Fólk virðist hreinlega elska þennan rafknúna pallbíl, Rivian R1T, sem sést nú á bandarískum vegum.
„Ég og vinnufélagi minn sáum í dag Rivian R1T í Aurora í Colorado! Ég varð svo uppveðraður af því að sjá loksins rafmagnspallbíl í umferðinni,“ skrifaði maður nokkur á Twitter í gær.

Sömu sögu er að segja af fjölmörgum öðrum sem deilt hafa myndum af fyrstu eintökum þessa áhugaverða ökutækis sem fjölgar nú óðum á vegum úti.
Bandaríkjamenn stoltir af bílnum
EV Brief birti á Twitter mynd af gulum Rivian R1T og í myndatextanum segir m.a. „Takið eftir þessum Mercedes ML fyrir aftan [aftan við Rivian]. Það sem áður var meðalstór SUV líkist einna helst Kia Picanto við hliðina á Rivian.“

Margir deila færslu með myndunum sem birtar eru hér og segir Drive Tesla Canada: „Tveir splunkunýir Rivian R1T sáust í St. Louis. Ökumenn sögðu að þeir væru nýsmíðaðir [e. freshly built] og þeim ekið beint úr verksmiðjunni í Normal, Illinois,“ stóð þar skrifað.
„Splunkunýir“ og alveg „nýsmíðaðir“! Ojæja, fólki fyrirgefst nú eitt og annað í geðshræringarskrifum en ljóst er að framleiðslan á Rivian er Bandaríkjamönnum mikið gleðiefni.
Og ef til vill er þjóðarstoltið að rísa upp úr öskunni eftir hrakfarir á ýmsum sviðum bandarísks veruleika síðustu misserin. Án þess að farið sé nánar út í það.
Hver er þessi Robert J. Scaringe?
Sprotafyrirtækið Rivian Automotive (hét í upphafi Mainstream Motors) var stofnað árið 2009 af 25 ára gömlum manni að nafni Robert J. Scaringe. Hann er með doktorsgráðu í vélaverkfræði frá MIT en vélaverkfræðina valdi hann af góðri og gildri ástæðu; Hann vildi breyta áherslum í bílaframleiðslu og endurhanna það sem Bandaríkjamenn hafa kallað „bifreið“ sem og viðhorf þeirra til samgangna.
Með umhverfissjónarmið að leiðarljósi hefur sprotafyrirtækið farið af byrjunarreit og það hressilega því hlutafé í fyrirtækinu nemur 10.5 milljörðum dala.
Já, og starfsmenn eru nú yfir 8000 talsins. Í upphafi störfuðu tuttugu manns hjá fyrirtækinu.

Og hvað fleira? Nú er Robert orðinn 37 ára gamall, faðir, kvæntur huggulegustu konu og fyrsta gerðin af Rivian, R1T, er komin í gagnið. Ekki nóg með það, heldur eru viðtökurnar með eindæmum góðar!
Hlutur Amazon og Ford
Ford á rúmlega 10% hlut í Rivian og mun eitthvert samstarf vera í bílgerð um framleiðslubíl. Amazon á sömuleiðis myndarlegan hlut í Rivian, sem nemur rúmum milljarði dollara.
Rivian Automotive er að smíða umhverfisvæna flutningabíla fyrir Amazon og gengið var frá samningi árið 2019 um smíði á 100.000 slíkum bílum. Fyrstu 10.000 eintökin verða afhent innan skamms og allt heila klabbið fyrir árið 2030.
Þessi sást fyrir nokkrum dögum:
Maðurinn sem ákvað átján ára gamall að smíða bíl, einstakan bíl, brosir allan hringinn í dag og ekki laust við að sköpunarkrafturinn, gleðin og bjartsýnin „smiti“ út frá sér til bandarísku þjóðarinnar. Nánar má lesa um framtíðarsýn Rivian Automotive hér og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig framleiðslunni vindur fram.
Umræður um þessa grein