill og frekar kantaður bíll með alveg nýju lúkki hjá Volkswagen. Sá var kallaður Golf. Nú hefur þessi vinsæli og praktíski bíll verið framleiddur í yfir 35 milljónum eintaka síðustu tæp 50 árin.
Það var hópur verkfræðinga innan VW sem fékk yfirstjórn Volkswagen til að skoða hugmyndina að sportlegri útfærslu af Golf. Vinnuheiti þess bíls var einfaldlega Sport Golf.
Þessi fyrsti sportlegi Golf fékk svo gerðarheitið Golf GTI (Grand Touring Injection). Bíllinn var byggður á nokkrum forverum sínum eins og Audi 80, Fox GT og var með litla 1,6 lítra vél. Fyrsti Golfinn var svo heilar 9 sekúndur í 100 km/klst. sem verður að teljast gott fyrir lítinn fjögurra strokka bíl á þessum tíma.
Fyrsta kynslóð Golf var framleidd á árunum 1976 til 1984 og var kallaður Rabbit í Ameríkunni. En það gerðist þó ekki strax því GTI kom ekki til Ameríku fyrr en um 1983 og var síðan markaðssettur sem Golf frá 1985 þar í landi.
Undirritaður vann sem sendill hjá fyrirtæki í Reykjavík í kringum 1987 sem rak nokkra Golfa. Eitt sinn á leið minni upp Borgartúnið kemur Opel Kadett niður Nóatúnið og keyrir inn í hliðina á Golfinum. Eldri maður við stýrið á Opel var illa áttaður og spurði hvaðan ég hefði komið. Þetta var annarrar kynslóðar Golf. Hliðin á bílnum gekk öll inn en miðjubitinn tryggði að ég slasaðist ekki. Í mínum huga er Golf sterkur og góður bíll.
Bíllinn snerist við áreksturinn og skall framan á bíl sem kom á móti. Þennan Golf var gert við og átti hann mörg ár eftir. ?
?
Fyrirtækið keypti síðan þriðju kynslóðar Golf sem heyrst hafði að ættu að fara til Saudi Arabíu. Þeir bílar voru með 1.4 lítra vél og afar kraftlausir. Hins vegar náðum við að aka þeim þokkalega með því að þenja gripina og nota gírana. Þegar bíllinn var kominn á ferð var draumur að aka honum.
Fyrsta kynslóð Golf var síðan framleidd í Suður-Afríku undir nafninu Citi Golf til 2009.
Átta kynslóðir af Golf hafa litið dagsins ljós og alltaf haldið tryggum aðdáendahópi. Sú síðasta kom 2018. Upphaflega átti einungis að framleiða 5000 bíla af GTI gerðinni en nú fimmtíu árum seinna hafa selst um 22 milljónir GTI bíla.
Golfinn á sér marga bræður og systur. Hann er framleiddur á A undirvagni Volkswagen sem einnig er notaður í New Beetle, Bora, Jetta, Sirocco og Eos. Sami undirvagn er einnig notaður fyrir Audi TT og Audi A3.
Fyrsti GTI bíllinn var aðeins 110 hestöfl en fram til dagsins í dag hafa sést GTI bílar með hestaflatölu langt upp í fjórða hundraðið.
GTI merkið hefur svo sannarlega staðið fyrir sínu í gegnum tíðina en það voru líka til gerðarheitin GL, CL, Gli, G60, VR6, 8V og 16V.
Síðasti Golf GTI kom með sjöundu kynslóð bílsins en nú hefur GTE tekið við keflinu en hann er einnig með rafmótor.
Látum myndirnar tala:
Umræður um þessa grein